05.06.1985
Efri deild: 88. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5924 í B-deild Alþingistíðinda. (5283)

522. mál, húsnæðissparnaðarreikningar

Frsm. (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil taka það fram að þó að menn hafi lesið þetta frv. yfir í stjórnarflokkunum er kannske ekki óeðlilegt þó að menn taki til máls þegar málin eru til umr. í þessari hv. deild. Það þarf ekki að hafa stórpólitíska þýðingu eða tákna að ríkisstj. riði til falls þó að menn spyrji um einstök atriði hér.

Að sjálfsögðu hefur fjh.- og viðskn. fjallað um þessi mál og eins og kom fram í ræðu hv. 5. landsk. þm. áðan var nefndin sammála um að hér væri skref stigið til góðs. Þetta er nýmæli. Nefndin vildi greiða fyrir afgreiðslu þessa máls og að það fengi greiða leið í gegnum þingið.

Eigi að síður hefur hv. 5. þm. Vesturl. beint tveim spurningum um ákveðin atriði til nm. Þessi atriði geta bæði verið álitamál. Fjh.- og viðskn. fannst þó ekki ástæða til breytinga og vildi láta á það reyna hvernig framkvæmdin yrði. Hitt er ekki útilokað að líta á þetta mál milli 2. og 3. umr. ef hv. þm. vilja halda því til streitu að skoða það betur eða flytja brtt.

Hvað fyrir höfundum frv. hefur vakað get ég að sjálfsögðu ekki sagt því að ég tók ekki þátt í samningu þess. En ég vil ítreka að ef óskir koma um það frá þm. þessarar hv. deildar er sjálfsagt að líta frekar á málið.