04.06.1985
Neðri deild: 82. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5890 í B-deild Alþingistíðinda. (5243)

470. mál, Þroskaþjálfaskóli Íslands

Frsm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég þakka forseta fyrir að taka þetta mál fyrir nú sem ég bað hann um af sérstökum ástæðum. En það á ekki að þurfa að kosta langa umr. vegna þess að málið var rætt við 2. umr. Ég mælti þá fyrir áliti n. sem var sammála um að mæla með samþykkt frv., en þrír hv. nm. voru þó með fyrirvara. Þegar 2. umr. fór fram voru komnar fram þrjár brtt. frá fjórum hv. þm. deildarinnar.

Ég skýrði þá frá því og óskaði eftir því við 2. umr. málsins að þessar brtt. yrðu teknar aftur til 3. umr. og ég mundi leitast við að ná samkomulagi við flm. um að sameinast um brtt. við 5. gr., en allar brtt. vörðuðu 5. gr. frv. Við héldum svo fund í heilbr.- og trn. í gær og þar voru allir nm. mættir utan einn sem var forfallaður. Þar urðum við sammála um að flytja sameiginlega þá brtt. sem kemur fram á þskj. 1106 við 5. gr.

Við fengum á fund okkar stjórnendur úr Félagi þroskaþjálfa og sannast sagna höfðu skoðanir þeirra mikil áhrif á sum okkar sem vildum ekki verða til þess að láta það álit koma upp að við værum á einhvern hátt að gera álit þessa litla félags og þessarar fámennu stéttar minna en vera bæri. Það breytir því ekki að bæði ég persónulega og fleiri nm. erum þeirrar skoðunar að stúdentspróf eigi ekki að vera nein sérstök viðmiðun í sambandi við ýmsar slíkar stéttir sem starfa í þjóðfélaginu. Það er margt annað nám, sem landsmenn eiga nú kost á að stunda, sem er fyllilega frambærilegt til þess að fara slíkar brautir. Ef því er fylgt sem nú er uppi víðs vegar um heim, að fara svokallaða þrepaleið, þá er að sjálfsögðu hægt að feta sig hana áfram lóðrétt, en eins og hér hefur margoft á undanförnum áratugum verið rætt þá er líka hægt að fara lárétta leið á milli slíkra greina.

Ég hef rætt við flm. brtt. sem hér komu og þeir eru sammála um það að draga sínar brtt. til baka og fylkja sér um að samþykkja þá brtt. á d-lið sem kemur fram á þessu umrædda þskj.