06.06.1985
Neðri deild: 85. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5979 í B-deild Alþingistíðinda. (5399)

Um þingsköp

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég tel að þessi umræða um þingsköp hafi skilað þeim árangri að hæstv. menntmrh. hafi fallist á að hafa hér umræðu utan dagskrár um þetta mál, dagvistarmálin og þá hvað hæstv. ráðh. hyggst gera til að leysa þennan vanda. Það hafa a. m. k. tveir eða þrír þm. óskað eftir því að sú umræða geti farið fram ekki síðar en á morgun. Þess vegna vil ég leyfa mér að beina þeirri ósk til hæstv. forseta að hann reyni í samráði við forseta þingsins að haga störfum með þeim hætti hér í þinginu á morgun að það finnist tími fyrir slíka utandagskrárumræðu sem ég tel að liggi ljóst fyrir að hæstv. menntmrh. hefur fallist á að fram fari hér. Ég tel einnig að hæstv. menntmrh. ætti að nægja tími til morguns til að kynna sér þessi mál eins og hún hefur óskað eftir. Þess vegna beini ég því til hæstv. forseta að hann í samráði við forseta þingsins hagi störfum með þeim hætti á morgun að hægt sé að finna tíma fyrir þessa utandagskrárumræðu.