05.06.1985
Efri deild: 88. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5912 í B-deild Alþingistíðinda. (5266)

Afgreiðsla þingmála í efri deild

Egill Jónsson:

Herra forseti. Það leynir sér ekki að alþm. eru farnir að hugsa til sumarsins þegar vorið er liðið og ekki nema eðlilegt að menn hugi að því hvað þetta virðulega Alþingi kunni að standa lengi. Og það er út af fyrir sig ekkert óeðlilegt þótt hæstv. forsrh. hnippi aðeins í okkur, a. m. k. stjórnarþm. Ég á hins vegar von á því að út í frá verði ráðið með öðrum hætti í orð hæstv. forsrh. Af þeirri ástæðu finnst mér vert að láta koma fram hvernig mál standa í þeim nefndum sem ég er í forsvari fyrir.

Í samgn. Ed. hafa öll mál verið afgreidd. Þar hafa verið haldnir margir fundir í vetur. Ég man ekki hvað margir. (Gripið fram í.) Já, það koma hér upplýsingar um að þeir fundir hafi verið 28. Það er líklega næst hæsta fundatala í þeirri nefnd síðan farið var að skrá núverandi gerðabók. Mér finnst mikil ástæða til að taka það sérstaklega fram hér að nm., og þá ekkert síður stjórnarandstöðumenn, hafa unnið frábært starf í vetur. Og það eru mjög vandasöm og viðamikil mál sem samgn. er búin að afgreiða. Mér er vel ljóst að hæstv. samgrh., flokksbróðir minn og vinur, hefur verið óþolinmóður við formann n. vegna þess að mál hafa ekki gengið hraðar fram, en ég endurtek að þar finnst mér að menn hafi unnið frábærlega vel.

Það er rétt, sem kom fram, að í landbn. eru enn skv. skrá fjögur mál óafgreidd. Þar af eru tvö fullunnin og verða afgreidd á nefndarfundi á morgun. Það er samkomulag um að afgreiða ekki eitt þessara fjögurra mála og í samráði við flm. hefur ekki enn verið afgreitt eitt þeirra. Það stendur því ekkert upp á landbn. Ed. í þessum efnum.

Það er líka vert að það komi hér fram að samkomulag varð um það í landbn. Ed., og það mætti kannske bera þá kveðju niður í Nd., að fara að fjalla um frv. um breytingarnar á framleiðsluráðslögunum. Það hafa nú þegar verið haldnir tveir fundir um það mál þó að það sé í Nd. Það hefur verið gert til þess að það væri með sæmilega líðanlegum og þinglegum hætti og forsvaranlegri framkomu, m. a. gagnvart stjórnarandstöðunni, fjallað um málið í Ed. á þessu Alþingi. Kannske var aðalerindið upp í ræðustólinn að segja frá þessu og mætti þá berast sú kveðja til þeirra í landbn. Nd. að þeir þyrftu að fara að hraða sér.