05.06.1985
Efri deild: 89. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5936 í B-deild Alþingistíðinda. (5326)

523. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti fjh.- og viðskn. um frv. til l. um breytingu á lögum nr. 75 14. sept. 1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Fjh.- og viðskn. hefur fjallað um frv. og kallað til starfsmenn fjmrn. Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með einni breytingu sem till. er flutt um á sérstöku þskj., á þskj. 1105. Brtt. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Á eftir 4. gr. komi svofellt ákvæði til bráðabirgða: Þrátt fyrir ákvæði 54. gr. laganna, sbr. 10. gr. laga nr. 8/1984, þarf innlögn 50% fjárfestingarsjóðstillagna vegna rekstrarársins 1984 á bundinn reikning ekki að hafa átt sér stað fyrr en fyrir 1. júlí á árinu 1985. Innborganir á slíka reikninga í júnímánuði 1985 skulu bundnar í sex mánuði talið frá innborgunardegi. Bráðabirgðaákvæði þetta skal þrátt fyrir ákvæði 4. gr. koma til framkvæmda við álagningu tekjuskatts á árinu 1985 á tekjur ársins 1984.“

Þessi brtt. er m. a. til komin vegna ábendingar frá Félagi löggiltra endurskoðenda þar sem þeir segja að ljóst sé að framtalsskilum verði ekki lokið fyrir 1. júní og telja þeir því eðlilegt að fresta innborgunarskyldunni fram til 1. júlí og forða með því mismunun sem annars er ljóst að verður.

Fjh.- og viðskn. er samþykk því að taka þessar ábendingar til greina og hefur haft um þær samráð við starfsmenn fjmrn. Því leggur nefndin til að frv. verði samþykkt með áðurnefndu ákvæði til bráðabirgða á þskj. 1105.