06.06.1985
Neðri deild: 85. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5965 í B-deild Alþingistíðinda. (5376)

429. mál, verslun ríkisins með áfengi

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um verslun ríkisins með áfengi á þskj. 714 eins og það kemur frá Ed., frá fyrri deild, með þeim breytingum sem kynntar eru á þskj. 1128.

Af frv. því sem ég mæli hér fyrir leiðir að einkaréttur ríkisins til innflutnings og sölu á tóbaki og eldspýtum skv. lögum nr. 63 frá 1969 verður afnuminn hinn 1. janúar 1986 nái það fram að ganga. Nú eru liðin 53 ár síðan ríkið öðlaðist einkarétt til innflutnings og sölu á tóbaki og um 50 ár síðan það öðlaðist þennan sama rétt varðandi eldspýtur. Reyndar hafði ríkið áður einkasölurétt á tóbaki. Það var á árunum 1922–1926. Einkasölumálin voru nokkuð umdeild á sínum tíma. Sést það best á því að einkasölurétturinn var afnuminn strax fjórum árum eftir að ríkið öðlaðist hann í fyrsta sinn. en síðan endurvakinn sex árum síðar. árið 1932.

Sjónarmiðin sem fyrst og fremst bjuggu að baki einkasölufyrirkomulaginu á tóbaki og eldspýtum eru þau að með því væri ríkinu tryggður áreiðanlegur tekjustofn sem gefa ætti af sér allverulegar tekjur í formi einkasölugjalda. Þetta var á kreppuárunum og með þessu var m. a. stefnt að því að skapa nokkurt svigrúm til þess að draga úr hækkun neysluskatta á ýmsar nauðsynjavörur. Þó að tekjuöflunarþátturinn hafi vegið langþyngst í rökstuðningi fyrir einkasöluréttinum kom fleira til. svo sem von var um. hagstæðari innkaup en ella auk þess sem auðveldara var talið með þessu móti að koma í veg fyrir ólöglegan innflutning.

Telja verður löngu tímabært í ljósi þeirrar viðamiklu breytingar og þróunar sem átt hefur sér stað í innflutningsverslunar- og skattamálum hérlendis s. l. hálfa öld að endurskoða það ákvæði laga er kveður á um einkarétt ríkisins til innflutnings og verslunar með tóbak og eldspýtur.

Fyrst af öllu má í þessu sambandi benda á þá staðreynd að sömu tekna og ríkissjóður hefur nú af einkasölugjöldum af þessum vörum má afla með mun auðveldari og ódýrari hætti en þeim að áskilja ríkinu umræddan einkasölurétt. Tekna þessara má við núverandi aðstæður einfaldlega afla við innflutning með innflutningsgjöldum eða framleiðslugjöldum eigi framleiðsla þessarar vöru sér stað innanlands.

Í annan stað má benda á að óeðlilegt og óæskilegt er að ríkið sé að vasast í rekstri sem augljóst er að einkaaðilar eru fullfærir um að leysa af hendi.

Í stefnuyfirlýsingu þessarar ríkisstj. er m. a. að finna fyrirheit um að draga úr ríkisumsvifum þar sem þess er þörf. Þetta frv. er dæmi um þá alvöru sem að baki því fyrirheiti býr. Að mínu mati er tóbakseinkasala í raun skýrt dæmi um rekstur sem betur er borgið í höndum einkaaðila í frjálsri samkeppni. Menn verða í þessu sambandi að átta sig á því að ÁTVR hefur ekki umboð fyrir eina einustu tegund tóbaks sem hún flytur inn og selur. Umboðin eru öll í höndum einstaklinga eða fyrirtækja sem fá sín umboðslaun þó svo að þau þurfi tiltölulega litlu til að kosta vegna þeirrar umsýslu.

Þá kannast flestir við þá gagnrýni, sem oft hefur heyrst, hve erfitt sé að koma nýjum tóbakstegundum á markaðinn hérlendis vegna einkasölufyrirkomulagsins. Í þessu efni stangast oftast á hagsmunir viðkomandi umboðsmanns, sem vill koma nýrri tegund tóbaks á markaðinn, og ÁTVR sem hefur augljóslega hagsmuni af því að tegundaúrvalið sé í lágmarki til þess að kostnaður sé sem minnstur.

