05.06.1985
Efri deild: 88. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5918 í B-deild Alþingistíðinda. (5275)

499. mál, ríkisbókhald

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Mig langar til að fara nokkrum orðum um þetta frv. og leggja áherslu á hvaða breytingar er verið að gera með því, en einnig vekja athygli á því hvaða breytingar er ekki verið að gera vegna þess að mér hefur fundist að í umræðum um þessi mál gæti allverulegs misskilnings um það hvað í þessum frumvörpum felst. Þannig var t. d. leiðari birtur í blaðinu DV fyrir nokkrum dögum þar sem fjallað var um efni þessara frv. og greinilegt var að höfundur leiðarans hafði ekki hugmynd um hvað hann var að skrifa um og fór mjög rangt með í flestum greinum, lýsti þessari breytingu og innihaldi hennar með mörgum orðum þótt þær breytingar væru hvergi finnanlegar í lögunum sjálfum.

Það sem verið er að gera með þessu frv. er það sem kemur fram í 6. mgr. nál. sem hv. fjh.- og viðskn. Ed. hefur skilað einróma frá sér. Það er verið að taka almannatryggingakerfið og endurlánareikning ríkissjóðs inn í A-hluta fjárlaganna og það verður ekki gert nema með sérstakri lagabreytingu.

Að taka almannatryggingarnar inn í A-hluta fjárlaga hefur í för með sér verulega efnislega breytingu á uppsetningu fjárlaga og getur haft veruleg áhrif á niðurstöður ríkisreiknings. Fram að þessu hefur almannatryggingakerfið verið sér á parti og hefur getað tekið lán eða borgað af lánum án þess að það kæmi fram í niðurstöðum ríkisreiknings á A-hluta ríkissjóðs. Þarna er því um verulega efnislega breytingu að ræða.

Hin breytingin, að endurlánareikningurinn er tekinn inn í A-hluta, hefur ekki neinar reikningslegar afleiðingar í för með sér fyrir niðurstöðutölur ríkissjóðs. sama gildir um það að tekjur af einkasölu ríkisins til ríkissjóðs séu taldar með sköttum. Þar er ekki um neina umtalsverða efnislega breytingu að ræða.

Það er líka verið að sameina hér í einum lögum allt það sem lýtur að ríkisbókhaldi, gerð ríkisreiknings og fjárlaga. Fjh.- og viðskn. Ed. hefur tvímælalaust unnið merkt starf við það að stokka frv. upp og reyna að koma þessu öllu fyrir í sömu lögunum. Þetta er það sem verið er að gera og allt er þetta mjög jákvætt og eðlilegt.

En það sem ekki er verið að gera, en margir halda að sé verið að gera, er að færa ríkisreikning og ríkisfjármálin í það horf að þau samræmist reglum Afþjóðagjaldeyrissjóðsins, eins og það er gjarnan orðað. Það er alls ekki verið að gera það með þessari breytingu. Það er hinn mikli misskilningur sem hefur fylgt þessari frumvarpsgerð.

Nú hefur Afþjóðagjaldeyrissjóðurinn að vísu ekki neinar einfaldar skilgreindar reglur um hvernig fjárlög eða ríkisreikningur eiga að líta út. Það er ekki til nein fullkomlega samræmd regla í þeim efnum. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur hins vegar sett fram samanburð á fjárlagatölum margra landa eftir ákveðinni formúlu án þess að hann geri neina kröfu um hvernig þessu skuli hagað í hverju landi fyrir sig. Þessi uppsetning á reikningum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er í grundvallaratriðum allt önnur en sú sem við höfum búið við því að þessi uppsetning miðast ekki við ríkisreksturinn, þ. e. tekjurnar annars vegar og gjöldin hins vegar og þann mismun sem verður á tekjum og gjöldum og lýsir sér annaðhvort í afgangi eða halla, heldur er ríkisbúskapurinn gerður upp á greiðslugrunni alfarið og þá er ekki niðurstöðutalan halli á ríkisbúskapnum eða afgangur, heldur ósköp einfaldlega fjárþörf ríkissjóðs vegna útlána og vegna útgjalda, en það er allt annað hugtak og á engan hátt sambærilegt við það hugtak sem við höfum notað hér á landi fram til þessa og allt annað hugtak en t. d. fyrirtækin nota í sínum fjármálabúskap.

