06.06.1985
Neðri deild: 86. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6015 í B-deild Alþingistíðinda. (5429)

480. mál, greiðslujöfnun fasteignaveðlána

Þorsteinn Pálsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður. Ég get þó ekki látið hjá líða að mótmæla fullyrðingum hv. 4. þm. Norðurl. e. um orsakir þess misgengis sem varð um tíma milli launa og lánskjaravísitölu. Það er m. ö. o. rangt að það séu ráðstafanir gegn verðbólgu sem til þessa leiddu. Meginástæðurnar eru tvær. Annars vegar nokkuð langvarandi fall þjóðartekna og í annan stað sú nauðsyn að bregðast gegn þeim vanda sem þá steðjaði að vegna vaxandi viðskiptahalla. Hvort tveggja þetta rýrði óhjákvæmilega lífskjör og kaupmátt í landinu.

Í annan stað er rétt að benda á vegna þeirrar fullyrðingar sem fram kom í ræðu hv. þm., að afnám vísitölubindingar launa hafi leitt til þessa misgengis, að misgengið varð að stærstum hluta á árinu 1982 og fyrri hluta ársins 1983 og reyndar fram eftir því ári. Stærsti hluti misgengisins var m. ö. o. kominn fram meðan gamla vísitölukerfið mældi eftir ákvörðunum sem m. a. þingflokkur ha. þm. stóð að. Þetta taldi ég rétt að kæmi fram, herra forseti.