04.06.1985
Neðri deild: 82. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5899 í B-deild Alþingistíðinda. (5254)

250. mál, réttur verkafólks til uppsagnarfrests

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Hér er á dagskrá mál sem að mínu mati er eitt af stærstu málum þingsins. Það sýnir glöggt áhuga þm. á þeim málaflokki, sem hér um ræðir og snertir ellefu þúsund manns, mestmegnis konur, mestmegnis fólk í dreifbýli, að þegar þetta mál er hér á dagskrá eru býsna fáir viðstaddir til að taka þátt í umr. og skoðanaskiptum um málið. Það er vegna þess að meiri hlutinn hefur ákveðið að fella það, hvaða rök sem kunna að koma fram. Hann er ákveðinn í því að hlusta ekki á þær röksemdir sem fram kunna að koma með þessu máli. Hann er staðráðinn í því að láta það sem vind um eyru þjóta, afgreiða frv. eins og það hér kemur fram.

Nauðsynlegt er að vekja sérstaka athygli á ummælum hv. 2. þm. Reykv., frsm. og form. félmn., sem hefur nú vikið af fundi. Hann sagði nánast efnislega að það væri út af fyrir sig í lagi að þetta fólk missti vinnu í frystihúsunum í landinu vegna þess að atvinnuleysisbæturnar eru hærri en kaupið sem það fær. Það væri í rauninni engin ástæða til þess af þeim ástæðum að vera að verja þetta fólk sérstaklega fyrir uppsögnum. Þessi ummæli hv. 2. þm. Reykv. lýsa ákaflega vel því skilningsleysi sem ég fullyrði að er ríkjandi hjá stórum hluta þm. á kjörum framleiðslustéttanna hér á landi.

Það var kostulegt að heyra ummæli hv. 2. þm. Reykv. þegar hann lauk ræðu sinni nánast klökkur í röddinni. Hjá meiri hl. ríkir samúð, sagði hann, í garð þessa fólks. Mikil huggun má það vera þessu fólki sem verið er að henda út úr frystihúsunum að vita að meiri hl. á Alþingi skuli hafa samúð. Það ríkir samúð hjá meiri hlutanum með þessu fólki. Mikil blessun og mikill léttir hlýtur það að vera fyrir þetta fólk, þegar verið er að henda því á dyr í frystihúsunum með viku fyrirvara eftir 30 ára starf, að frétta af því að hv. 2. þm. Reykv., formaður félmn. Nd., varaformaður Sjálfstfl., lýsir yfir að hjá meiri hl. í félmn. ríki samúð. En hvað það er hjartnæmt fyrir fiskverkunarfólkið að frétta af þessu. Ég vona að málgögn íhaldsins komi rækilega á framfæri þessum upplýsingum um hjartahræringar meiri hl. hér á hv. Alþingi.

Það er alveg rétt sem hv. 5. þm. Vestf. sagði áðan. Hér er um að ræða byggðamál. Þetta er eitthvert stærsta byggðamálið sem flutt er á hv. Alþingi í ár og það er athyglisvert, vegna þess að það er stundum verið að nudda okkur þm. Reykv. upp úr því að við sinnum ekki málefnum landsbyggðar, að 1. flm. þessa frv. er einn af þm. Reykjavíkurkjördæmis. Ég er ekki í nokkrum vafa um það að ein meginástæðan fyrir fólksflóttanum á landsbyggðinni, öryggisleysinu sem þar er um að ræða, er það öryggisleysi sem fólk býr við í frystihúsunum og fiskverkunarstöðvunum í landinu.

Við skulum gera okkur grein fyrir því að á sama tíma og meiri hl. er að pína fram frv. um breytingar á lögum um Byggðasjóð er verið að hafna máli sem er eitt stærsta byggðamálið sem liggur fyrir þinginu. Það er prófsteinn á það hvort Alþingi skilur raunverulegar forsendur lífs á landsbyggðinni eða ekki. Stjórnarmeirihlutinn, hv. þm. Egill Jónsson, Birgir Ísl. Gunnarsson og Friðjón Þórðarson, ætlar sér að fella þetta mál vegna þess að þeir hafa ekki tilfinningu og skilning á því að hér er um að ræða mál sem ræður úrslitum um það hvort það er lífvænlegt fyrir fólk sem vinnur við útflutningsframleiðslu úti um landið eða ekki. Ég hefði haldið að þetta fólk ætti annað skilið um þessar mundir. Ég hefði haldið að þetta fólk ætti annað skilið en þessar köldu kveðjur sem verið er að senda því hér af meiri hl. í félmn. hv. Nd.