Margir hafa orðið til þess að benda á hið óeðlilega vald og möguleika sem ÁTVR hefur til að mismuna aðilum í þessum efnum. Síðastur manna mun ég væna starfsmenn ÁTVR um annarleg sjónarmið í þessu efni. Starf þeirra er mjög vandasamt og allt annað en öfundsvert. Þvert á móti tel ég að miðað við aðstæður hafi þeim tekist að finna málum þessum farsælan farveg. Engu að síður verður því ekki á móti mælt að einkasölufyrirkomulagið verður ætíð mjög auðvelt að gagnrýna að þessu leyti, þ. e. að það bjóði heim hættunni á mismunun milli aðila.

Þá tel ég vert að benda á annað atriði til sönnunar því að reynslan sýni svo ekki verði um villst að opinber rekstur er óhagkvæmari en einkarekstur. Hér á ég við það hvernig staðið var að verðlagningu á tóbaki og reyndar einnig áfengi a. m. k. undanfarna tvo áratugi og e. t. v. lengur. Verðstefna fól það í sér að smásöluverð á tóbaki var á þessum tíma nær ætíð ákvarðað það sama eða mjög svipað á sömu tegundum tóbaks. Við ákvörðun verðsins var m. ö. o. ekki tekið nauðsynlegt tillit til innkaupsverðs á hverri tegund fyrir sig á hverjum tíma og.þeirra þátta sem áhrif kunna að hafa, svo sem breytinga á gengi. Hækkanir útsöluverðs á liðnum árum hafa því í langflestum tilvikum átt rætur sínar að rekja til hækkunar einkasölugjalds en ekki jafnframt til breytinga sem átt hafa sér stað á kostnaðarverði vörunnar. Þá var hækkun einkasölugjaldsins oftast nær ákveðin hlutfallslega sú sama á allar tegundir tóbaks. Fyrir gat komið að tóbak sem var tiltölulega ódýrt í innkaupi væri selt á sama eða svipuðu verði og sambærilegt tóbak sem var dýrt í innkaupi. Þetta fyrirkomulag við ákvörðun smásöluverðsins hafði þannig í raun í för með sér að hvorki framleiðendur tóbaks né umboðsmenn þeirra hérlendis sáu sér hag í því að halda innflutningsverðinu sem lægstu, því að lágt innkaupsverð hafði lítil sem engin áhrif á smásöluverð þar sem verðið ákvarðaðist fremur af tegundinni en innkaupsverði. Hátt innkaupsverð leiddi þannig einungis til hærri tekna ríkissjóðs í formi einkasölugjalds en alls ekki til sterkari stöðu markaðanna. Þessi verðstefna tryggði m. ö. o. hag ýmissa framleiðsluaðila sem seldu hingað tóbak á lítt samkeppnisfæru verði á kostnað ríkissjóðs. Í frjálsri samkeppni hefðu dæmi af þessu tagi aldrei komið upp.

Fljótlega eftir að ég tók við embætti fjmrh. beitti ég mér fyrir endurskoðun á þeim reglum sem áður giltu í þessum efnum. Á grundvelli hennar var nýjum verðlagningarreglum hrundið í framkvæmd fyrir rúmu ári síðan. Meginmarkmið hinnar nýju verðlagningarstefnu er, eins og margir hafa e. t. v. rekið sig á, að láta innkaupsverðið endurspeglast að fullu í smásöluverði án þess þó að rýra tekjur ríkissjóðs af einkasölugjaldinu. Hinar nýju reglur hafa þegar leitt til þess að samkeppni ríkir nú a. m. k. meðal framleiðenda og umboðsmanna þeirra sem ríkissjóður nýtur góðs af í verulegum mæli. Þessum reglum er nánar lýst í grg. með frv. því til laga um tóbaksgjöld sem lagt er fram hér á Alþingi samhliða þessu frv.

Að því er varðar eftirlit með innflutningi og sölu þessarar vöru má vekja athygli á því að það verður síst lakara en áður, einkum eftir að ákvæði reglugerðar um viðvörunarmerkingar á tóbaki taka gildi, en það mun eiga sér stað 1. júlí n. k.

Eins og áður segir felur frv. í sér, verði það að lögum, að einkaréttur ríkisins til verslunar með eldspýtur fellur niður frá sama tíma. Rétt er að það komi fram að eiginlegt einkasölugjald er ekki lagt á eldspýtur, heldur hafa tekjurnar fyrst og fremst stafað af 70% tolli og tiltölulega lágri heildsöluálagningu. Telja verður fremur ankannalegt að ríkið skuli hafa einkarétt til verslunar með eldspýtur en t. d. ekki vindlingakveikjara. Hér skortir samræmi í hlutina.

