05.06.1985
Efri deild: 88. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5916 í B-deild Alþingistíðinda. (5270)

149. mál, siglingalög

Frsm. (Egill Jónsson):

Herra forseti. Samgn. Ed. hefur fjallað öðru sinni um frv. til siglingalaga. Nd., undir forustu samgn. þar, gerði á frv. nokkrar breytingar. Tilefni þeirra breytinga voru í meginatriðum að umsögn hafði ekki borist til samgn. Ed. frá Siglingamálastofnun. Samgn. Nd. fór ítarlega yfir ábendingar siglingamálastjóra og breytti frv. nær einvörðungu með tilliti til þeirra aths. sem frá honum komu og snertu ekki afgreiðslu eða tillögugerð samgn. Ed. Alþingis.

Svo sem venjur standa til fór samgn. rækilega yfir frv. og gerði við það fjórar brtt. sem eru lagðar fram á þskj. 1099. Þar er að vísu að verulegu leyti um orðalagsbreytingar að ræða, en samt sem áður eru sumar þeirra mikilvægar. Skal ég nú skýra þær í örfáum orðum.

Varðandi brtt. við 26. gr. er mikilvægt að í upphafi greinarinnar sé notað orðalagið „eðlileg árvekni“ sem er í samræmi við orðalag og hugtak í hinum svokölluðu Haag-Visby-reglum, en þar er einmitt lagt til að þær reglur verði fullgiltar af ríkisstj. eftir samþykki þessa frv.

Við 71. og 220. gr. er fyrst og fremst um að ræða orðalagsbreytingar og eins má segja að sé varðandi 221. gr. frv. Þar þykir þó rétt að taka fram að óþarfi sé að nefna Rannsóknarlögreglu ríkisins sérstaklega í því sambandi sökum þess að starfsemi hennar er eðlilegur þáttur í lögreglurannsóknum hér á landi og verður hún að sjálfsögðu kvödd til rannsóknar sjóslysa ef og þegar ástæða þykir til.

Ég vona nú, herra forseti, að með tilliti til þessarar nákvæmu umfjöllunar fái þetta frv. greiðan aðgang þá leið sem það á eftir að rata í þessari virðulegu deild.