06.06.1985
Neðri deild: 85. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5969 í B-deild Alþingistíðinda. (5377)

429. mál, verslun ríkisins með áfengi

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Af mörgum vitlausum málum hæstv. ríkisstj. held ég að þetta sé eitt það alheimskulegasta, sem hér er til umfjöllunar, þegar stjórnvöld eru með þeim hætti sem hér ber raun vitni um að þjóna heimskulegum áhugamálefnum sínum án þess að styðja það nokkrum gildum rökum og þvert ofan í vilja allra þeirra aðila sem þetta mál varðar hvað mest, þar sem eru heilbrigðisstéttirnar í landinu. Maður hefði haldið að hæstv. ríkisstj. hefði verið rassskellt nægilega með sementinu hérna um daginn. En sennilega er það svo að fleiri hæstv. ráðherra langar til að snýta rauðu með því að leggja fram svona vitlaus og illa rökstudd frv. um sölu út í loftið á ágætum ríkisfyrirtækjum. Það er samhljóða niðurstaða allra þeirra manna úr heilbrigðisstéttum og yfirvalda í heilbrigðismálum í landinu að hér sé stórlega varhugaverður hlutur á ferðinni og heimskulegur og í raun og veru í engu samræmi við þá stefnu sem mörkuð hefur verið á undanförnum árum í vörnum gegn fíkniefnum.

Ég vil minna á það, herra forseti, að fyrir nokkrum dögum síðan samþykkti þessi hv. þd. brtt. við frv. til áfengislaga frá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni sem gekk einmitt í þveröfuga átt við þetta, þ. e. að tryggja enn þá betur stöðu hins opinbera um framleiðslu og sölu á sterku áfengi. Einnig hefur hv. Alþingi nýlega samþykkt lög um tóbaksvarnir. Það er ljóst og það er mat þeirra sem til þekkja að þetta frv. mundi ganga þvert á þá stefnu sem þar var mörkuð.

Það er ástæða til þess, herra forseti, vegna þess að hér er í raun og veru mál sem snertir fyrst og fremst heilbrigðissviðið, enda hafa menn á því sviði látið þetta mál til sín taka, að óska eftir því að æðsti yfirmaður þeirra mála, hæstv. heilbrrh., láti eitthvað í sér heyra hér um afstöðu sína til þessa máls.

Í fylgiskjölum með nál. minni hl. fjh.- og viðskn. Ed. er m. a. birt ályktun fundar starfsmanna heilbr.- og trmrn. og landlæknisembættis með héraðslæknum sem var haldinn á Hvolsvelli 19. og 20. apríl s. l. Þar undirrita þessir starfsmenn heilbrigðisyfirvalda allir saman ályktun þar sem þeir lýsa andstöðu sinni við þetta frv., allir með tölu. Ég held ég lesi, herra forseti, upp þessi nöfn til þess að mönnum megi vera það ljóst að hér eru þeir á ferðinni sem mestu ráða um þessi mál og hafa það í sínum höndum og á sinni ábyrgð að framfylgja þessum lögum.

Undir þessa ályktun, sem ég ætla nú ekki að lesa til að spara tímann, rita þeir Skúli Johnsen, borgarlæknir í Reykjavík, Heimir Bjarnason, aðstoðarborgarlæknir í Reykjavík, Kristófer Þorleifsson, héraðslæknir Vesturlandshéraðs, Pétur Pétursson, héraðslæknir Vestfjarðahéraðs, Friðrik Friðriksson, héraðslæknir Norðurlandshéraðs vestra, Ólafur H. Oddsson, héraðslæknir Norðurlandshéraðs eystra, Stefán Þórarinsson, héraðslæknir Austurlandshéraðs, Ísleifur Halldórsson, héraðslæknir Suðurlandshéraðs, Jóhann Ág. Sigurðsson, héraðslæknir Reykjaneshéraðs, Guðjón Magnússon, settur landlæknir, Guðmundur Sigurðsson, settur aðstoðarlandlæknir, Páll Sigurðsson, ráðuneytisstjóri í heilbr.- og trmrn., Jón Ingimarsson, skrifstofustjóri heilbr.- og trmrn., Ingibjörg R. Magnúsdóttir, deildarstjóri í sama rn.. Hrafn V. Friðriksson, yfirlæknir í sama rn., og Ingimar Sigurðsson, deildarlögfræðingur sama rn.