Ég held að nauðsynlegt sé fyrir ríkissjóð að hafa á hreinu hvort ríkisbúskapurinn er rekinn með afgangi eða halla á hverjum tíma og ég tel að það verði áframhaldandi að gera upp reikning hvers árs út frá rekstrarlegu sjónarmiði, rétt eins og hjá öllum öðrum fyrirtækjum landsins, að það komi fram hver er mismunurinn á tekjum og gjöldum, og þá auðvitað á raunverulegum tekjum og raunverulegum gjöldum, og það þurfi fyrst og fremst að reyna að samræma ríkisbúskapinn sem best þannig að niðurstöðutalan sýni sem sannasta mynd af því hvernig staðan er. Það er verið að gera með því t. d. að flytja almannatryggingarnar inn í A-hlutann. Það má vel vera að það þurfi að flytja fleiri stofnanir inn í A-hlutann, eins og reyndar hefur verið gert á undanförnum árum því að það eru einmitt mörg dæmi þess að fyrirtækihafi verið flutt inn í A-hluta fjárlaga í þessum tilgangi. Það er allt af hinu góða og gefur sannari mynd af ríkisrekstrinum á hverjum tíma. En ég er ansi hræddur um að ef við hefðum ekki þessa niðurstöðutölu, ef við hefðum einungis þá tölu sem sýndi hvernig greiðsluflæðið hefði komið út á árinu, hver væri fjárþörfin, þá hefðu menn ansi villandi mynd af ríkisrekstrinum á hverjum tíma. Þá kæmi það þannig út að ef eitt árið væru tekin 1000 millj. kr. meiri lán sem endurlánuð væru sveitarfélögum kæmi þar út 1000 millj. kr. lakari niðurstöðutala hjá ríkissjóði það árið. Fjármagnsþörfin hefði aukist um 1000 millj., jafnvel þótt þetta breytti engu um ríkisreksturinn því þetta hefði verið upphæð sem hefði komið inn í ríkissjóð og farið aftur út til sveitarfélaganna. Þannig mundi afkoma ríkissjóðs vera mjög villandi í augum manna og erfitt um allan samanburð. Þess vegna held ég að það sé bráðnauðsynlegt að hafa það sem aðalreglu að gera ríkissjóð upp á rekstrargrundvelli og átta sig sem allra best á því hvort það er afgangur eða halli. Mér skilst líka að það séu ekki uppi nein áform um það í fjmrn. eða hjá Ríkisendurskoðun eða hjá ríkisreikningsnefnd að taka upp annan hátt en þann, sem verið hefur, að gera ríkissjóð upp á rekstrargrundvelli. Ég er feginn því því að ég óttast að hin uppsetningin yrði ákaflega villandi fyrir allan almenning og jafnvel fyrir okkur þm. ekkert síður. Hin uppsetningin er allt annars eðlis. Það getur verið ágætt að hafa hana til hliðsjónar og jafnvel að setja hana fram samhliða þeirri uppsetningu sem byggir fyrst og fremst á tekjum og gjöldum, þ. e. á rekstrargrunni, en ég held við megum ekki yfirgefa rekstrargrunninn með öllu og hætta að átta okkur á því hvort ríkissjóður kemur út með hagnaði eða tapi.

Annað það sem margir hafa ímyndað sér að væri verið að gera með þessari breytingu, en er hinn mesti misskilningur, er að nú verði fjallað um lánsfjárlög og fjárlög af sömu aðilum í þinginu. T. d. heldur ritstjóri Dagblaðsins og Vísis að það sé verið að gera þá breytingu hér í þinginu að þetta verði allt á einni hendi. En þetta er, eins og margt annað sem kom fram hjá honum, hinn mesti misskilningur. Það er fyrst og fremst verið að tryggja að lántökur og lánsfjáráætlun komi skýrt fram í fjárlagafrv. þegar það er lagt fram. Það verður greinargerð þar fyrir lánsfjáráætluninni og lántökum, en eftir sem áður verður að leggja fram sérstakt frv. um lánsfjárlög og það verður að senda það til allt annarrar nefndar en þeirrar sem hefur fjallað um fjárlögin, þ. e. til fjh.- og viðskn. viðkomandi deildar. Það eru þær nefndir sem munu gera tillögur um þær breytingar sem ríkisstj. hyggst gera á lánsfjáráætluninni en þær breytingar munu ekki gerast með atkvgr. við afgreiðslu fjárlaga. Þessu er mikilvægt að menn geri sér grein fyrir þannig að þeir haldi ekki að það sé verið að gera hér eitthvað allt annað en verið er að gera. En það breytir ekki hinu, að sú breyting sem hér er gerð tillaga um er alfarið af hinu góða, hún er til samræmis, einföldunar og til að auka skýrleika í framsetningu á fjármálum ríkissjóðsins.