05.06.1985
Efri deild: 89. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5935 í B-deild Alþingistíðinda. (5323)

528. mál, jarðræktarlög

Helgi Seljan:

Herra forseti. Það hefur lítill tími gefist til athugunar þessa frv. enda kom það á borð okkar núna í eftirmiðdaginn. Til þess að gera sér grein fyrir því í hverju breytingarnar felast þarf samanburð við fyrri lög. Ég fæ tækifæri til þess í nefnd og ég veit að höfundar frv., sem einmitt eru hv. formaður landbn., 11. landsk. þm. og hv. 5. þm. Vesturl., munu gefa okkur allar þær upplýsingar um það sem máli skipta.

Þau meginatriði sem tilgreind eru hér eru mér að skapi, þ. e. að „dregið er úr framlögum“, eins og hér segir, „sem stuðlað geta að aukningu búvöruframleiðslu í hefðbundnum búgreinum, svo sem framræslu og grænfóðurrækt“. Ég tel það eðlilegt markmið miðað við núgildandi aðstæður. Menn eru nýbúnir að samþykkja hér till. um bætta og aukna heimaöflun í landbúnaði. Þar af leiðandi er b-liðurinn um efldan stuðning við heimaafla sjálfsagður og eðlilegur. Síðast en ekki síst er stuðningur við nýjar og vænlegar búgreinar efldur svo sem segir í c-lið þessa frv.

Nú veit ég ekki heldur hvernig þessar umr. hafa farið fram á Búnaðarþingi og hvers vegna þetta mál hefur ekki fengið þar afgreiðslu, eins og hæstv. landbrh. gat um, og hvaða skoðanir hafa verið þar uppi. En um það getum við fengið upplýsingar í nefndinni. Ég sé að heildarendurskoðun jarðræktarlaganna á að halda áfram og ég held að það væri kannske ekki til of mikils mælst við hæstv. landbrh. að hann leyfði stjórnarandstöðunni að fylgjast nokkuð með þeirri endurskoðun. En eins og menn sjá á grg. þessa frv. eru í þessari nefnd nú að vísu valinkunnir menn, hv. þm. Davíð Aðalsteinsson, Egill Jónsson, Pálmi Jónsson, Þórarinn Sigurjónsson, svo og Bjarni Guðmundsson aðstoðarmaður landbrh. sem er formaður nefndarinnar. Þetta er einvalalið, mjög sérvalið. Ég hygg að um þetta þurfi og eigi að nást breið samstaða. Ekki skal a. m. k. standa á okkur í Alþb. að reyna að standa að skynsamlegri heildarendurskoðun þessara laga, að við mættum koma að þessari endurskoðun án þess að ég sé að fara fram á nefndaþóknun í þessu sambandi til handa einhverjum okkar eða sérfræðilega ráðgjöf til handa sjálfum okkur í einhverju tilfelli eða eitthvað því um líkt, ef mönnum skyldi detta eitthvað slíkt í hug, enda veit ég að svo er ekki um þá nm. sem hafa starfað í þessari nefnd.

Það er aðeins ein lítil spurning í sambandi við þetta núna í upphafi sem ég veit að hefur verið tekið tillit til varðandi þær breytingar sem hér eru á gerðar og ég mun skoða í nefndinni. Það er spurningin um það hverju þessi breyting kunni að valda varðandi heildarframlög á fjárlögum næsta árs. Ég geri mér ekki grein fyrir því eftir fljótan yfirlestur hvort hér er um að ræða svipaða upphæð eða skerta upphæð og vildi spyrja hæstv. ráðh. að því hvort hér væri um að ræða nokkuð óbreytt framlag en að vísu í önnur verkefni.