04.06.1985
Neðri deild: 82. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5904 í B-deild Alþingistíðinda. (5255)

250. mál, réttur verkafólks til uppsagnarfrests

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég er því miður ekki vel undirbúin undir þessa umr. og vildi óska að ég hefði verið það, en mig langar að segja nokkur orð til að taka undir það sem hér hefur þegar komið fram hjá þeim hv. þm. sem hafa talað.

Það er rétt sem fram hefur komið að þetta mál er sannarlega jafnréttismál. Það er líka rétt að það er byggðamál og það er enn fremur rétt að hér er um grundvallarmál að ræða sem í raun varðar afkomu allrar þjóðarinnar. Og þegar litið er til þeirra raka sem fram hafa komið í ágætu máli hv. þm. Guðmundar J. Guðmundssonar, Ólafs Þ. Þórðarsonar og Svavars Gestssonar þá er það með eindæmum að kjörnir fulltrúar þjóðarinnar á Alþingi skuli leyfa sér að vera svo glámskyggnir að þeir skuli ekki hafa rænu og vit á því að hlúa að þeim undirstöðuatvinnuvegi sem heldur uppi lífsháttum þessarar þjóðar, hlúa að þeim sem þar vinna af réttlæti og með sóma og skynsemi. Vita þessir menn ekki á hverju þessi þjóð lifir? Vita þeir ekki að fiskverkunarfólk getur ekki lifað á samúð? Ég hef samúð með svo skammsýnum mönnum en jafnframt vil ég benda þeim á að þeir eiga ekkert erindi til þess að stjórna hér málum fyrir íslenska þjóð ef þeir kippa stoðunum undan grundvallaratvinnuvegi hennar. Við höfum ekki efni á því að sýna þeim annað en samúð, en við höfum vit á því að hafna forustu þeirra.