Þetta er landsbyggðarmál, þetta er byggðamál, en þetta er líka jafnréttismál. Hverjir eru það sem vinna í fiskinum allt í kringum landið? Hverjir eru það sem að yfirgnæfandi meiri hluta til standa undir þessari útflutningsframleiðslu? Það eru konur, 75–80% þeirra 11 þúsunda, sem hv. 7. þm. Reykv. var að tala um áðan og vinna í frystihúsunum og fiskverkunarstöðvunum í landinu, eru konur sem búa við meira öryggisleysi en í nokkurri annarri starfsgrein. Þess vegna er hér á ferðinni raunsætt jafnréttismál þar sem tekið er á grundvallaratriði sem snertir þær konur sem starfa í fiskvinnslunni í landinu.

Ég hef stundum velt því fyrir mér hvernig þetta þjóðfélag stæði ef einmitt þessar konur í frystihúsunum allt í kringum landið tækju sig saman og sýndu það afl sem í þeim býr, sýndu að þær skapa með vinnu sinni meginhlutann af útflutningsframleiðslu landsmanna. Ætli það færi ekki að hrikta einhvers staðar í? Ætli það færi ekki að opnast skilningsglufa á einhverjum þegar þeir áttuðu sig á því að þarna er sá hópur sem við mest öryggisleysi og lægst laun vinnur fyrir meiri hlutanum af öllu því sem er eytt hér á landi.

Raunar er eitt brýnasta verkefni verkalýðshreyfingarinnar hér á landi einmitt það sem hv. 7. þm. Reykv., formaður Verkamannasambandsins, hefur lagt áherslu á, þ. e. að knýja fram betri kjör fyrir þetta fólk. fyrir þessar konur. Það þarf að gera þeim grein fyrir því hvaða afl felst í vinnu þeirra. Það þarf að fá þær til að líta upp úr þrældómnum og stritinu, líta upp og átta sig á því að þær eiga afl sem þær geta lagt saman og breytt þjóðfélaginu. Ég er viss um að fáir hópar á Íslandi hafa í rauninni sterkari þjóðfélagslega stöðu en fiskverkunarkonurnar í þessu landi ef þær tækju sig saman og beittu þessu sameiginlega afli sínu.

Í nál. meiri hl. félmn. Nd. er lagt til að þessu frv. verði vísað til ríkisstj. En í meiri hl. ríkir samúð, það skal tekið fram, dags. á Alþingi 14. maí 1985. Þeir sem skrifa undir þetta nál. eru hv. þm. Friðrik Sophusson, hv. þm. Stefán Valgeirsson, hv. þm. Eggert Haukdal, hv. þm. Stefán Guðmundsson og hv. þm. Halldór Blöndal. Ef þeir væru sjálfum sér samkvæmir, ættu þeir næst að leggja til að opinberum starfsmönnum yrði sagt upp störfum með viku fyrirvara og þeir settir á atvinnuleysisbætur ef ekki væru nægileg verkefni í stjórnarráðinu á hverjum tíma. Ef hv. þm. Stefán Valgeirsson væri sjálfum sér samkvæmur ætti hann að leggja til að bankamönnum yrði sagt upp með viku fyrirvara og þeir settir á atvinnuleysisbætur vegna þess að það væri ekki nóg að gera í bönkunum. Geta hv. þm. nefnt eitt dæmi um hóp launafólks sem lætur bjóða sér annað eins réttindaleysi og þetta?

Hv. þm. Ólafur Þórðarson gat þess áðan að hér í þinginu væri verið að afgreiða svo að segja á færibandi frv. um starfsréttindi hvers konar hópa, meinatækna, endurskoðenda, tannlækna o. s. frv. Þessi ákvörðun um réttindi handa þessum hópum kostar tiltekna fjármuni sem eru greiddir úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. En þegar að þessu kemur heyrist aldrei sú röksemd að um þetta þurfi að takast á í kjarasamningum eða þá sú röksemd að þjóðfélagið hafi ekki efni á þessu fyrirkomulagi. Hún heyrist aldrei nokkurn tíma. Hún heyrist aldrei nema þegar komið er að þessu fólki.

