06.06.1985
Neðri deild: 85. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5979 í B-deild Alþingistíðinda. (5401)

499. mál, ríkisbókhald

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breytingu á lögum nr. 52 frá 1966, um ríkisbókhald, gerð ríkisreiknings og fjárlaga, sbr. lög nr. 31 frá 1982, um breyting á þeim, eins og það var lagt fram í hv. Ed. á þskj. 927.

Í síðasta mánuði mælti ég fyrir tveim frv. í Ed., þ. e. frv. til l. um breytingu á lögum nr. 52 frá 1966, um ríkisbókhald, gerð ríkisreiknings og fjárlaga, og enn fremur frv. um breytingu á lögum nr. 13 frá 1979, um stjórn efnahagsmála o. fl. Báðum þessum frv. var vísað til fjh.- og viðskn. hv. Ed.

Að vel athuguðu máli ákvað n. að sameina þessi tvö frv. í eitt frv. og mæli ég því fyrir frv. til l. um breytingu á lögum nr. 52 frá 1966, um ríkisbókhald, gerð ríkisreiknings og fjárlaga. Þetta felur ekki í sér neinar efnislegar breytingar heldur er verið að sameina í einu frv. öll þau atriði sem snerta fjárlög, fjárfestingar, lánsfjáráætlun og lánsfjárlög.

Allt frá árinu 1976 hefur svonefnd lánsfjáráætlun verið samin að tilhlutan ríkisstj. og lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar. Lög nr. 13 frá árinu 1979, um stjórn efnahagsmála o. fl., kveða á um efnisþætti fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar og ákvæði um framlagningarskyldu ríkisstj. Lánsfjárlög, sem Alþingi samþykkir á ári hverju, eru mikilvægur þáttur í ríkisbúskapnum og því þýðingarmikið að umfjöllun Alþingis og afgreiðsla á lánsfjárlögum sé samhliða afgreiðslu fjárlagafrv. hverju sinni. Hins vegar hefur það oft gerst, þrátt fyrir það að lánsfjáráætlun og frv. til lánsfjárlaga hafi verið lögð fyrir Alþingi áður en fjárlög hafa verið afgreidd, að dregist hefur úr hömlu að afgreiða lánsfjárlög. Afgreiðsla Alþingis á þessum tvennum veigamiklu lögum veldur oft erfiðleikum í framkvæmd ríkisfjármála í upphafi fjárlagaárs. Tel ég nauðsynlegt að kveðið sé á um það í lögum að fjárfestingar- og lánsfjáráætlun sé hluti af grg.. með fjárlagafrv. hvers árs. Þannig á umfjöllun um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun að vera tryggð samtímis umræðu og afgreiðslu fjárlagafrv. hverju sinni. Enn fremur er með frv. þessu lagt til að gerð sé sú breyting á framsetningu í lántökum ríkisaðila að heildarstaða þeirra mála sé skýrari.

Að því hefur verið fundið og það með réttu að fjárlög hverju sinni sýni ekki nægilega heilsteypta mynd af umfangi ríkisfjármála. Þannig er sambandið milli fjárlaga, fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar og lánsfjárlaga flókið og jafnvel óskýrt og mörgum hefur reynst erfitt að tileinka sér þá heildarsýn yfir þessi mál sem er forsenda skipulegrar umfjöllunar. Tilgangurinn með þessu frv. er fyrst og fremst sá að móta heillega mynd um umfang ríkisfjármálanna þar sem lánsfjármál ríkissjóðs og annarra aðila fá fyllri og nánari umfjöllun en hingað til hefur átt sér stað. Þannig gerir frv. ráð fyrir að framvegis verði yfirlit um lánsfjáröflun og lánsfjárráðstöfun ríkissjóðs að finna á einum stað, þ. e. í 1. gr. fjárlaga. Ætti það að auðvelda öllum þeim sem fjalla um ríkisfjármál og um þau vilja fræðast að hafa yfirsýn yfir þennan mikilvæga málaflokk.

Frv. gerir ráð fyrir að framvegis verði fjárfestingar- og lánsfjáráætlun hluti af grg. fjárlagafrv. hvers árs, þannig að umfjöllun um lántökur og lánveitingar ríkissjóðs og annarra opinberra aðila eigi sér stað um leið og umræður um fjárlagafrv. fara fram hér á Alþingi. Þá gerir frv. ráð fyrir að framvegis verði það fjmrh. sem leggur fjárfestingar- og lánsfjáráætlun svo og frv. til lánsfjárlaga fram á Alþingi í stað ríkisstj. eins og kveðið er á um í núgildandi lögum. Þessi breyting er í samræmi við það verklag sem þróast hefur á undanförnum árum. Enn fremur að það verði fjvn. Alþingis sem fjalli um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun eins og aðra þætti ríkisfjármálanna, þó svo að heimildir til lántökunnar fellst í frv. sem lagt verður fram í deild.

Þá er að finna í þessu frv. það nýmæli að framvegis verður það skylda fjmrh. að upplýsa Alþingi um hverjar séu fjárhagslegar skuldbindingar þjóðarinnar út á við og sýna jafnframt áætlaðar greiðslur vaxta og afborgana af erlendum skuldum minnst þrjú ár fram í tímann. Þessum þætti þarf sannarlega að gefa aukinn gaum.

Í frv. er að finna ákvæði sem gerir ráð fyrri því að umfjöllun Alþingis um ábyrgðarveitingar ríkissjóðs verði jafnhliða umræðu um fjárlög og lánsfjárlög og að notkun ábyrgðarheimilda í sérlögum skuli framvegis vera innan þeirra marka sem fjárlög og lánsfjárlög ákvarða á því fjárhagshári sem um er að ræða. Þetta er reyndar í samræmi við þá venju sem komin er á.

Þá fjallar frv. enn fremur um breytta skilgreiningu á A-hluta fjárlaga. Það er í valdi fjmrh. eftir tillögu frá ríkisreikningsnefnd að ákveða þær stofnanir sem teljast skulu til A-hluta og B-hluta fjárlaga. Undantekning er þó að í lögum segir að almannatryggingar og endurlánareikning ríkissjóðs skuli færa í B-hluta. Hér er lagt til að þessu ákvæði verði breytt til samræmis við meðferð annarra stofnana A-hluta fjárlaga, þ. e. að framvegis verði almannatryggingar ríkisins og endurlánareikningur ríkissjóðs talinn til A-hluta fjárlaga í stað B-hluta eins og verið hefur. Frv. gerir ráð fyrir að framvegis skuli tekjur ríkissjóðs af fjáröflunareinkasölum ríkisins eins og þær eru áætlaðar í fjárlögum undantekningarlaust teljast með sköttum en ekki með arðgreiðslum annarra fyrirtækja og sjóða eins og gert hefur verið í sumum tilfellum.

Þá gerir frv. ráð fyrir að III. og IV. kafli laganna nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála o. fl., verði felldur úr gildi en þau ákvæði sem þar er að finna og snerta ríkisfjármál, fjárfestingar- og lánsfjáráætlun og lánsfjárlög verði sett í lög um ríkisbókhald og fjárlög. Í þessum köflum er enn fremur að finna tímabundið ákvæði um markmið í ríkisfjármálum en þær lagagreinar eru að sjálfsögðu ekki teknar inn í þetta frv. þar sem um tímabundin ákvæði var að ræða.

Að svo mæltu, virðulegur forseti, leyfi ég mér að leggja til að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.