05.06.1985
Efri deild: 88. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5924 í B-deild Alþingistíðinda. (5284)

522. mál, húsnæðissparnaðarreikningar

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég hef haft gaman af þessum annars ekkert skemmtilega fundi í dag vegna þess að það er endurtekin sú tilraun, sem öðru hverju hefur skotið upp hjá stjórnarandstöðunni, að reka fleyg á milli ráðh. og tala um óánægju í ríkisstj. og samstarfsleysi. Ég get enn þá einu sinni — ég er orðinn svo vanur því — fullvissað ykkur um að tilraun ykkar hefur ekki borið árangur í þetta sinn fremur en áður. (HS: Þið sjáið það.) Virðulegur þm., fyrrv. forseti Ed., veit að sá sem er í ræðustól hefur a. m. k. forgang að orðinu í það sinnið. — En það er enginn fleygur í ríkisstj. og það skiptir ekki máli hve oft þessi staða kemur upp. Stjórnarandstaðan heldur að hún sé búin að reka ríkisstjórnarliðið á flótta. Það er ekki. Hitt er annað mál að vel getur verið að það sé of mikið vinnuálag fyrir stjórnarandstöðuna að fá svo mörg frv. rétt í þinglok þó að stjórnarliðið telji sig menn til þess að vinna hratt og lengi. En menn verða misjafnlega fljótt þreyttir. Það er eins og í íþróttum. Menn hafa misjafnlega mikið úthald. Það fer eftir því hvaða æfingu þeir hafa fyrir, hve mikla rækt þeir hafa lagt við starfið fram að átökum. Það verður alltaf að undirbúa sig þannig að á ákveðnu augnabliki séu menn tilbúnir til lokaátaka ef árangur á að nást.

Það þarf ekki stjórnarliða til að manna upp ráðh. til að svara spurningum, hvort sem þær koma frá stjórnarliðinu eða frá stjórnarandstæðingum. Ég varð bara ekki var við neina spurningu frá hv. 5. þm. Vesturl. Hann talaði um nokkrar greinar í frv. til l. um húsnæðissparnaðarreikninga eins og það liggur fyrir á þskj. 1065, en það kom engin bein spurning. Fundartíminn var að líða svo að ég hafði ekkert hugsað mér sérstaklega að standa upp. Hann var að hugleiða það sem hann var að gera upp við sig, en bein spurning kom ekki. Eftir henni beið ég. Ég veit ekki hvort nokkur annar en ráðh. hafi reynt að taka eftir því hver bein spurning væri.

Hann gerði að umræðuefni næst síðustu mgr. í 2. gr. Hún er svona:

„Samið skal fyrir fram til a. m. k. eins árs í senn um jöfn mánaðarleg eða ársfjórðungsleg innlegg, en umsaminni fjárhæð má breyta árlega miðað við upphaf almanaksárs innan þeirra marka er getur í 2. mgr. Þó er heimilt að semja fyrir fram um lækkun á umsömdum sparnaði miðað við ársfjórðunga.“— Og af hverju ekki hækkun? spurði hann.

Hér er verið að tala um að spara fyrir fram ákveðna upphæð sem viðkomandi sparandi, væntanlegur húsbyggjandi eða húskaupandi, treystir sér til að leggja fyrir af sínum launum vegna þess að hann þarf ekki þessa upphæð sem lifibrauð. Ég sé ekki neina ástæðu til þess að skv. þessari mgr. geti viðkomandi ekki hækkað sitt framlag ef hann telur sig hafa meiri afgang ársfjórðunginn á eftir. Það yrði ársfjórðungslega samið. Hér er verið að tala um lækkun. Ef menn fara út í einhverja fjárfestingu hafa menn aðgang að umsaminni lækkun. Það getur komið eitthvað upp sem gerir það að verkum, slys eða veikindi eða eitthvað slíkt, að viðkomandi þurfi nauðsynlega að grípa til þessara peninga. Þá er honum heimilt að semja um að fá til baka eitthvað miðað við að hann hafi full rök fyrir þeirri ósk og án þess að missa af þeim hlunnindum sem fylgja þeirri upphæð sem eftir er.

Varðandi 3. mgr. 5. gr. hafði hv. þm. aðra aths. Svar við henni er í aths. með frv., en þar segir í síðustu mgr. aths. við 5. gr., með leyfi forseta:

„Í 3. mgr. 5. gr. er að finna ströngustu viðurlögin, endurgreiðslu nýtts skattafsláttar allt að sex árum aftur í tímann að viðbættu 25% álagi, og miða þau einkum að því að koma í veg fyrir að reynt sé að ná innistæðum út með því að gera kaupsamninga til málamynda.“

Svarið við spurningunni er í aths. Við skulum hafa í huga að ákvæði verða að vera ströng. Við skulum ekki gleyma því að skyldusparnaður unglinga var tekinn út með því að unglingar giftu sig og skildu í þeim tilgangi einum að ná út skyldusparnaði. Af reynslunni hafa menn lært og m. a. liggur svarið í því.