06.06.1985
Neðri deild: 86. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6011 í B-deild Alþingistíðinda. (5427)

480. mál, greiðslujöfnun fasteignaveðlána

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég vil byrja mál mitt með því að ég tek undir athugasemdir hv. 10. landsk. þm. Þar er vissulega um alvarlegt mál að ræða sem ég veit að verður skoðað vandlega.

Af því að hér kom fram fsp. frá hv. 2. landsk. þm. vil ég aðeins leitast við að svara henni. Ég leiði hjá mér allt hennar tal um að ekki sé staðið við loforð sem gefin hafa verið o. s. frv. Ég ráðlegg henni að kynna sér upplýsingar um lánveitingar og annað slíkt. Eins er hægt að vitna í Dagblaðið sem birti nýlega nokkuð fróðlegar upplýsingar sem Húsnæðisstofnun hafði látið fara frá sér, að vísu á ráðstefnu úti í Noregi en það gildir það sama.

Ég vil aðeins segja við hv. þm. í sambandi við það að ég geti ekki treyst stjórnarflokkum í sambandi við þessi mál, þá hlýtur mitt svar að vera að auðvitað treysti ég fullkomlega á þá samstöðu sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa gert og gera um þessi mál. Í fskj. með fyrra þingmáli, sem hér er nýafgreitt, er lýst aðgerðum sem stjórnarflokkarnir eru sammála um að vinna að og aðkallandi eru í húsnæðismálum. Þar er eitt af því sem hv. þm. var að tala um í sambandi við væntanlega meðferð á skattamálum eða í sambandi við vaxtafrádrátt o. fl. Það er mál sem er í vinnslu og ég tel ekki neinn vafa á því að stjórnarflokkarnir muni taka á því máli fyrir haustið þannig að það liggi fyrir hvernig þeir vilja leysa eða draga úr vanda húsbyggjenda eða skuldara í sambandi við það mál. Þar liggja fyrir nægjanleg gögn til að vinna úr.

Í sambandi við viðbótarlánveitingar, þ. e. að því er varðar ráðgjöf Húsnæðisstofnunarinnar um sérstök viðbótarlán þá upplýsti ég það hér fyrr í umr. um annað mál að skv. nýjustu upplýsingum sem ég hef hafa þegar borist um 2000 umsóknir til ráðgjafarþjónustunnar. Frestur rann út 1. júní s. l. Það varð að samkomulagi í Húsnæðisstofnuninni að breyta ekki þeirri viðmiðun um sinn meðan væri verið að vinna úr þessum fjölda umsókna sem borist hefði. Hins vegar yrði málið tekið til endurmats fyrir 1. ágúst n. k. og það kannað hvort þörf verður á því að framlengja sérstaklega þennan þátt.

Ég gat þess hér fyrr í dag að það er búið að ákveða að ráðgjafarþjónusta verði fastur þáttur í starfsemi Húsnæðisstofnunarinnar og það er verið að ganga frá því í stjórn stofnunarinnar nú þessa dagana að setja um það ákveðnar reglur sem verða birtar opinberlega. Framvegis eiga því þeir sem standa í húsnæðismálum, hvort sem þeir eru að byrja eða ætla að byrja eða eru komnir í vanda, að geta leitað til Húsnæðisstofnunarinnar um þessi mál. Fyrirbyggjandi aðgerðir til að ráðleggja fólki í þessum málum eru mjög mikilvægar og það verður einn þátturinn í þessari ráðgjöf sem skiptist fyrst og fremst í fjármálalega ráðgjöf og tæknilega ráðgjöf.

Hv. þm. spurði einnig um það ákvæði að skylda banka og sparisjóði til að skuldbreyta. Eins og ég tók fram hefur komið fram áður hér á þinginu í sambandi við þessa ráðgjöf og þessi viðbótarlán að rætt var við bankana, félmrn. og viðskrn. sömdu við bankana um að koma inn í þessi mál. Ég hef lýst því áður og skal ekki tefja tímann hér að þetta hefur tekist með ágætum í flestum tilfellum og orðið ákaflega mikið til styrktar þeim aðgerðum sem ríkisstj. ákvað að gera í þessum málum. Bæði félmrh. og hæstv. viðskrh. munu hafa samráð áfram við bankakerfið um þessi mál. Ég er alveg andvígur því í þessu sambandi að fara nú að setja ákveðið skilyrði í lög, ákveðin ákvæði í lög, um að skylda bankakerfið í þessu máli og lýsi þess vegna andstöðu við þá brtt. sem hv, þm. tilkynnti hér áðan úr ræðustól.

Ég fagna afgreiðslu þessa frv. sem mikil vinna var lögð í, bæði af sérstakri nefnd sem var skipuð í febrúar í þetta mál og eins hafa allar umr. um lausn á þessum greiðsluvanda fólks verið mjög jákvæðar. Ég tel að það sé ákaflega mikilvægt, þótt ekki sé möguleiki á að lögfesta skyldu á allar bankastofnanir í landinu og peningastofnanir að verða við þessu eða taka upp þessa aðferð, að lífeyrissjóðirnir skuli nú hafa tjáð sig fúsa til að láta þetta gilda einnig um lán lífeyrissjóðanna. Það hefur gífurlega mikil áhrif því að lífeyrissjóðirnir og húsnæðissjóðirnir eru að sjálfsögðu þeir sjóðir sem lána mest í húsnæðismálum þó að hins vegar vandi fólks vegna skammtímalána í ýmsum öðrum peningastofnunum sé gífurlega mikill. Í þessu frv. er gert ráð fyrir því að hægt sé að leita eftir slíkum samningum við allar peningastofnanir og á það vil ég að sjálfsögðu leggja mikla áherslu. Það verður reynt að hafa áhrif á slík viðbrögð hjá þessum stofnunum eins og fram hafa komið hjá lífeyrissjóðunum sem ég endurtek að er ákaflega mikilvægt mál.

Ég legg áherslu á að mjög mikilvægt er að þetta ásamt fyrra frv. verði afgreitt núna frá þessu þingi.