06.06.1985
Neðri deild: 86. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6009 í B-deild Alþingistíðinda. (5424)

480. mál, greiðslujöfnun fasteignaveðlána

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Þar sem hér er til umr. frv. sem hefur þann tilgang skv. 1. gr. að jafna greiðslubyrði af fasteignaveðlánum einstaklinga tel ég rétt að vekja athygli á einu atriði sem vissulega má heimfæra undir það orðalag. Aðrir hafa sagt það sem ég vildi sagt hafa um þetta frv. almennt, en ég ætla að víkja hér að einum sérstökum þætti, sem mér er til efs að allir geri sér ljóst hvernig háttar til um.

Sannleikurinn er sá að það fólk, sem hefur samið um greiðslu fasteignalána með þeim skilyrðum að greiða skuli hæstu leyfilega fasteignalánavexti verður nú fyrir því hvert á fætur öðru að fá mjög misháar upphæðir innheimtar eftir því í hvaða banka skuldabréfin hafa verið lögð. Hér hef ég í höndunum tvö gjörsamlega samhljóða skuldabréf með fasteignaveði, gefin út sama dag, jafnhá að upphæð, og nú skal greiðandi borga. Annað bréfið er í innheimtu í Samvinnubanka Íslands.

Þeir segja að hæstu lögleyfðir fasteignalánavextir séu 25.7%, Landsbankinn segir hins vegar að þeir séu 28.28%. Þetta munar greiðanda 2900 kr. á öðru bréfinu.

Þegar haft er samband við Seðlabankinn segja þeir þar: Lægri upphæðin er rétt. Samvinnubankinn er hér að innheimta rétta vexti. Landsbankinn hefur það eitt um málið að segja að þeir séu ekki sammála því. Þetta er auðvitað gjörsamlega óviðunandi. Ef litið er í Árbók Seðlabankans, sem nýlega var lögð hér á borð okkar þm., ársskýrsla frá 1984, þá segir um þetta atriði svo, með leyfi forseta, á bls. 45:

„Vaxtamálin tóku á sig óvenjulega mynd upp úr miðju ári 1983, þegar verðbólga hjaðnaði snögglega úr því að vera um eða yfir 100% í 12–15%, sem hún var á fyrri hluta árs 1984. Nafnvextir óverðtryggðra skuldbindinga voru lækkaðir á tímabilinu september 1983 til janúar 1984. eftir að verðbólga tók að lækka, t. d. þannig að ávöxtun algengra bankalána lækkaði úr 52.5% í um 22%, en með hjöðnun verðbólgunnar hækkuðu raunvextir verulega.“

Síðan segir með leyfi forseta: „Árið 1984 voru stigin skref sem ætla má að færi vexti í áttina að markaðsvöxtum, þ. e. þeim vöxtum sem hér yrðu án beinna opinberra afskipta. Hugmyndir um að vextir ráðist af markaðsaðstæðum í stað þess að vera ákveðnir af stjórnvöldum komust m. a. í lög síðla árs 1983 með lögum nr. 79 frá því ári er Alþingi heimilaði fjmrh. að selja ríkisvíxla á uppboði — veitti m. ö. o. undanþágu frá lögum um bann við okri nr. 58/1960. Slíkir víxlar voru boðnir til sölu mánaðarlega í mars-nóv. 1984, 30 millj. í hvert sinn. Stóðu vonir til þess í fyrstu að draga mætti ályktanir um markaðsvexti af tilboðunum. Í mars hefði meðalávöxtun heildarfjárhæðarinnar orðið 26.5%, en það var 4.4% ofan við algenga vexti bankalána (skuldabréfa). Áskilinn réttur til að hafna tilboðum var nýttur þannig að seldir voru víxlar fyrir 19 millj. kr. og nam meðalávöxtun þeirra 25.7%.“

Síðan segir nokkru síðar, herra forseti:

