05.06.1985
Neðri deild: 83. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5926 í B-deild Alþingistíðinda. (5287)

Tilhögun þingfunda

Forseti (Karvel Pálmason):

Áður en gengið er til dagskrár þykir mér rétt að geta þess varðandi fundarhald í dag að gert er ráð fyrir að fundir standi eins og venjulega frá kl. 2 til kl. 4. Vegna þess að dagskrá er nokkuð löng og mörg stórmál þar á væri mjög æskilegt ef þingflokksformenn og þar með þingflokkar gætu stillt sínum fundatíma í hóf þannig að þeim nægði einn klukkutími, frá kl. 4 til kl. 5. Þannig væri hægt að halda áfram deildarfundi kl. 5.

Líklegt þykir mér, án þess að ég vilji nokkuð um það fullyrða á þessu stigi, að búast megi við kvöldfundi. Ég vildi mjög gjarnan einnig að þingflokkaformenn eða formenn flokka kæmu sér saman um að menn mættu almennt til þess fundar. Þetta vil ég biðja þingflokkaformenn að athuga sem allra fyrst þannig að hægt væri að tilkynna það áður en langur tími af fundi er liðinn hvort af kvöldfundi verður.