07.06.1985
Efri deild: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6021 í B-deild Alþingistíðinda. (5455)

207. mál, afréttamálefni

Frsm. (Helgi Seljan):

Herra forseti. Landbn. hefur fjallað um frv. til l. um breyt. á lögum um afréttamálefni, fjallskil o. fl., með síðari breytingum. Hér er um að ræða mikinn og sértækan lagabálk þar sem að sumu leyti er reyndar verið að færa reglugerðarákvæði í lög. Málið er fyrir löngu komið frá Nd., en af vissum ástæðum dróst afgreiðsla þess. Var það einkum vegna bréfs austan úr Breiðdal þar sem búnaðarfélagið þar mótmælti þeim ströngu ákvæðum um sammerkingar innan fjallskilaumdæmis sem nú eru lögfest en hafa raunar áður verið í reglugerð. Í bréfi þessu segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Aðalfundur Búnaðarfélags Breiðdæla, haldinn að Staðarborg 5.5.1985, mótmælir harðlega ákvæðum í reglugerð um mörk og markaskrár frá 24.11.1978 og samhljóða drögum að frv. sem liggur nú fyrir Alþingi þar sem allar sammerkingar eru bannaðar innan Múlasýslna.“

Til skýringar á því er rétt að geta þess að hér er talað eingöngu um fjallaskilaumdæmi, en fjallskilaumdæmi eystra eru einmitt Múlasýslurnar báðar.

Við vildum gjarnan kanna möguleika á að koma til móts við þessar óskir sem um margt eru réttmætar miðað við þetta stóra fjallskilaumdæmi. Hins vegar er ljóst að í kjölfarið hefðu fylgt breytingar um land allt og þó við í nefndinni metum þá Breiðdælinga mikils og vitum að þeir hafa nokkuð til síns máls sáum við ekki útgönguleið til að verða við óskum þeirra.

Annað atriði kom upp í nefndinni, en það var um útgáfu á markaskrám áttunda hvert ár. Á tölvuöld tækninnar þótti okkur sem stytta hefði mátt tímann milli útgáfuára og gefa markaskrár út á fimm ára fresti. Skoðun okkar flestra er sú að það hefði verið eðlilegra, en engum sköpum skiptir það.

Annars er þetta um margt ágætt frv. Skýrari og ákveðnari ákvæði eru sett um margt og m. a. um mörk og hvernig þeim skuli skipt og þeim beitt. Aðeins til glöggvunar er margt býsna skemmtilegt í þessum laga= bálki sem hefði kannske verið ástæða fyrir menn að kynna sér betur, þá sem þurfa hér um að fjalla. Ég nefni t. d. í b-liðnum þar sem stendur. með leyfi hæstv. forseta:

„Sauðfé og annan búpening skal draga eftir mörkum. Mark helgar markeiganda kind, nema sannist, að annar eigi. Enginn má draga sér kind, sem eigi ber hans rétta mark. Við sönnun á eign á kind er brennimark rétthæst, næst löggilt plötumerki, þá hornamark og síðast eyrnamark.“

Ég ætla nú ekki að hafa þetta mál neitt í flimtingum, en vissulega þætti mönnum af hinu góða að mega eyrnamerkja sér sauði sína á þennan hátt, þeim sem í pólitík eru. En þó að fjárglöggir menn væru nú í nefndinni var þar enginn Marka-Leifi svo að vel kann að vera að megi eitthvað að finna.

Við nánari lestur og athugun er ljóst að Nd. hefur gert nokkrar breytingar, aldrei þessu vant til bóta, og viss skynsemi sett mark sitt á t. d. markaþáttinn og ýmis önnur afriði.

Nefndin mælir sem sagt með samþykkt frv. eins og það er komið frá Nd., en fjarverandi afgreiðslu málsins var hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson.