07.06.1985
Efri deild: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6024 í B-deild Alþingistíðinda. (5459)

Um þingsköp

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég vil vegna þeirra orða sem hæstv. viðskrh. lét falla hér áðan lýsa yfir fullu trausti og fullum stuðningi við vinnubrögð forseta okkar í þessu máli. Ég vil hins vegar vekja athygli hv. þdm. og hæstv. viðskrh. á því að s. l. þriðjudag atyrti hæstv. forsrh. okkur í þessari hv. deild fyrir að vinna ekki nóg, fyrir að vinna slælega, fyrir að afgreiða ekki mál og halda ekki fundi. Nú kemur hæstv. viðskrh. og atyrðir okkur þdm. fyrir að vinna of hratt, fyrir að vinna of mikið og halda of mikið af fundum.

Hann tíundaði það áðan að veitt hefðu verið afbrigði fyrir þessu máli, því hefði legið mjög á. Það er rétt. Það er ekkert óvenjulegt. Það gerist á hverjum einasta degi þegar fer að draga að þinglokum svo sem virðist vera nú. Hann tíundaði að ekki hefði verið útbýtt dagskrá. Það gerist líka afar oft þegar fundir eru haldnir hver á eftir öðrum til að greiða fyrir málum hér. Hann nefndi það líka að fundurinn hefði verið haldinn á öðrum tíma en venjulegum fundartíma deildarinnar. Það er heldur ekkert nýmæli, hæstv. viðskrh., sem hefur langa þingreynslu. Fundir eru haldnir hér á öllum tímum, m. a. s. stundum á morgnana þegar líður nær þinglokum og síðustu dagana fyrir þingslit og væri betur oftar gert.

Ég er satt að segja hissa á því að hæstv. ráðh. skuli tala um þingsköp vegna þessa máls, m. a. í ljósi þess sem virðulegur forseti okkar sagði áðan, en það kemur líka fleira til. Þetta mál er hæstv. ráðh. ekki allsendis ókunnugt. Nákvæmlega samkynja mál, sem gekk þó heldur lengra, var hér til umræðu fyrir fáeinum vikum. Þá man ég líka að leitað var að hæstv. ráðh. eða umr. frestað vegna þess að hann hafði embættisskyldum að gegna utan hússins sem ég hef ekkert við að athuga og var engin athugasemd gerð við. Þetta var 1. umr. máls sem þegar var búið að ræða efnislega hér að hluta til. Þetta frv. gengur skemmra en hið fyrra. Ég sé nú ekki annað en það hefði mátt vera hæstv. ráðh. að meinalausu þó að þetta mál færi til nefndar. Það hafði skamma viðdvöl í nefnd, enda lá nefndin undir ámæli frá hæstv. forsrh. fyrir að afgreiða ekki mál og hafði snör handtök. Nú er málið komið hingað aftur og hæstv. ráðh. getur tjáð sig við tvær umr. um það. Mér finnast þessar athugasemdir hans því ekki réttmætar í ljósi þess hvernig þetta mál er vaxið. En það held ég að við efrideildarmenn verðum að segja og getum sagt með sanni að það er orðið vandlifað í henni veröld þegar einn hæstv. ráðh. skammar okkur fyrir að vinna ekki nóg og annar hæstv. ráðh. atyrðir okkur fyrir að vinna of hratt og vinna of mikið.