06.06.1985
Neðri deild: 86. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6005 í B-deild Alþingistíðinda. (5422)

480. mál, greiðslujöfnun fasteignaveðlána

Frsm. minni hl. (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. minni hl. fjh.- og viðskn. um frv. til 1. um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga. Um það leyti sem umfjöllun þessa greiðslujöfnunarmáls var að ljúka í n. hófust viðræður stjórnar og stjórnarandstöðu um þessi mál og síðan hefur birst í fréttum og greinargerðum af þeim fundum ýmislegt um það sem þar kom fram í því sem hönd á festi. Fskj. með þessu nál. eru gögn sem stjórnarandstöðufulltrúarnir lögðu fram. Það er annars vegar umræðugrundvöllur fyrir lausn á ríkjandi neyðarástandi í húsnæðismálum sem lagður var fram í byrjun þessa samráðs og síðan er grg. til stjórnarflokkanna frá stjórnarandstöðunni sem birt var að viðræðunum loknum og dreift til fjölmiðla og til stjórnarflokkanna. Í þessum fskj. eru rakin flestöll efnisatriði þessa máls. Það hefur þegar verið vikið að þeim í umr. hér fyrr í dag um frv. til tekjuöflunar vegna húsnæðismála.

Ég ætla ekki að gera mál mitt langt að þessu sinni. Minni hl. flytur brtt. við frv. til l. um greiðslujöfnun fasteignaveðlána. Þetta eru brtt. sem hafa verið viðraðar við meiri hl. n. í viðræðum en ekki hlotið þar mikinn hljómgrunn, en við teljum að þær séu allar mjög til bóta. Þær skýra sig raunar sjálfar. Það er eitt meginatriði í þeim að við teljum að það eigi að innleiða kauptaxtavísitölu sem viðmiðunaratriði við reikning lánanna. Við teljum að það sé sú vísitalan sem sé sanngjarnast að miða við. Það er vísitala sem hönd á festir, vísitala sem reynsla er af að nota og við teljum að hún sé eðlilegri grundvöllur en það sem lagt er til að nota skv. frv. Kauptaxtavísitala mælir réttast hjá þeim sem nauðin er mest hjá. Þeir sem erfiðast eiga í þessum málum eru fólk sem er með lægst launin og yfirleitt á gildandi kauptöxtum, eins og þeir hafa verið auglýstir hverju sinni. Þess vegna teljum við eðlilegast að miða við vísitölu kauptaxtanna.

Í fyrsta lagi er engin reynsla af þeirri nýju vísitölu sem gert er ráð fyrir að verði tekin upp skv. frv., þ. e. vísitölu atvinnutekna. Í öðru lagi hækkar þessi vísitala ef fólk fer að leggja á sig mjög aukna vinnu til þess að hafa upp í greiðslur af þessum húsnæðislánum eða bæta á sig yfirvinnu eða á annan hátt að þrengja að sér til þess að hafa ofan í sig og á. Það er ekki réttlátt.

Við leggjum líka til í brtt. að þessi greiðslujöfnun verði látin ná til fleiri aðila en byggingarsjóða, það verði tekið af skarið um það. Það er augljóst að mjög stór hluti þessa vanda er utan byggingarsjóða ríkisins. Við gerum þess vegna að tillögu okkar að það verði kveðið á um að þetta gerist víðar en hjá byggingarsjóðum ríkisins einum. Við leggjum síðan til í 2. gr. brtt. að Seðlabanka Íslands verði skylt að endurkaupa skuldabréf af öðrum aðilum en byggingarsjóðum ríkisins vegna slíkra samninga.

Annað meginatriði er að við leggjum til brtt. við 5. gr. 3. mgr. 5. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta, í frv. sjálfu:

„Sé greiðslumark hærra en gjalddagafjárhæð skal heildargreiðslan miðuð við greiðslumark að því marki sem skuld er á jöfnunarreikningi, en sé jöfnunarreikningur skuldlaus skal gjalddagafjárhæð ráða greiðslu.“

Við teljum það mikinn greiða af ýmsum ástæðum að leggja til mikla einföldun á þessari grein. Í fyrsta lagi er þetta slíkur málfarslegur galli á þessu frv. að það er varla vansalaust. Í öðru lagi er okkar brtt. einföldun fyrir það kerfi sem þarf að vinna skv. þessum lögum. Í þriðja lagi teljum við að hér sé um réttlætismál að ræða varðandi afturvirkni þessara mála.

Brtt. okkar við 6. gr. vísar til kauptaxtavísitölunnar. Við gerum einfaldlega ráð fyrir því að kauptaxtavísitalan verði notuð þarna til viðmiðunar, sem verði reiknuð mánaðarlega af Kjararannsóknarnefnd og verði hin eðlilega viðmiðun í þessum efnum.

Ég sagði í upphafi að ég ætlaði ekki að gera mál mitt langt að þessu sinni. Ég er búinn að flytja um þessi húsnæðismál ræðu þegar í dag frá eigin brjósti. Ég hef hér útskýrt þessar till. og afstöðu minni hl. og ég vísa síðan til fskj. við þetta nál. þar sem sést hverjar hugmyndir og tillögur og áherslur stjórnarandstöðunnar voru í þessum viðræðum. Við leggjum til að þetta frv. verði samþykkt með þeim brtt. sem við flytjum sérstaklega á þskj. Guðrún Agnarsdóttir þm. SK var viðstödd fundi n. og er samþykk þessu áliti.