Það mætti vera okkur nokkurt umhugsunarefni þegar við lítum í kringum okkur hér í þingsölum og veltum því fyrir okkur hversu margir hv. þm. hafa verið eða eru í tengslum við þetta fólk, 11 þús. manns sem starfar í fiskvinnslunni í landinu. Þeir eru ekki margir og þeir eru örugglega færri en lögfræðingarnir hér á Alþingi svo að dæmi sé nefnt. 11 þús. manns. Hér er um álíka fjölda að ræða og er samtals í minnstu kjördæmum landsins. Hér er um álíka fjölda fólks að ræða og er samtals á kjörskrá á Vestfjörðum og í Norðurl. v. Það segir sína sögu að þessi byggðarlög hafa hvort um sig fimm menn hið minnsta á Alþingi til að reka mál fyrir sín byggðarlög. En það má líka verða okkur nokkurt umhugsunarefni að þegar kemur að fiskverkunarfólkinu þá er það ekki fjöldi manna sem gengur hér fram í umr. um þessi mál á hv. Alþingi. Það eru menn eins og hv. 7. þm. Reykv. og hv. 3. þm. Vestf. svo að nokkuð sé nefnt. Að öðru leyti er ekki mikið um það að málefni þessa fólks séu tekin hér upp, þó að þetta sé þetta stór hópur og þrátt fyrir það að hann standi að grundvellinum undir öllu okkar efnahagslífi. Það er sama hvort við erum alþm. eða kennarar eða læknar eða hvað við störfum. verðmætin eru sótt til þessa fólks hér á landi og það er það sem fær þessar köldu kveðjur framan í sig frá sama fólki og þessa dagana segist vera að reyna að stuðla að framgangi mála til að efla byggð í landinu. Ég segi, herra forseti: Heyr á endemi.

Nauðsynlegt er að við gerum okkur grein fyrir því að á bak við þetta frv. eru ekki einungis fjórir hv. alþm. sem flytja frv., þ. e. hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson og Margrét Frímannsdóttir frá Alþb. og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og Karvel Pálmason frá Alþfl. Á bak við þetta frv. er miklu stærri fjöldi fólks og þetta fólk hefur látið til sín heyra. Ég er sannfærður um það, herra forseti, að út af engu máli hefur í vetur borist jafnmikið af erindum til þingnefndar og út af þessu máli. Ég er sannfærður um að það er ekki hægt að finna eitt einasta dæmi um þingmál sem hefur vakið eins mikla athygli hjá fiskverkunarfólki og einmitt þetta. Það eru undirskriftalistar frá hundruðum einstaklinga í tugum frystihúsa og byggðarlaga um allt land sem skora á Alþingi að samþykkja þetta mannréttindamál.

Meiri hl. hér á hv. Alþingi undir forustu hæstv. forsrh. ætlar að kasta þessari afgreiðslu framan í þetta fólk eins og blautri tusku sömu dagana og þessi hæstv. forsrh. og meiri hl. hans á Alþingi tala um að stuðla þurfi að samkomulagi á vinnumarkaðinum. sömu dagana og ríkisstj. er að tala um að hún geti hugsanlega beitt sér fyrir því að greiða fyrir að það náist kjarasamningar. Ríkisstj. er með þessari afstöðu að taka afstöðu með öðrum aðilanum. taka menn eftir því? Vita menn ekki að það eru stéttir að takast á hér á Íslandi? Það eru stéttir sem annars vegar birtast í Vinnuveitendasambandi Íslands og hins vegar í verkalýðssamtökunum. Ríkisstj. landsins hefur ákveðið að taka einhliða afstöðu með öðrum aðilanum, atvinnurekendunum. Vinnuveitendasambandi Íslands. Ríkisstj. landsins hefur ákveðið að taka afstöðu á móti verkafólkinu. Svo koma þessir menn heilagir í framan á þjóðhátíðardaginn eða á öðrum dögum og segja: Stuðla að þjóðarsátt, stuðla að samkomulagi.

Ég vil spyrja hæstv. forsrh. úr því að hann er hér: Er hann samþykkur því að kasta þessu frv. út úr þinginu með þeim hætti sem meiri hl. félmn. leggur til? Er þetta framlag hæstv. forsrh. í kjarabaráttunni? Er þetta framlag hæstv. forsrh. og Framsfl. til þess að greiða fyrir niðurstöðum kjarasamninga? Það er ákaflega fróðlegt að fá upplýsingar um það hvaða afstöðu hæstv. forsrh. hefur í þessu efni og það er engin ástæða til þess að hann komist upp með að svara ekki spurningu af því tagi í þessari umr. úr því að hann lætur svo lítið að vera hér við. Það er kafli út af fyrir sig, herra forseti, sem mætti ræða hér í fáeinum orðum. Eru þeir ekki tíu, ráðherrarnir í þessari ríkisstj.? Mér skilst að þeir séu tíu eða þeir voru það a. m. k. þegar gefið var út forsetabréf árið 1983. Þeir sjást yfirleitt ekki hér þegar verið er að ræða mál af þessu tagi. Þeim koma ekki við almenn umbótamál af því tagi sem hér er um að ræða.

Hæstv. félmrh., sem á að sjá um framkvæmd laganna um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla, er hér hvergi nærri.

