05.06.1985
Efri deild: 88. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5907 í B-deild Alþingistíðinda. (5261)

Afgreiðsla þingmála í efri deild

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég vil taka undir þau andmæli sem hér hafa verið borin fram vegna þessarar furðulegu yfirlýsingar hæstv. forsrh. í Morgunblaðinu. Hann er að bera það á borð fyrir alþjóð að Ed. Alþingis vinni störf sín seint og illa og haldi ekki fundi þegar þörf er á þótt hann viti að það stendur ekkert á þessari deild að afgreiða mál sem fram eru borin til hennar og dagskrá hennar er ekki svo stór eða löng að það valdi neinum vandræðum. Ástæðan fyrir því að ekki voru fundir hér í gær er ósköp einfaldlega sú að það var lítið til að ræða. Það er ósköp einfalt mál. Þetta veit auðvitað hæstv. forsrh. Það er því ekkert annað en blekkingarviðleitni gagnvart þjóðinni að reyna að halda einhverju öðru fram.

Hann hefur enga ásfæðu til að kvarta yfir hv. Ed. Alþingis og vinnubrögðum hennar og ég held að hann hafi enga ástæðu til að kvarta yfir okkur stjórnarandstæðingum hér í Ed., að við höfum tafið mál eða valdið því að umr. hafi dregist á langinn. Það hefur svo sannarlega ekki verið. Hitt er allt annað mál að það eru allmörg frv. enn stödd í nefndum. Það vitum við. En hvers vegna er það? Í fyrsta lagi er það vegna þess að frv. eru svo seint fram komin að það hefur ekki gefist nægur tími til að fjalla um þau í nefndum. Í öðru lagi er það staðreynd, eins og vikið var að af seinasta hv. ræðumanni, að mörg þessara frv., sem hafa verið að koma fram frá ríkisstj. undanfarnar vikur, eru alveg einstök hrákasmíð, samin af litlum kunnugleika og í litlu samráði við þá aðila sem gerst mega þekkja viðkomandi málefnasvið eða frv. snerta sérstaklega. Ég nefni sem dæmi mál sem forsrh. hefur verið að ýja að á undanförnum dögum að þyrfti að fá greiðan gang í gegnum þingið, þ. e. frv. um atvinnuvegasjóðina. Á fundi fjh.- og viðskn. í morgun komu fulltrúar frá þeim sjóðum sem nú eru starfandi á sviði atvinnuveganna og þeir lýstu því allir yfir að það hefði ekkert samráð verið haft við þá um efni frv. og höfðu óteljandi aths. að gera og voru sammála okkur nm. um að frv. væri hin versta hrákasmíð, mjög einkennilegt á pörtum og hangandi í lausu lofti hvað mörgu viðvíkur.

Kannske er það versta við frv. að svo eru þau þar að auki meira eða minni efnislaus, breyta sáralitlu þegar allt kemur til alls, ofan á allt annað. Má að vísu kannske finna jákvæða punkta í frv. um atvinnuvegasjóðina, en líka mjög marga neikvæða og varhugaverða punkta. Ég ítreka t. d. í sambandi við það sem kom fram hjá seinasta ræðumanni, að það liggur fyrir, þó ekki hafi það nú komið fram þegar mælt var fyrir frv., að Búnaðarþing hefur eindregið snúist gegn efni frv. um atvinnuvegasjóðina og Stéttarsamband bænda hefur eindregið óskað eftir því að afgreiðslu þess væri frestað, en formaður Framsfl. virðist leggja á það ofurkapp að við ruslum því af á nógu stuttum tíma án þess að athuga hvaða breytingar þurfi að gera. Þetta eru merkileg tíðindi fyrir bændur í landinu, að formaður Framsfl. vilji halda þannig á málum og skammi svo Ed. fyrir það að hún rusli ekki frá sér málum að óathuguðu máli.

Staðreyndin er sú, eins og kom fram í sjónvarpinu í gærkvöld þegar þinghaldið var þar til umræðu, að á seinustu sex vikum hefur hæstv. ríkisstj. ruslað inn í þingið yfir 30 frv. á þeim tíma þegar þingstörfum á senn að ljúka. Ef einhver efast um þessa tölu getur hann fengið útskrift hjá skjalavörslunni og talið þar hve mörg frv. hafa komið frá ríkisstj. frá lokum páskaleyfis. Þau eru yfir 30 og það sem verra er að mörg þessara frumvarpa eru mikil hrákasmíð. Það hefur greinilega verið reynt að rusla þeim frá til þess að ríkisstj. gæti státað sig af því að hún væri með svo og svo mörg góð mál á ferðinni, en efnið hefur liðið fyrir það.

Ég vil sem sagt segja það að lokum, hæstv. forseti, því að ekki er ástæða til að hafa þessi orð allt of mörg, að það sem að er nú í þinglok er forustuleysi og ráðleysi núv. ríkisstj. og hæstv. forsrh. Hann hefur í fyrsta lagi ekki verið fáanlegur til að gefa það upp, eins og venja hefur verið, hvenær þingslit væru fyrirhuguð. Hann hefur í öðru lagi verið ófáanlegur til að hafa nokkurt samráð eða samstarf við stjórnarandstöðuna um hvernig þinghaldi skuli hagað og skammast þar að auki meira eða minna út í bláinn yfir störfum þessarar hv. deildar og vegur að henni á mjög ómaklegan hátt.