06.11.1984
Sameinað þing: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 783 í B-deild Alþingistíðinda. (531)

72. mál, forræðislausir foreldrar

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Hv. 2. landsk. þm. hefur borið fram fsp. til mín á þskj. 73 um umgengnisrétt forræðislausra foreldra. Við fyrstu spurningu vildi ég segja þetta:

Fyrir gildistöku barnalaga áttu einungis foreldrar skilgetinna barna lögbundinn rétt til umgengni við börn sín. Við gildistöku barnalaga 1. jan. 1982 var lögmælt sú skipan að það foreldri sem ekki hefur forsjá barns hafi rétt og skyldu til umgengni við barnið og barnið rétt til umgengni við það. Gildir það jafnt um foreldra skilgetinna og óskilgetinna barna. Það var því nýmæli að viðurkenndur var umgengnisréttur föður óskilgetins barns við barn sitt, auk þess sem fjallað er um umgengnisréttinn bæði er varðar gifta og ógifta foreldra og skiptir ekki máli hvort foreldrar hafa búið saman. Nær öruggt má telja að ákvæði barnalaga hafi stuðlað að auknum umgengnisrétti forsjárlausra foreldra við börn sín. Kemur þar ekki síst til að stór hópur foreldra, þ.e. foreldrar óskilgetinna barna, hafa nú fengið umgengnisrétt skv. lögum sem þeir höfðu ekki áður.

Þá þarf að hafa í huga að til úrlausnar hjá dómsmrn. koma einungis þau umgengnisréttarmál þar sem ágreiningur er milli foreldra um umgengnisréttinn eða inntak hans. Gera má ráð fyrir að þau tilvik séu mun fleiri þar sem foreldrar koma sér saman um tilhögun umgengnisréttar á eigin spýtur og þurfa því ekki á aðstoð dómsmrn. að halda. Án efa hefur tilvist hinna nýju reglna haft sín áhrif í þjóðfélaginu og stuðlað að aukinni umgengni forsjárlausra foreldra við börn sín. Engin kerfisbundin athugun hefur þó farið fram á þessu sviði og samanburður við fyrri réttarstöðu erfiður vegna breyttra reglna svo sem gerð hefur verið grein fyrir hér að framan.

Í öðru lagi: Vandkvæði við framkvæmd 40. gr. barnalaga eru ekki önnur en efni hennar gefur tilefni til. Við úrlausn umgengnisréttardeilna er áhersla lögð á að ná samkomulagi við foreldra um framkvæmd umgengnisréttarins, sem vissulega er tímafrekt starf en skilar oft góðum árangri, þar sem samkomulag foreldra er að sjálfsögðu æskilegri grundvöllur fyrir umgengnisrétti foreldris við barn heldur en yfirvaldsákvörðun.

Þegar samkomulag foreldra næst ekki sker rn. úr deilum þeirra varðandi umgengnisréttinn og leitar umsagnar barnaverndarnefndar þegar ástæða þykir til. Gífurlegt vinnuálag er á barnaverndarnefnd Reykjavíkur og fleiri bæjarfélaga. Verður það iðulega til að draga niðurstöðu máls á langinn, sem eðli málsins samkvæmt er mjög bagalegt. Þyrfti þar úr að bæta.

Í þriðja lagi, svar við 3. spurningu: Alls 71 úrskurður. Þar af hefur umgengni foreldris við barn tvisvar verið hafnað.

Og við fjórðu spurningu: Enn hefur ekki til þess komið en tvær beiðnir um álagningu dagsekta liggja nú fyrir í rn.