06.06.1985
Neðri deild: 85. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5973 í B-deild Alþingistíðinda. (5383)

Um þingsköp

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég skal fara að þeim orðum að halda mig við þingsköp. Ég vil vekja athygli á því að það er ákaflega sjaldgæft, þegar þm. óska eftir umræðum utan dagskrár um mál sem eru mjög brýn í þjóðfélaginu, að því sé hafnað. Ég hygg að það þurfi valdamann úr kvennastétt til að gera það. Ég hef a. m. k. aldrei vitað til þess í minni þingtíð að ráðh. hafi neitað að vera til svara um ástand eins og hér er upp komið í dagvistarstofnunum landsins, og það er sannarlega nýlunda hér að þegar konur hér á Alþingi biðja ráðh. af kvenkyni að svara fyrir slíkt, þá skuli því vera hafnað.

Sú afsökun ráðh., sem á að stjórna þessum málaflokki, að hún hafi ekki haft hugmynd um þetta af því að hún hafi ekki lesið NT er ekki skýring sem hægt er að sætta sig við. Ráðh. veit nákvæmlega ekkert hvað er að gerast í þeim málaflokki sem hún á að stjórna. Ég vil minna á að hér í vetur bar ég fram fsp. um hvernig gengi að framfylgja þeim lögum sem ég fékk hér samþykkt fyrir nokkrum árum um starfsáætlun dagvistarheimila, vegna þess að mér var kunnugt um að nefnd sú sem þar hafði verið að störfum hafði lokið þeim störfum, og við hæstv. ráðh. og ég áttum þó nokkrar viðræður um ástand í dagvistarmálum í þeirri umræðu, og ég fékk satt að segja lítil sem engin svör við því hver væri ætlunin um að framfylgja þessum lögum.

Nú tekur ráðh. hins vegar þessi lög og skýrslu nefndarinnar og flaggar þeim sem einhverjum áfanga í dagvistarmálum. Það var ekki hægt að fá jákvætt svar við því í umræðum hér fyrr í vetur hvort til stæði að setja þessi lög í framkvæmd. Mér finnst þetta satt að segja alvarlegur hlutur, að ráðh. skuli beinlínis hafa neitað því að eiga hér við okkur orðastað um ástand í dagvistarmálum. Ég vil því spyrja hæstv. forseta: Stendur ekki til, úr því að ráðh. er hér kominn og við höfðum óskað eftir þessari umræðu, og þá sérstaklega hv. þm. Kristín S. Kvaran, stendur þá ekki til að leyfa að þessi umræða fari fram? Venjan er sú að konur hér eru stuttorðar. Ég held að við værum allar fullfærar um það að halda þessari umræðu innan við einn klukkutíma og það er ekki of langur tími þegar börn landsins eiga í hlut.