06.06.1985
Neðri deild: 86. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6007 í B-deild Alþingistíðinda. (5423)

480. mál, greiðslujöfnun fasteignaveðlána

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Í viðræðum, sem staðið hafa yfir að undanförnu milli stjórnar og stjórnarandstöðu um lausn á vanda húsbyggjenda og íbúðarkaupenda, var það eitt af meginmarkmiðum stjórnarandstöðunnar að reyna að ná samstöðu um að frekar yrði gengið til móts við þá fjölmörgu sem komnir eru í greiðsluþrot vegna misgengis launa og lánskjara á undanförnum árum og að þar yrði gengið lengra en fram kemur í þessu frv. Þær breytingar, sem stjórnarandstaðan lagði áherslu á í því sambandi, voru:

að greiðslujöfnun nái ekki aðeins til Húsnæðisstofnunar heldur og til lífeyrissjóða og banka.

að vextir af húsnæðislánum yrðu lækkaðir og verði aldrei hærri en 3% af húsnæðislánum,

að greiðslumark húsnæðislána verði miðað við kaupgjaldsvísitölu en ekki við vísitölu atvinnutekna og kaupgjalds að jöfnu, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir,

að misgengi vísitalna frá undanförnum árum verði endurgreitt í formi skattaafsláttar sem komi til framkvæmda þegar á þessu ári,

að skammtímalán í bönkum og sparisjóðum vegna húsnæðislána verði lengd í tíu ára lán og að Seðlabankinn endurkaupi lánatenginguna af viðskiptabönkunum,

að réttur lántakenda til greiðslujöfnunar verði skilgreindur og viðurkenndur án tillits til vanskila eða mats embættismanna.

Þó að lítið sé að finna í brtt. meiri hl. hv. fjh.- og viðskn. sem kemur til móts við þessar tillögur stjórnarandstöðunnar þá liggur þó fyrir að nokkurt fjármagn hefur fengist til greiðslujöfnunar og að það fjármagn, sem til þess verður varið, verði ekki tekið af því fjármagni sem í fjárlögum og lánsfjáráætlun var ætlað til útlána úr byggingarsjóðunum á þessu ári og að ekki þarf að koma til frekari erlendra lántaka til að mæta fjárþörf húsnæðiskerfisins. Einnig liggur fyrir skv. upplýsingum stjórnarflokkanna að lífeyrissjóðirnir munu taka upp greiðslujöfnun til samræmis við það sem kveðið er á um í þessu frv. að því er byggingarsjóðina varðar.

Ríkisstj. hefur einnig haft góð orð uppi um það að veita sérstakan skattaafslátt á næsta ári vegna misgengis launa og lánskjara á undanförnum árum. Stjórnarandstaðan lagði aftur á móti áherslu á að slíkur skattaafsláttur kæmi þegar á þessu ári, sem vel hefði verið framkvæmanlegt á síðustu mánuðum ársins, þannig að skattafsláttur gengi upp í skattgreiðslur þessa árs. En vissulega er það virðingarverð viðleitni og spor í rétta átt ef við það verður staðið af hálfu ríkisstj. að bæta húsbyggjendum og íbúðakaupendum upp með skattaafslætti á næsta ári þær umframgreiðslur sem húsbyggjendur og íbúðakaupendur hafa orðið að standa undir á undanförnum árum vegna misgengis launa og lánskjara. En húsbyggjendur og íbúðakaupendur hafa að vísu bara góð orð ríkisstj. um að svo verði gert. Þegar svo miklu hefur verið lofað í húsnæðismálum af þessum stjórnarflokkum án þess að við það allt hafi verið staðið hafa menn vissulega af því umtalsverðar áhyggjur hvort og þá hvernig verði að þessum skattaafslætti staðið á næsta ári.

Það væri t. d. fróðlegt að fá fram hjá hæstv. félmrh. hvort hann treysti á stuðning ríkisstj. í því sambandi og þá að fá upplýst hvort fyrir liggi algjör samstaða innan stjórnarflokkanna um að staðið verði við þessi fyrirheit á næsta ári um sérstakan skattaafslátt vegna misgengis launa og lánskjara á næsta ári. Hæstv. félmrh. hlýtur að hafa gert nauðsynlegar ráðstafanir til að svo verði, ekki síst þegar til þess er litið að af ummælum hans má marka að honum hefur gengið illa að fá framgengt sínum yfirlýsingum og loforðum í húsnæðismálum hjá ríkisstj. Skv. hans eigin upplýsingum eru sex mánuðir síðan hann reyndi að fá framgengt ýmsum af þeim hugmyndum um tekjuöflun og ráðstöfun fjár í húsnæðiskerfinu sem engin hreyfing komst á fyrr en stjórnarandstaðan kom til liðs við hæstv. félmrh. og blandaði sér með afgerandi hætti í þessi mál.

Ég spyr t. d. hæstv. félmrh. miðað við það sem á undan er gengið: Telur hann ekki tryggara að fá fylgi stjórnarandstöðunnar f. d. við ákvæði til bráðabirgða við þetta frv. um að veittur skuli skattaafsláttur þegar á næsta ári til húsbyggjenda og íbúðakaupenda vegna misgengis launa og lánskjara á næsta ári eða treystir ráðh. fullkomlega á að við þetta verði staðið? Ég tel næsta víst að öll stjórnarandstaðan verði tilbúin til fylgis við hann um slíkt ákvæði. Hann þyrfti því t. d. ekki að byggja á óljósum yfirlýsingum eða loforðum hv. þm. og formanns Sjálfstfl., Þorsteins Pálssonar, í þessu máli.

