06.11.1984
Sameinað þing: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 787 í B-deild Alþingistíðinda. (538)

78. mál, löggæsla á Reyðarfirði

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Aðdragandi þessa máls er nokkur. Í árslok 1978 skipaði þáv. dómsmrh. nefnd til að kanna möguleika á aukinni hagræðingu hjá löggæslunni í landinu. Í tillögum, sem nefndin skilaði í aprílbyrjun 1979, segir m.a. svo um Suður-Múlasýslu:

„Í þessu umdæmi teljum við að gera þurfi þá breytingu að löggæslan á Eskifirði og Reyðarfirði verði sameinuð og vakt gangi út frá Eskifirði.“ Með tilkomu hins nýja sýsluhúss á Eskifirði, sem tekið var í notkun fyrr á þessu ári, opnaðist fyrst möguleiki til þess að sameina löggæsluna á Reyðarfirði og Eskifirði. Í sýsluhúsinu er fullkomin lögreglustöð með fangageymslum, en fram að þeim tíma var engin lögreglustöð fyrir á Eskifirði og aðstaðan á Reyðarfirði líka ófullnægjandi.

Með bréfi dómsmrn., dags. 18. maí s.l., var sýslumanni Suður-Múlasýslu tilkynnt eftirfarandi:

„Með tilkomu hinnar nýju lögreglustöðvar á Eskifirði er ástæða til að endurskoða skipulag löggæslunnar á svæðinu Reyðarfjörður/Eskifjörður, en eins og yður er kunnugt, herra sýslumaður, hefur rn. lengi stefnt að því að lögreglumaðurinn á Reyðarfirði gengi vaktir ásamt lögreglumanninum á Eskifirði, en vegna andstöðu sveitarstjórnarmanna á Reyðarfirði o. fl. hefur enn ekki orðið af því. Tímabært þykir að lögreglumennirnir gangi í sameiginlega vakt með aðsetur í nýju lögreglustöðinni á Eskifirði og sinni hinu sameiginlega varðsvæði. Fjarlægðar vegna hafa þeir góð tök á að sinna útköllum á Reyðarfjörð.

Í skipunarbréfi lögregluvarðstjórans á Eskifirði, dags. 18. apríl 1983, segir að hann skuli gegna störfum við embætti yðar, en hvergi er tilgreint hvar hann á að hafa aðsetur né hvar hans starfsvettvangur eigi að vera. Telur rn. því ótvírætt að þér getið falið honum að gegna stærra starfssvæði en áður var með beinu lögreglustjóravaldi.

Ekki þarf að lýsa því fyrir yður, herra sýslumaður, hversu mjög aðstaðan batnar með hinu breytta skipulagi, en af því leiðir bætta svörunarskyldu, lengri viðveru lögreglumanns dag hvern, betri nýtingu húsnæðis, bifreiða og annars búnaðar o.fl. Þess er vænst að þér kynnið þessar breytingar fyrir hreppsnefnd Reyðarfjarðarhrepps og lögreglumönnunum tveimur sem í hlut eiga. Ef samþykki þeirra fæst fyrir því að hefja störf á Eskifirði 1. júní n.k. fer best á því að miða breytinguna við það tímamark. Ef ekki fæst samþykki skal setja upp nýju varðskrána fyrir 1. júní og láta breytinguna taka gildi 1. júlí 1984.

Mikilvægt er að löggæslu á Reyðarfirði verði áfram sinnt í ríkum mæli og fer best á því að þeir setji ítarleg fyrirmæli um hversu oft eftirlitsferðir skuli farnar á Reyðarfjörð, viðdvöl þar, hvaða sérstökum verkefnum eigi að sinna o. s. frv. Einnig ber að huga að því hvernig tryggja megi fullnægjandi löggæslu á Reyðarfirði að vetrarlagi þegar ófært verður milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar.

F. h. ráðherra.

Baldur Möller.

Hjalti Zóphóníasson.“

Breytingin fór fram 1. júní s.l. og hafa lögreglumennirnir frá þeim tíma gengið sameiginlega vakt frá Eskifirði. Tekið hefur verið fullt tillit til óska Reyðarfjarðarhrepps um að aðstöðu verði komið upp fyrir lögreglu á Reyðarfirði, þannig að skýrslutaka geti farið fram á staðnum o.fl. er varðar störf lögreglunnar. Í þessu skyni var skrifstofuherbergi tekið á leigu á Reyðarfirði 1. okt. s.l. Af hálfu sýslumanns er lögð rík áhersla á að lögreglan fari í eftirlitsferðir á Reyðarfjörð og hafi þar viðdvöl. Daglega er það nákvæmlega bókað í dagbók lögreglunnar hvernig löggæslu á Reyðarfirði er sinnt. Þetta er í stórum dráttum skýringin á þeirri breytingu sem átt hefur sér stað varðandi löggæslu á Reyðarfirði.

Rétt er að taka fram að það var rn. sem tók þessa ákvörðun. Varðandi búsetu lögreglumannsins, sem starfaði og bjó á Reyðarfirði en er nú fluttur búferlum til Eskifjarðar, er rétt að láta þess getið að aldrei hefur af hálfu sýslumanns eða rn. verið sett neitt skilyrði um búsetu hans, hvort heldur hann byggi á Reyðarfirði eða Eskifirði eða annars staðar á löggæslusvæðinu. Rn. telur sig skorta vald til að skylda lögreglumenn til að búa á ákveðnum stöðum. T.a.m. búa margir lögreglumenn, sem starfa á Keflavíkurflugvelli, í Reykjavík. Einnig starfa margir lögreglumenn í Kópavogi, Reykjavík og Hafnarfirði sem eiga búsetu í Mosfellssveit o.s.frv. Það eina sem unnt er að krefjast í þessu sambandi er að lögreglumenn sem gegna útkallsvöktum, en þannig háttar til um lögreglumenn í Suður-Múlasýslu, eigi ekki um langan veg að sækja til að sinna útköllum.

Til fróðleiks skal þess að lokum getið að á s.l. áratug hefur löggæsla verið sameinuð á fleiri stöðum og má þar nefna að fyrir fimm árum var löggæsla á Hellissandi og Ólafsvík sameinuð. Og eins var löggæslan í Sandgerði sameinuð Keflavíkurlögreglu í hagræðingarskyni þegar Gullbringusýsla var skilin frá Kjósarsýslu og bæjarfógetinn í Keflavík varð jafnframt sýslumaður hennar í stað bæjarfógetans í Hafnarfirði.