06.06.1985
Neðri deild: 85. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5972 í B-deild Alþingistíðinda. (5381)

Um þingsköp

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Það gerist stundum, þegar sérstaklega stendur á, að forseti leyfir umr. utan dagskrár með fyrirspurnum til ráðh. um aðkallandi efni, sérstaklega ef eitthvað hefur komið skyndilega upp og krefst skjótrar úrlausnar. Ég geri mér grein fyrir því að hér er verið að fjalla um vandamál sem er alls ekki nýtt.

Hv. þm. Kristín Kvaran hafði samband við mig og nefndi að hún vildi ræða þessi mál utan dagskrár vegna fregna sem fram hefðu komið í fjölmiðlum. Ég tjáði hv. þm. að þær fregnir sem hún talaði um hefði ég ekki haft nokkurt ráðrúm eða tækifæri til að sjá eða heyra. Ég kom ekki heim frá störfum mínum í gærkvöld fyrr en eftir útvarpsfréttir þar sem mér skilst að á þetta hafi verið minnst og hafði nú ekki lesið NT áður en ég fór til vinnu í morgun, en mér skilst að kveikjan að þessu sé fregn í NT og hana hef ég núna í höndum. Hins vegar hefur engri fsp. verið til mín beint og það er náttúrlega ekki von að það geti legið fyrir samþykki ráðh. að taka þátt í umræðum um efni sem hann nákvæmlega veit ekki um hvað á að verða né heldur um hvað á að spyrja. Slíkt væri ekki verjanleg framkoma gagnvart forseta þingsins né heldur þm. Ég vil nú einungis skýra þetta mál. Og þá þess heldur að hér er um að tala kjör starfsmanna sem eru alls ekki ríkisstarfsmenn. Þeir eru starfsmenn sveitarfélaga í flestum tilfellum en hér er rætt eitt af þeim vandamálum sem skapast vegna kjaramála fyrst og fremst.

Ég vil hins vegar undirstrika eitt af því að hv. þm. benti á að það hefði gerst í fyrsta sinn að of fáar umsóknir væru um inngöngu í Fósturskólann. Það hefur hins vegar gerst í fyrsta sinn að fullbúin er í menntmrn. starfsáætlun fyrir dagvistarstofnanir og það er unnið að því núna á vegum menntmrn. að kynna þá starfsáætlun í allt sumar til þess að þeim starfsmönnum sem við þessar stofnanir starfa gefist kostur á að fjalla um þær sjálfum og fyrir liggi nú í haust ábendingar frá þeim sem við dagvistarstofnanir starfa.

Tilgangurinn með þessari starfsáætlun er að gera vinnuna á dagvistarstofnunum markvissa til gæfu og aðstoðar þeim ungu borgurum sem á stofnununum eru og til þess að auðvelda starf þeirra sem við stofnanirnar vinna. Þetta skiptir auðvitað miklu máli, en ég vildi einungis, herra forseti, skýra það af hverju ég taldi engin efni til þess að gefa upplýsingar um það mál sem hér er um spurt þar eð ég vissi ekki einu sinni í morgun um hvað ætti að spyrja, það var mér ekki tjáð.