04.06.1985
Neðri deild: 82. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5905 í B-deild Alþingistíðinda. (5257)

250. mál, réttur verkafólks til uppsagnarfrests

Frsm. minni hl. (Guðmundur J. Guðmundsson):

Herra forseti. Ég bjóst nú við hæstv. forsrh. upp í ræðustól en ekki út úr fundarsal eftir þær fsp. sem beint hefur verið til hans.

Ég vil þakka þeim ræðumönnum sem tekið hafa hér til máls. Það er nokkuð athyglisvert — og skal ég bara segja örfá orð — að í öllum þessum umr. hafa andstæðingar þessa máls aldrei látið til sín heyra. Það var líka athyglisvert í félmn. að raunverulega var meiri hl. n. tilbúinn að samþykkja þetta frv. þar til ákveðnar flokkslínur komu.

Það er stundum talað um 11 þús. manns. Sannleikurinn er sá að það er álitið að 16–17 þús. manns komi einhvern tíma við í þessari atvinnugrein, en þar af séu 6–7 þús. sem vinni við hana að staðaldri. Þeim fækkar sem vinna við hana að staðaldri en þeim fjölgar sem grípa inn í þetta um stundarsakir, þeir tolla ekki í starfinu. Það er út af fyrir sig rétt sem kom fram hjá hv. 2. þm. Reykv. um atvinnuleysisbætur. Tvö fyrstu árin sem þetta fólk starfar í frystihúsum hefur það 14 075 kr. á mánuði fyrir dagvinnu. Í atvinnuleysisbætur hefur það 15 282 kr. eða röskum 1000 kr. meira á mánuði, en atvinnuleysisbætur eru miðaðar við lægsta taxtann. Það er einmitt lægsti kauptaxti sem hægt er að fá sem fiskvinnslan fellur undir.

Eins og kom fram hjá þm. hér treystir þetta fólk á yfirvinnu, bónusvinnu, sem orðin er ærið krítísk. En það er ekki nóg með það, það er ekki allt upp talið og væri hægt að telja upp endalaust. Stór hluti þessa fólks eru húsmæður. Hluta úr ári vinna þær oft 8, 10 og 12 tíma í bónusvinnu. Stór hluti þessara kvenna er með heimili og börn og þegar þær koma eftir 10, 12 tíma vinnu úr frystihúsi eða fiskverkunarstöð þá eru eftir heimilisstörfin. Þessa vinnu er auðvitað ekki hægt að jafna algerlega frá degi til dags, það koma alltaf einhverjir ákveðnir toppar, en það er hægt að jafna þetta mjög mikið frá því sem nú er. Til þess að ná eðlilegum launum þurfa húsmæður með fjölskyldu að vinna hluta af árinu allt að tólf tíma vinnudag og iðulega um helgar. Ég held að hver maður sem vill líta á þetta af einhverju raunsæi sjái að þetta ástand nær ekki nokkurri átt. Það er verið að níðast þarna á fólki og bjóða því upp á óforsvaranlegan vinnutíma. Um sumartímann hefur „helgarvinna“ verið bannorð. Nú er svo komið að t. d. hér í Reykjavík hefur verið samþykkt að vinna á laugardögum, sem ekki var áður, vegna þess að ofan á þetta hafa bónustaxtar lækkað og kjör þessa fólks versnað til viðbótar almennri kjararýrnun.

Ég vil taka undir með 3. þm. Reykv. að ég held að þetta fólk verði nú að átta sig betur á hvaða lykilstöðu það hefur í þjóðfélaginu. Og ég vil taka undir með 5. þm. Vestf. að þetta fólk, sem vinnur grunnframleiðslustörf, er utangarðs og það er hneyksli að mati Vinnuveitendasambandsins ef það á að lagfæra þessa hluti.

Ég vil aðeins ljúka máli mínu á því sem ég sagði í fyrri ræðu minni að það væru kaldar kveðjur sem Alþingi sendi þessu fólki. Nú er komið að þessu fólki að senda Alþingi sínar kveðjur. Ég er sannfærður um að hvað sem líður öllum stjórnmálaskoðunum, hvað sem líður öllum ágreiningi um verðbólgu, kaup o. s. frv., þá verður enginn vinnufriður á þessu sumri að óbreyttu ástandi. Alþm. geta þá bara kennt sjálfum sér um. Þeir neituðu að veita þessu fólki sama rétt og öðru fólki þó að búið væri að níðast á því um árabil. Þeir taka þá afleiðingunum af því.