06.11.1984
Sameinað þing: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 790 í B-deild Alþingistíðinda. (543)

81. mál, búseturéttaríbúðir

Fyrirspyrjandi (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að flytja hér tvær fsp. til hæstv. félmrh. um búseturéttaríbúðir. Þær eru svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„1. Hvenær er að vænta frv. til l. um „stefnumörkun um byggingu leiguíbúða., búseturéttaríbúðir og kaupleigusamninga“ sem félmrh. boðaði á Alþingi 14. og 16. maí s.l. að yrði „lagt fyrir í byrjun næsta þings“?

2. Hefur náðst samkomulag milli stjórnarflokkanna um tilverurétt búseturéttaríbúða og hlut húsnæðissamvinnufélaga í hinu opinbera húsnæðislánakerfi? Ef svo er, hvaða tillögur hafa verið mótaðar um fjármögnun slíkra lána og lánskjör?“

Af þessu tilefni vil ég rifja upp að á seinasta þingi urðu miklar deilur um þetta mál. Því var haldið fram m.a. í fjölmiðlum og jafnvel héðan úr þessum ræðustól að stjórnarflokkarnir hefðu samið innbyrðis um það að hæstv. fjmrh. félli frá áformum sínum um skattlagningu á tilteknu fyrirtæki undir pólitískri vernd Framsfl. gegn því að félmrh. seldi réttindi Búsetahreyfingarinnar fyrir þann baunadisk. Hvað sem um það er, þá vil ég vekja athygli, herra forseti, á nýlegri grein sem birtist í Þjóðviljanum eftir Jón Rúnar Sveinsson, einn af forustumönnum Landssambandsins um samvinnufélög í húsnæðismálum, en þar segir hann, með leyfi forseta:

„Niðurstaða Búsetamálsins á Alþingi varð sú að félagasamtökum, sem byggja leiguíbúðir ætlaðar til útleigu með hóflegum kjörum fyrir námsfólk, aldraða og öryrkja, sé ætlað rými í þessum lögum hverju svo sem ýmsir þm. hafa haldið fram.“

Þetta færir hann sönnur á með því að vitna til félagslegrar samsetningar Búsetafélagsins, þar sem hann bendir á að rúmlega 30% félagsmanna tilheyri þeim hópum sem þarna um ræðir, þar af væru 20% námsfólk og 13% félagsmanna væru einstæðir foreldrar. Enn fremur segir hér að Búsetafélögin hafi fylgt þessu eftir með því að lagðar hafi nú verið fram umsóknir um bæði lóðir og lán til byggingar 56 íbúða í Reykjavík, 12 á Akureyri og 8 á Selfossi eða samtals 76 íbúða. Þess vegna er ástæða til að spyrja: Er það skilningur hæstv. félmrh. að búseturéttaríbúðir hafi sinn rétt lögum skv. eins og þessi forustumaður heldur fram og félmrh. héli fram lengi vel? Og þá í öðru lagi: Ef svo er, hefur verið tekin einhver afstaða til lánsumsókna á vegum þessa félagsskapar?

Þetta eru ákaflega þýðingarmikil mál fyrir mjög fjölmennan hóp landsmanna. Þessi hreyfing hefur nú þegar mörg þúsund einstaklinga innan sinna vébanda og það skiptir ákaflega miklu máli að ekki séu tómar vífilengjur og vafningar um hver réttur þeirra er. Þetta fólk bíður eftir því að fá skýr svör við því. Eru þau inni, hafa þau sinn rétt skv. lögum hvað svo sem kom fram í umr. á Alþingi? Er þess þá að vænta að umsóknir þeirra verði teknar til greina? Að vísu hafa umr. þegar leitt í ljós hér á hinu háa Alþingi í tilefni af svörum hæstv. félmrh. við fsp. um fjármögnun húsnæðislánakerfisins að það er allt í skötulíki að sjálfsögðu og að lokum snýst þetta mál um peninga. En engu að síður er ástæða til að spyrjast fyrir um það hvað hefur verið gert frá því að seinasta þingi lauk til að skýra það mál sem hæstv. félmrh. boðaði að lagt yrði fram frv. um í byrjun næsta þings. Enn fremur er óskað upplýsingar um það, ef þessar lánsumsóknir eru til afgreiðslu, hvort settar hafi verið reglur um það hvernig verði staðið að fjármögnun slíkra íbúðarbygginga og hvaða reglur gildi um lán og lánakjör þeirra.