Ég man t. d. ekki betur en að Sjálfstfl. hafi lofað honum á s. l. þingi ákveðnum hlutum varðandi framgang búseturéttaríbúða á þessu ári. Nú er stutt eftir af þingi og ekki bólar á öðru en að Sjálfstfl. muni aftur beygja húsnæðismálaráðherrann þannig að hann verði aftur á þessu þingi eins og síðasta að kokgleypa öll stóru loforðin við Búseta. Ég spyr því hæstv. ráðh. hvort ekki væri skynsamlegra og rétt af honum að þiggja atbeina stjórnarandstöðunnar við að fá skuldbindandi ákvæði í þetta frv. um að veittur verði skattaafsláttur á næsta ári til húsbyggjenda og íbúðarkaupenda.

Í annan stað vil ég spyrja hæstv. félmrh. varðandi viðbótarlánveitingar í húsnæðiskerfinu sem veitt er gegnum ráðgjafarþjónustuna. Nú er það svo að frestur til að sækja um viðbótarlán rann út 1. júní s. l. Þá er spurningin sem ég óska eftir að ráðh. svari hér við þessa umr. hvort þessi frestur verði framlengdur og hvort húsbyggjendur og íbúðarkaupendur, sem komnir eru í greiðsluþrot, geti áfram á þessu ári treyst á að fá viðbótarlán í húsnæðiskerfinu og skuldbreytingar á lánum sem þeir eru ekki í nokkurri aðstöðu til að standa undir. Ef þeir hafa ekki sótt um þessi viðbótarlán nú fyrir 1. júní þá er spurningin hvort þessi frestur verði framlengdur þannig að þeir hafi möguleika að sækja um slíkt viðbótarlán.

Í þessu sambandi vil ég einnig minna á að stjórnarandstaðan lagði mikla áherslu á í viðræðum sínum við stjórnarflokkana að fá fram skuldbreytingu á skammtímalánum í bönkum til langs tíma eða a. m. k. tíu ára.

Það er ljóst að það eru einkum þessi skammtímalán, sem fólk hefur orðið að taka í bönkum, sem eru orsök þess að fjöldi heimila er kominn í greiðsluþrot og þarf sífellt að leita á náðir bankastjóranna til að fá einhvern örlítinn frest og lánalengingu í bönkum. Það yrði verulegur ávinningur og mundi létta svo um munaði greiðslubyrði húsbyggjenda og íbúðarkaupenda ef skammtímalánum yrði breytt í langtímalán í bönkum og sparisjóðum, sem yrði að vera til a. m. k. tíu ára hjá innlánsstofnunum ef það ætti að koma að verulegu leyti að notum.

Slíka skuldbreytingu mætti auðvelda bönkum, eins og stjórnarandstaðan hefur lagt til, með því að Seðlabankinn endurkeypti lánalenginguna af viðskiptabönkunum. Ég vil því einnig spyrja hæstv. félmrh. að því hvort hann teldi ekki rétt að skilja ekki við þetta frv. hér á hv. Alþingi öðruvísi en svo að Alþingi samþykkti að bankarnir tækju á sig slíka skuldbreytingu. Ég vil benda hæstv. ráðh. á að það væri verulegur ávinningur og auðveldaði félmrh. og hæstv. viðskrh. einnig ef í þetta frv. kæmi ákvæði til bráðabirgða um að viðskrh. og félmrh. væri falið að taka upp viðræður við innlánsstofnanir um skuldbreytingar á skammtímalánum í bönkum og hjá sparisjóðum vegna húsnæðislána sem breytt yrði í tíu ára lán. Ég vil láta á það reyna hvort ekki sé stuðningur við slíka brtt. og vil því leyfa mér, hæstv. forseti, að bera hér fram skriflega brtt. sem er of seint fram komin og þarf að leita afbrigða við. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Við ákvæði til bráðabirgða bætist ný mgr. svohljóðandi:

Viðskrh. skal þegar í stað, í samráði við félmrh., beita sér fyrir skuldbreytingu til a. m. k. tíu ára á skammtímalánum í bönkum og sparisjóðum vegna öflunar eigin húsnæðis.“

Þegar þetta mál var hér til 1. umr. og til umfjöllunar í hv. fjh.- og viðskn. lagði ég fram brtt. á þskj. 923. Ég sé ekki ástæðu til að fara ítarlega í gegnum þessar brtt., þær falla að miklu leyti saman við brtt. sem fluttar eru af minni hl. hv. fjh.- og viðskn. og mun ég að sjálfsögðu, að því er varðar þær brtt. sem falla saman, draga til baka mínar brtt. í því efni. Að sumu leyti ganga mínar brtt. lengra og munu þá þær ganga til atkvæða nú þegar atkvæðagreiðsla fer fram um þetta frv. En ég ítreka þær spurningar sem ég hef hér lagt fyrir hæstv. félmrh.