05.06.1985
Efri deild: 89. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5941 í B-deild Alþingistíðinda. (5341)

470. mál, Þroskaþjálfaskóli Íslands

Helgi Seljan:

Herra forseti. Aðeins örstutt. Frv. þetta hefur tekið nokkrum breytingum í Nd. hvað varðar inntöku í Þroskaþjálfaskólann. En eins og hv. 5. þm. Vesturl. hefur réttilega greint hér frá eru þær breytingar ekki stórvægilegar því að í raun er verið að færa úr 6. gr. yfir í 5. gr. endurtekningu á möguleikum á undanþágum til þess að komast inn í skólann þrátt fyrir ákvæðin um stúdentspróf eða hliðstætt nám. Í 6. gr. segir að það skuli verða sett í reglugerð nánari ákvæði svo sem um undanþágu frá skilyrðum um menntun eftir því sem þurfa þykir.

Ég er sannast sagna heldur lítið hrifinn af breytingunni því að sannleikurinn er sá að vel má túlka þessa áherðingu á þann veg að verið sé enn frekar að draga úr námskröfum til inngöngu í þennan mikilvæga skóla. Ég segi það líka varðandi c-liðinn að það sé til bóta að fella orðið stofnun þarna út. Hins vegar næ ég ekki þeirri hugsun sem er á bak við það að í staðinn fyrir fjögurra mánaða störf skuli koma sex mánaða störf með fötluðum. Ég geri ekki lítið úr starfsþjálfun og mæli ekki á móti henni sem slíkri en ég segi það aðeins varðandi þetta mál almennt að það þyrfti þá heldur betur að huga víðar að í okkar menntakerfi ef fyrirfram ætti að kanna hæfni manna til þess starfs sem þeir menntast til. Ég mæli síst á móti því en það þarf þá að vera sem allra best samræmi í því.

Ég er ekki og hef ekki verið talsmaður þess að stúdentsstimpillinn sé svo algengur sem raun hefur orðið á í löggjöf okkar um ýmsa sérskóla því að ég geri mér ljóst að þar er miklu frekar um það að ræða að menn séu að huga að ákveðnum lið í framtíðarkjarabaráttu sinni heldur en beinlínis menntunarkröfurnar. Það verður því bæði hér sem annars staðar svo að það orkar tvímælis hversu gífurleg áhersla er á slík inntökuskilyrði lögð. En ég bendi líka á mikilvægi þessa skóla og þýðingu þessarar menntunar fyrir þá sem sannanlega hafa mest verið vanræktir um árabil en er nú blessunarlega farið að sinna af alúð, m. a. og alveg sér í lagi af þessari stétt sem unnið hefur sérstaklega vel að mínum dómi og breytt lífshögum og þroskamöguleikum þessa hóps mjög rækilega.

Ég felli mig hins vegar við þessar brtt. að því leyti til að ég vil síður en svo stöðva málið. Ég tel að okkur sé sæmst að afgreiða það nú eftir þá miklu umr. sem það hefur fengið í Nd.-nefndinni og reyndar vandlega umfjöllun okkar áður sem hefði átt að nægja þeim í neðra. Síst vildi ég því sjá það í framhaldi af því sem ég hef sagt nú, af þessari breytingu, að ekki veldist inn í þennan skóla nógu vel menntað og nógu hæft fólk. Ég er ekki að gera því skóna að svo verði en síst af öllu varðandi þennan skóla vildi ég sjá þá breytingu og síst skyldi byrja á þessari stétt, svo mikilvæga sem ég tel hana, með tilslökun á undirstöðumenntun og hæfni. En í trausti þess að áfram verði það meginregla að vel menntað og vel andlega búið fólk fái þarna inngöngu með næmi hins opna hugar og vakandi skilningi á högum þroskaheftra yfirleitt get ég fallist á þessa breytingu.