„Í ágúst fengu svo innlánsstofnanir mun rýmri heimild, því að skv. henni skyldu þær ákveða sjálfar og hver um sig alla vexti aðra en vexti almennra sparisjóðsbóka, endurseljanlegra afurðalána og vanskilavexti. Seðlabankinn ákvað enn fremur að innlánsstofnanir fengju ekki rétt til að ákveða vexti skuldabréfa, útgefinna fyrir 11. ágúst 1984.“

Þetta hlýtur að þýða að innlánsstofnanir hafa nú rétt til að ákveða, eftir því sem ég skil best, vexti skuldabréfa, útgefinna eftir 11. ágúst 1984. Fyrir hinum venjulega greiðanda lítur þetta þannig út að hann á það undir því hvar lánardrottinn hans leggur sín bréf inn til innheimtu hvort hann á að greiða verulegri fjárhæð meira eða minna.

Ég held að það væri ástæða til fyrir stjórnvöld, ef þeim er einhver alvara í huga að jafna greiðslubyrði af fasteignaveðlánum einstaklinga, að huga að þessu. Þess vegna hef ég eins og menn hafa séð, á þskj. 1024 beint fsp. til hæstv. viðskrh. um mismunandi álagningu vaxta af innheimtum skuldabréfum. Hann hefur tjáð mér að hann muni svara — ég óskaði eftir því að svarið bærist skriflega — hann hefur lofað mér því og ég dreg ekki í efa að hann efnir það að reyna að fá einhvern botn í þessi mál og svara þessum tveim spurningum sem ég hef til hans beint, sem eru þannig, með leyfi forseta:

„1. Geta bankar og sparisjóðir krafið viðskiptamenn um mismunandi vexti af veðskuldabréfum sem til innheimtu eru?

2. Hefur ágreiningi milli Seðlabanka Íslands og annarra banka um útreikning vaxta af veðskuldabréfum verið skotið til dómstóla?"

Í viðræðum við Seðlabankann annars vegar og hinar ýmsu innlánsstofnanir hins vegar hefur ýmislegt skrýtið komið í ljós. Seðlabankinn og starfsmenn hans fullyrða að 25.7% vextirnir séu réttir. Landsbankinn telur það vera túlkunaratriði. Ég hlýt að víta það að hann hirði ekki meira um sína viðskiptamenn en svo, eða þá viðskiptamenn sína sem skulda — það er greinilegt að hann ber meira fyrir brjósti þá sem eiga — að hann stefnir ekki slíku máli til dómstóla, jafnvel þó að hér sé um að ræða bréf sem bankinn á ekki sjálfur heldur hefur til innheimtu.

Mér blöskraði sá dauðyflisháttur lögspekinga þessara stofnana sem ég talaði við. Það var ekki að heyra að þeim væri ekki nákvæmlega sama hvort fátækir húsbyggjendur í landinu væru að greiða verulega hærri upphæðir en þeir e. t. v. eiga að greiða — ég segi e. t. v. því að ég skal ekki fullyrða hver verður niðurstaða hæstv. viðskrh. eða dómstóla. Ég vænti þess að hann reyni að knýja fram einhverja jöfnun á þessu því að ég tel það satt að segja til lítils gagns að fá þau svör að þetta sé í lagi svona, það megi hver banki fyrir sig setja þá vexti á innheimtuskuldabréf sem honum sýnist.

Ég vildi koma þessu að hér, herra forseti, vegna þess að ég hef beðið um skriflegt svar og vænti þess að ég eyði ekki tíma þingsins í umr. um það, þar sem ég mun nú hverfa af þingi í næstu viku. Ég vænti þess að menn telji að hér sé um að ræða atriði sem vert sé að athuga í sambandi við jöfnun á greiðslubyrði. Sannleikurinn er sá að það, sem olli því að þessi greiðandi veitti þessum mismun athygli, var að bréfin voru fleiri en eitt. Vitaskuld eru þúsundir manna í landinu sem skulda einum seljanda, borga það sem upp er sett og hafa þar af leiðandi engan samanburð. Ég held að hér sé verkefni fyrir hið háa Alþingi, að endurskoða ákvarðanir sínar um vexti í landinu.