06.06.1985
Neðri deild: 85. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5981 í B-deild Alþingistíðinda. (5402)

499. mál, ríkisbókhald

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég tel rétt að það komi fram þegar við 1. umr. málsins hér í deild að þetta mál hefur ekki verið efnislega rætt í þingflokki Framsfl. Við sáum þetta stjfrv. fyrst á borðum okkar hér í þinginu og það tel ég í sjálfu sér ámælisverð vinnubrögð hjá ríkisstj. eða fjmrh., hverjum sem það er nú að kenna. En við höfum sem sagt ekki haft tækifæri til þess að ræða þetta mál á þingflokksfundum áður en það var lagt fram eins og venjan er með stjfrv. Ég er ekki þar með að segja að ég sé ósamþykkur þessu frv., það er áreiðanlega margt í því til bóta. Ég vek athygli á að þarna er um að ræða nokkuð veigamiklar breytingar á sumum þáttum og ég tel að sumt af þessu þurfi nokkuð náinnar skoðunar við.

Ég tel að heppilegt sé náttúrlega að ganga frá fjárfestingar- og lánsfjáráætlun áður en komið er langt fram á árið og þarf ekki að rifja það upp fyrir hv. þdm. að við erum enn ekki búin að ganga frá fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1985 og er þó kominn 6. júní. Þetta mál hefur verið til meðferðar og er hér á dagskrá í dag og ég vonast til þess að fá tækifæri til að mæla fyrir nál. í dag eða á morgun, nál. fjh.- og viðskn., og það er ekki við fjh.- og viðskn. Nd. að sakast — það vil ég taka fram — að þetta hefur tekið svona langan tíma.

Ég er hins vegar ekki viss um að það fyrirkomulag sé til bóta að færa meðferð lánsfjárlaga og lánsfjáráætlunar yfir til fjvn. frá fjh.- og viðskn. og andstætt þingsköpum. Ég set alveg spurningarmerki við það atriði að svo komnu máli. Það getur vel verið að þetta sé eðlilegt en ég hef ekki sannfæringu fyrir því á þessari stund.