Hæstv. heilbr.- og trmrh., sem lét svo lítið að stöðva framlög til könnunar á heilsufarsáhrifum ákvæðislaunakerfa — það var nú reisnin yfir því — hann lætur ekki sjá sig hér. En eitt af fyrstu verkum núv. ríkisstj. var það að draga stórkostlega úr framlögum til að rannsaka heilsufarsáhrif ákvæðislaunakerfa bónusvinnunnar í frystihúsunum í landinu. Það var nú samúðin í verki sem ríkir hjá meiri hl. hér á hv. Alþingi og 2. þm. Reykv. lýsti fyrr í dag. Það er alveg óhjákvæmilegt, herra forseti, að fá um það upplýsingar frá hæstv. forsrh. hvernig hann lítur á það innlegg í kjarasamninga sem kemur frá meiri hl. félmn. á þskj. 932.

Í áliti meiri hl. kemur fram að n. hefur rætt við fulltrúa atvinnurekenda og fulltrúa verkalýðsfélaganna. Fjölmörg verkalýðsfélög hafa sent áskoranir til n. um að samþykkja frv. en fulltrúar atvinnurekenda hafa lagst gegn samþykkt þess. Hvorum aðilanum fylgir stjórnarmeirihlutinn hér? Stjórnarmeirihlutinn tekur hér stéttarlega afstöðu með þeim sem framleiðslutækin eiga, á móti hinum vinnandi manni sem á ekkert til að selja nema vinnuafl sitt. Með þessari afstöðu er núv. stjórn að undirstrika stéttareðli sitt. Hún er hluti af því valdi sem beinist gegn launastéttunum í landinu sem eru þó yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar og framleiða þau verðmæti sem við lifum á.

Í nál. meiri hl. segir svo, með leyfi forseta: „Til að treysta atvinnuöryggi í fiskvinnslu þarf víðtækari ráðstafanir sem m. a. lúta að stjórn og samhæfingu veiða og vinnslu auk annarra þátta sem eru á valdi aðila vinnumarkaðarins. Því er brýnt að víðtæk samstaða náist með aðilum á vinnumarkaði og stjórnvöldum um úrbætur í þessu efni.“

Halda menn að þessi framkoma hér muni greiða fyrir samkomulagi við verkalýðshreyfinguna í landinu? Halda menn að hérna sé verið að auðvelda kjarasamninga þegar ríkisstj. skipar sér einhliða og 100% upp að hliðinni á atvinnurekendavaldinu í landinu?

Það er athyglisvert sem segir hér í áliti meiri hl.: „Tíð mannaskipti í þessari stærstu og mikilvægustu útflutningsgrein þjóðarinnar geta því bitnað á gæðum framleiðslunnar.“ Það skyldi þó ekki vera að núverandi fyrirkomulag bitni á gæðum framleiðslunnar? Það skyldi þó ekki vera að núverandi fyrirkomulag varðandi rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum stuðli að öryggisleysi, tíðum mannaskiptum og minni vöndun á framleiðslunni en ella væri um að ræða. Ég man ekki betur en núv. hæstv. forsrh. hafi á árunum 1982–1983 mikið rætt um nauðsyn þess að bæta gæði í sjávarútvegi. Gæðamálin eru aðalmálið, man ég að hæstv. forsrh. sagði orðrétt oftar en einu sinni því að mér eru orð hans oft mjög í fersku minni eins og menn heyra og ég kann sum utan að. Gæðamálin eru aðalmálið í sambandi við sjávarútveginn. Hvaða máli halda hv. þm. að þetta skipti einmitt varðandi það að stuðla að betri gæðum þess sjávarfangs sem hér er fært að landi þegar verið er að selja það á erlendum mörkuðum? Það er vafalaust rétt sem hv. 7. þm. Reykv. sagði að þær verða margar hátíðarræðurnar sem verða haldnar um gæðin og um þetta fólk en þær verða auðvitað þeim mun slepjulegri sem þær eru oftar haldnar í ljósi þeirrar afstöðu sem kemur fram til frv. eins og þessa hér.

Herra forseti. Hér er í fyrsta lagi um að ræða réttindamál verkafólks. Hér er um það að ræða að þetta fólk fái svipuð réttindi — en þó ekki nærri eins góð — og flestir launþegar eða launamenn í landinu hafa. Hér er um að ræða samræmingu á mannréttindaákvæðum m. ö. o.

Hér er í öðru lagi um að ræða jafnréttismál sem snýr fyrst og fremst að þeim konum sem starfa í útflutningsframleiðslunni. Hér er um að ræða byggðamál sem snýr fyrst og fremst að dreifbýlinu vegna þess að öryggisleysi fiskverkunarfólks er áreiðanlega ein meginástæðan fyrir þeim fólksflótta úr dreifbýlinu sem núna blasir við.