05.06.1985
Efri deild: 89. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5942 í B-deild Alþingistíðinda. (5342)

470. mál, Þroskaþjálfaskóli Íslands

Kristín Ástgeirsdóttir:

Herra forseti. Mér er kunnugt um að þetta mál hefur tekið töluverðan tíma í Nd. og hefur verið lögð mikil vinna í að samræma sjónarmið sem þar komu fram. Er fyrst að nefna að ég er mjög hlynnt því að loka ekki leiðum í menntakerfinu og að ekki sé stöðugt verið að auka inntökuskilyrði í skóla eins og mikið hefur borið á undanfarin ár. Það er verið að krefjast stúdentsprófs inn í æ fleiri skóla. Ég hef frekar verið hlynnt því að opna fólki leiðir og m. a. hefur Háskóli Íslands slakað nokkuð á í þeim efnum, þar er fólki hleypt í nám með undanþágum og það skýtur skökku við að setja strangari inntökuskilyrði í ýmsa aðra skóla. Ég tel það mjög til bóta að opna fólki leið ef það hefur nokkra starfsreynslu og vill afla sér menntunar þó það hafi ekki átt þess kost fyrr á ævinni.

En varðandi þá sex mánuði sem kveðið er á um í brtt. þá hef ég heyrt þá skýringu að það væri mjög algengt að þær stúlkur — þroskaþjálfar eru eindregin kvennastétt — sem vinna með vangefnum börnum og ekki aðeins börnum heldur reyndar fullorðnu fólki líka, kanni málið yfir sumartímann. Þá er mikið líf og fjör og allir úti að leika sér og starfið gengur vel. En þegar kemur að því að fara inn í hús kemur í ljós að starfið er miklu erfiðara en stúlkurnar gerðu sér grein fyrir og skv. þeim upplýsingum sem ég hef fengið eru mikil afföll. Ég veit að þessi sjónarmið eru komin frá þroskaþjálfum sjálfum að gefa því fólki sem er að kynna sér þessi störf kost á að vera lengur til reynslu og gera þá kröfu að þær séu lengur inni á þessum stofnunum til þess að afföllin verði ekki eins mikil.

Þetta mál vekur athygli á því að þörf er á að samræma inntökuskilyrði í skólakerfið. Það er t. d. verið að auka kröfur til hjúkrunarmenntunar og ljósmæður þurfa að hafa hjúkrunarmenntun og fleira stefnir í þessa átt. Mér þykir þetta ekki góð þróun og ég held að það þurfi að horfa á þessi mál í samhengi og samræma eftir skólastigum. Mér er ekki kunnugt um að verið sé að krefjast stúdentsprófs inn í Sjómannaskólann eða Vélstjóraskólann eða við ýmsa aðra skóla sem veita fólki starfsmenntun. Sennilega er nokkur hluti af þessu máli sá að þroskaþjálfar eru uggandi um sinn hag. Það hafa orðið töluverðar breytingar á meðferð þroskaheftra á undanförnum árum. Það er verið að veita þroskaheftum tækifæri til að stunda nám með öðru fólki og vera sem mest innan um þá sem ekki eiga við fötlun að stríða. Þetta gerir að verkum að kennarar og fóstrur taka að sér umönnun og þjálfun þessara barna og þess vegna eru þroskaþjálfar að reyna að bæta sinn hag og tryggja sína stöðu. Það er að sjálfsögðu skiljanlegt. En fyrir mér er það meginatriði að loka engum leiðum til menntunar og því styð ég þær breytingar sem gerðar voru á þessu frv. í Nd.