Í frv. til laga um gjöld af tóbaksvörum, sem flutt er samhliða frv. þessu, er gerð grein fyrir því að nettótekjur ríkissjóðs muni ekki rýrna við afnám tóbakseinkasölunnar. Gjöld af tóbaksvörum breytast einungis úr einkasölugjaldi og sölugjaldi í tóbaksgjald og vörugjald sem verða innheimt við tollafgreiðslu eða með sama hætti og vörugjald af innfluttri framleiðslu, verði um hana að ræða. Ekki er talin ástæða til að breyta gjaldtöku af eldspýtum vegna þessara breytinga, en eins og áður segir er nú innheimtur 70% tollur af þeim innflutningi auk þess sem þær eru söluskattsskyldar.

Eins og kunnugt er á sér stað verðjöfnun á tóbaki. Verði frv. þetta að lögum fellur hún niður enda verður ekki séð hvaða sjónarmið réttlæta verðjöfnun á tóbaki umfram aðrar vörur, þ. á m. ýmsar nauðsynjavörur.

Í kjölfar frjálsrar verslunar með tóbak er ljóst að tóbaksdeild ÁTVR verður lögð niður að öðru leyti en því að ekki er fyrirhugað a. m. k. fyrst um sinn að leggja niður neftóbaksframleiðslu hennar. Gera má ráð fyrir a. m. k. átta stöður í tóbaksdeild verði lagðar niður. Þá hlýtur þessi breyting að leiða til fækkunar starfsmanna á aðalskrifstofu, enda á skrifstofukostnaður ÁTVR í verulegum mæli rætur sínar að rekja til tóbakssölunnar. Benda má á í þessu sambandi að dreifingaraðilar tóbaks í smásölu skipta hundruðum andstætt því sem gildir um áfengi.

Þá er rétt að það komi fram hér að áformað er að leggja niður starfsemi iðnaðardeildar ÁTVR að svo miklu leyti sem um er að ræða framleiðslu sem öðrum en ríkinu er ekki beinlínis bannað að stunda. Hér er m. a. um að ræða framleiðslu kökudropa og neftóbaksgerð ef frv. þetta nær fram að ganga. Verið er að kanna hvort mögulegt sé að koma þessari starfsemi fyrir á vernduðum vinnustöðum og hvort þar sé áhugi á því að yfirtaka þessa framleiðslu, enda verði þeim afhent núverandi framleiðslutæki ÁTVR vegna þessarar framleiðslu án endurgjalds.

Verði frv. þetta að lögum er gert ráð fyrir því að umboðsmenn hinna ýmsu tóbakstegunda annist framvegis innflutning, birgðahald og heildsöludreifingu þess með þeim hætti sem þeir telja ákjósanlegast og hagkvæmast. ÁTVR mun hins vegar þurfa nokkurn tíma til að selja sínar birgðir og er gert ráð fyrir því að hún muni gera það í samkeppni við hina nýju dreifingaraðila.

Að því er einstakar greinar frv. varðar er það að segja að frv. er efnislega algjörlega sambærilegt við lög nr. 67 frá 1969, um verslun ríkisins með áfengi og tóbak, að öðru leyti en því að öll ákvæði er varða einkarétt ríkisins til innflutnings og dreifingar á tóbaki og eldspýtum eru felld niður.

Eins og kunnugt er var kaflinn um Lyfjaverslun ríkisins felldur niður á sínum tíma með lögum nr. 16/ 1982 um lyfjadreifingu.

Með vísan til þessa þykir ekki ástæða til að fjölyrða frekar um einstakar greinar frv. nema 10. gr. þess er kveður á um að frv., verði það að lögum, skuli taka gildi 1. janúar 1986. Tíminn þangað til er tóbaksumboðsmönnum ætlaður til að undirbúa þær breytingar sem frv. þetta felur í sér.

Að öðru leyti er vísað til frv. um tóbaksgjöld vegna hins nýja fyrirkomulags sem fyrirhugað er að koma á varðandi gjaldtöku af tóbaki.

Virðulegi forseti. Að lokum legg ég til að frv. þessu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.