06.11.1984
Sameinað þing: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 779 í B-deild Alþingistíðinda. (525)

65. mál, sala á íslenskum frímerkjum erlendis

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Fyrsta spurningin er: „Hverjar voru tekjur Pósts og síma af sölu íslenskra frímerkja til annarra landa árin 1980–1983?“

Svar: Tekjur Frímerkjasölu Pósts og síma af sölu frímerkja til annarra landa á þessu tímabili voru sem hér segir:

Árið 1980 3 millj. 345 þús. Aukning frá fyrra ári 33%.

Árið 1981 6 millj. 254 þús. Aukning frá árinu á undan 87%.

Árið 1982 9 millj. 584 þús. Aukning frá árinu á undan 53%.

Árið 1983 18 millj. 620 þús., aukning frá árinu á undan 94%.

Önnur spurning: „Hvernig er staðið að kynningu og sölustarfsemi?“

Svar: a) Upplýsingabréf á fimm tungumálum (íslensku, dönsku, ensku, þýsku og frönsku) um ný frímerki eru send föstum viðskiptavinum, blöðum, tímaritum, söfnum, frímerkjaklúbbum o. s. frv. um víða veröld, samtals yfir 20 þús. eintök hverju sinni.

b) Almennir kynningarbæklingar, þar sem annars vegar er gerð grein fyrir útgáfustefnunni almennt og hins vegar þjónustu Frímerkjasölunnar við safnara (föst áskrift að nýjum frímerkjum o.s.frv.) eru látnir liggja frammi á frímerkjasýningum og víðar og hafa verið þýddir á ýmis tungumál eftir því sem við hefur átt.

c) Með þátttöku í frímerkjasýningum og eftir atvikum með sérstakri söludeild eða með því að hafa til sýnis íslensk frímerki. Þannig hefur Frímerkjasalan tekið þátt í sölusýningum erlendis, bæði vestan hafs og austan, en sleppt að fara til fjarlægari landa, svo sem Austurlanda nær og fjær og Ástralíu, svo að dæmi séu nefnd. Þátttaka í sölusýningum var sem hér segir: Árið 1980 í 12 sýningum, 1981 í 13, 1982 í 13, og 1983 í 8 en 11 eru ráðgerðar á yfirstandandi ári.

d) Með því að hafa á boðstólum (innanlands og utan) söluvarning til þess fallinn að gera íslensk frímerki eftirsóknarverðari t.d. til gjafa. Það eru m.a. ársmöppur svonefndar. Enn fremur má í þessu sambandi nefna gerð póstkorta með myndum af frímerkjum (maxikort), sérstaka stimpla til notkunar á sýningum o.fl.

e) Með auglýsingum í sýningarskrám og blöðum og tímaritum í sambandi við þátttöku í sýningum.

Þriðja spurning: „Eru tekjur af þessari sölu í samræmi við tekjur annarra Norðurlandaþjóða af sambærilegri starfsemi?“

Svar: Eftir því sem best er vitað eru tekjur Frímerkjasölunnar af sölu frímerkja til safnara erlendis hlutfallslega síst lakari, þegar á heildina er litið, en tekjur hinna Norðurlandanna að Færeyjum undanskildum. Fastir áskrifendur erlendis eru nú um 11 þús. Handbærar upplýsingar er að fá úr skýrslu sænsku póststjórnarinnar fyrir fjárhagsárið 1982–1983, 1. júlí til 30. júní, og var heildarsala sænsku frímerkjasölunnar 123.5 millj. sænskra kr., en það eru um 6–7% af heildarpósttekjum þar sem eru 8 170.9 millj. sænskra kr. Samsvarandi tölur hér á landi eru 18 millj. 620 þús. kr., en það eru um 7%, af heildarpósttekjum sem nema 262 millj. kr.

Í skýrslu norsku póststjórnarinnar fyrir 1982 er hvergi minnst á tekjur af frímerkjasölu til safnara sérstaklega. Aðeins er þess getið í skýrslu um frímerkjasölu póststöðva í Noregi að sala frímerkjadeildarinnar í Osló hafi verið 26 millj. norskra kr. Heildartekjur norska póstsins voru sama ár 3 977 millj. norskra kr. þannig að fyrrnefnd sala virðist innan við 1% af heildarpósttekjum.

Fjórða spurning: „Hve miklu fé er varið árlega til kynningar á íslenskum frímerkjum erlendis og hversu margir starfsmenn Pósts og síma annast hana?“

Svar: Það má ætla að þetta verkefni útheimti starf samsvarandi einu til tveimur ársverkum. Ef við lítum á þátttöku í sýningum erlendis þá var kostnaður vegna þátttöku í sölusýningum frímerkja erlendis á árinu 1981. þ.e. kostnaður Svönu M. Karlsson, 479 þús. ísl. kr., en sala 655 þús. kr. tæpar. Árið 1982 var kostnaður við sölusýningar Svönu M. Karlsson 720.2 þús. ísl. kr. en brúttósala 1 millj. 238 þús. kr. Þá tekur íslenska frímerkjasalan fyrst þátt í því og varð kostnaður hennar það ár 45.2 þús. kr. en heildarsala 47 þús. kr. Árið 1983 var kostnaður Svönu M. Karlsson 643 þús. ísl. kr. en sala 1 millj. 202 þús. Hjá Frímerkjasölunni varð kostnaður 165.4 þús. kr. en sala 168.5 þús.

Árið 1984, á þessu ári, til 1. ágúst var kostnaður Svönu M. Karlsson 1 millj. 59 þús. kr. en heildarsala til 1. ágúst 2 millj. 512 þús. Kostnaður Frímerkjasölunnar varð 446 þús. kr. en heildarsala 502 þús. kr.

Ég skal játa það að ekki hefur verið gert nóg að því á undanförnum árum að vinna að aukinni sölu frímerkja, þó að þróunin sé í þá átt eins og ég hef sýnt fram á með tölum. En ég tel ekkert athugavert við það að því brautryðjendastarfi sem þessi ágæta kona hefur unnið haldi hún áfram að vissu leyti, ákveðinni hlutdeild í kynningu, á sama tíma sem íslenska frímerkjasalan er að auka sín umsvif í frímerkjum.

Ég ætla hvorki að tala um húsnæði, tölvur eða annað sem hv. þm. ræddi um, um það var ekki spurt, en ég get auðvitað flutt um það langa ræðu eða svarað því ef fram kæmu um það fsp. Ég hélt að fsp. væru fluttar í þeim tilgangi að fá svör við þeim en ekki að búið væri að fá svör fyrir fram og bæta svo við spurningum þegar fsp. kemur hér inn til umr. En nú skil ég af hverju fyrirspyrjandi hefur ekki getað mælt fyrir fsp. fyrr. Hún hefur þurft að fá svör annars staðar.