07.06.1985
Efri deild: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6023 í B-deild Alþingistíðinda. (5458)

Um þingsköp

Forseti (Stefán Benediktsson):

Í tilefni þessara orða hæstv. viðskrh. vil ég benda honum á að þingreynsla getur kannske orðið mönnum eins mikill fjötur um fót og það að hafa litla reynslu á þingi.

Ef menn hafa áhyggjur af því að geta ekki fjallað um þetta frv. má benda hæstv. ráðh. á að það er nákvæmlega í tveimur greinum og skiptir varla ýkjamiklu máli hvort talað er um þær í 1. eða 2. umr.

Annað er það í máli hæstv. ráðh. sem ég á kannske erfiðara um að fjalla vegna þess að þar stendur orð á móti orði og leiðist mér mjög að þurfa að tíunda slíkt úr forsetastól.

Þannig er mál með vexti að ráðherra fór þess á leit við mig að fá að taka til máls í þessu máli þegar það kæmi á dagskrá. Ég kannast ekki við að hann hafi beðið um að málinu yrði frestað vegna þess að hann gæti ekki verið viðstaddur umr. Það var leitað að honum um allt hús. Það var ljós á honum, eins og sagt er hér innanhúss, en hann fannst ekki. Þar með viðhafði ég ekki önnur vinnubrögð hvað þetta snertir en algengt er þegar menn eru ekki í húsinu þó þeir hafi skráð sig á mælendaskrá eða beðið um að fá að taka til máls, enda möguleiki til þess að tala málefnalega um málið þegar það kom til 2. umr.