Eftir allan þennan lestur, herra forseti, tel ég ekki óeðlilegt að æðsti yfirmaður þessara mála, hæstv. heilbrrh. Matthías Bjarnason, komi nú hér upp og láti aðeins í sér heyra um þetta frv. Það skyldi nú aldrei fara svo að hæstv. fjmrh. hafi ekki tryggt sér fulltingi allra sinna flokksbræðra eða allra þm. stjórnarmeirihlutans hér fyrir þessu máli. Nú eru fyrir því fordæmin að menn víla það ekki mikið fyrir sér að fella stjfrv. ef svo býður við að horfa. Það væri fróðlegt að vita hvort hér er á ferðinni enn ein blóðnasagjöfin og lendir í þetta skipti á hæstv. fjmrh.

Það væri hægt að vitna hér í fleiri fylgiskjöl. Öll eru þau á einn veg. Menn leggjast gegn því að þetta frv. nái fram að ganga. Menn telja að það brjóti í bága við þá stefnumörkun sem verið hefur uppi í landinu um varnarstarf gegn fíkniefnum hvers konar og ávanalyfjum. Ég sé í raun og veru engin haldbær rök fyrir því að þetta frv. nái fram að ganga, enda kemur það í ljós að áhugi stjórnvalda eða a. m. k. hæstv. fjmrh. er af einum toga sprottinn, sem sagt þeim að þjóna lund sinni með því að flagga því að verið sé að selja ríkisfyrirtæki eða draga úr ríkisumsvifum. Hversu vitlaust sem það er, þá á að láta það yfir sig ganga til þess að þjóna því heimskulega markmiði sem ríkisstj. var svo óheppin að setja í stefnuskrá sína.

Ég vil enn fremur gera athugasemdir við það sem hæstv. fjmrh. sagði hér um framkvæmd þessara mála, að hún mundi á einhvern hátt batna eða einfaldast við þessa tilhögun. Ég held þvert á móti að ekki sé fyrir því séð að svo verði. Ég vil t. d. spyrja: Getur hæstv. fjmrh. rökstutt það með einhverju móti að fjölbreytni þessarar vöru, ef menn eiga þá yfirleitt að fagna því að slíkt komi til, aukist með þessu nýja fyrirkomulagi?

Ég vil benda á það að með þessu nýja fyrirkomulagi er ætlunin að innflytjendur fjármagni birgðahald og dreifingu á þessum vörum. Mín spá er sú að þetta mundi færast á fáar hendur fjársterkra aðila og fjölbreytni mundi þvert á móti minnka og einn, tveir eða þrír fjársterkir aðilar næðu nánast einokunarstöðu á þessu. Þannig yrði auðvitað farið úr frelsi í átt til ófrelsis með þessu heimskulega fyrirkomulagi eins og gjarnan vill verða raunin á þegar þessir frelsispostular eru að reyna að þjóna lund sinni.

Ég held að þessi mál hafi verið í tiltölulega góðu og skikkanlegu formi eins og þau hafa verið og það sé ekki nein ástæða af þeim sökum til að breyta hér um. Ókostirnir og hætturnar sem þessu eru samfara eru hins vegar fjöldamargar.

Herra forseti. Af sérstökum ástæðum hér í þinghaldinu ætla ég ekki að hafa þessi orð mín fleiri. Ég hef vel skap í mér til þess að eiga orðastað við hæstv. fjmrh. og aðra stuðningsmenn þessa frv. þegar betra tóm gefst til þess. En ég ítreka spurnir mínar til hæstv. heilbrrh. og tel það ótækt að þetta mál fari héðan út úr deildinni við þessa umr. nema einhver svör komi frá þessum æðsta yfirmanni heilbrigðismála í landinu við þessu frv.