06.06.1985
Neðri deild: 86. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6005 í B-deild Alþingistíðinda. (5421)

480. mál, greiðslujöfnun fasteignaveðlána

Frsm. meiri hl. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. á þskj. 1111. Nefndin hefur fjallað um þetta frv. og fengið til viðræðna fulltrúa bæði frá Alþýðusambandi Íslands og Sambandi almennra lífeyrissjóða. Frv. er tilkomið með þeim hætti að fram voru lagðar till. af hálfu ríkisstj. um greiðslujöfnun húsnæðislána. Síðan fóru fram umr. milli ríkisstj. og Alþýðusambands Íslands um þetta efni og frv. eins og það var lagt fram er niðurstaða af þeim umr.

Afgreiðslu málsins í n. var frestað meðan viðræður fóru fram milli þingflokkanna um ráðstafanir í húsnæðismálum. Meiri hl. n. mælir með samþykkt frv. en flytur brtt. við ákvæði til bráðabirgða á sérstöku þskj. Minni hl. skilar séráliti og flytur brtt.

Að áliti meiri hl. standa Páll Pétursson, Þorsteinn Pálsson, Friðrik Sophusson og Halldór Blöndal. Brtt. meiri hl. fjh.- og viðskn. er á þskj. 1112 og er við ákvæði til bráðabirgða. Meginbreytingin, sem felst í till., lýtur að því að horfið er frá því skilyrði að afturvirkni greiðslujöfnunar sé bundin við umtalsverða greiðsluerfiðleika. Jafnframt er horfið frá því að lán skv þessu ákvæði verði háð mati Húsnæðisstofnunar. Þar á móti kemur ákvæði þess efnis að Húsnæðisstofnun skuli kynna nánari reglur og viðmiðanir um skilyrði fyrir frestun ekki síðar en 15. júlí 1985 en umsóknir skuli hafa borist stofnuninni fyrir 1. sept. 1985, eins og segir í upphaflegu ákvæði til bráðabirgða.