04.06.1985
Neðri deild: 82. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5892 í B-deild Alþingistíðinda. (5245)

470. mál, Þroskaþjálfaskóli Íslands

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Hér eru á dagskrá hv. Nd. 17 mál og hér er nú lokið síðustu umr. í deildinni um frv. til l. um Þroskaþjálfaskóla Íslands, sem er 470. mál Ed. og á væntanlega eftir að fara til þeirrar hv. deildar á ný. Ég vil spyrja hæstv. forseta að því hverju það sætir að ekki eru látin ganga atkvæði um mál þegar umr. er lokið. Hvaða þingflokkur hefur óskað eftir því að atkvæði verði ekki látin ganga eða er það ákvörðun hæstv. forseta að láta ekki ganga atkvæði í þeim málum sem hér lýkur afgreiðslu á? Þetta er nauðsynlegt að fáist upplýst vegna þess að það hefur verið fullyrt, m. a. í nefndum þingsins að undanförnu, að hér væri mikið að starfa, menn þyrftu að sitja hér sem lengst, taka þátt í nefndarstörfum, taka þátt í deildarfundum og fundum í Sþ., mæta vel og greiða fyrir málum. Af þeirri ástæðu er nauðsynlegt að hæstv. forseti þessarar deildar upplýsi: Hvaða þingflokkur er það sem kemur í veg fyrir að Nd. Alþingis geti afgreitt mál á þessum fundi?