07.06.1985
Efri deild: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6026 í B-deild Alþingistíðinda. (5464)

526. mál, Seðlabanki Íslands

Frsm. minni hl. (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti minni hl. fjh.- og viðskn. um frv. til l. um breyt. á lögum um Seðlabanka Íslands. Við hv. þm. Egill Jónsson skipum minni hl. n. og höfum skilað nál. á þskj. 1157 sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Nefndin hefur áður haft til meðferðar mál af þessu tagi og hefur farið fram ítarleg umræða um það, bæði í nefndinni og í þingsölum.

Minni hl. telur sem fyrr að ekki beri að lögfesta hámark bindiskyldu þar sem hún er hluti af peningastefnu stjórnvalda á hverjum tíma. Minni hl. leggur því til að málinu verði vísað til ríkisstj.

Ég mun ekki fara út í langar efnislegar umr, um þetta mál, enda hefur annað frv. af líku tagi, eins og segir í nál., fengið ítarlega umræðu í þessari hv. deild. Ég vil benda á að nú er til meðferðar í Alþingi frv. um löggjöf í bankamálum og m. a. verið að vinna að undirbúningi að frv. um Seðlabanka Íslands og því liggur fyrir að setja löggjöf um bankastarfsemina í heild í landinu. Við teljum því óeðlilegt að taka einn þátt út úr og setja um hann sérstaka löggjöf án þess að horfa á þessi mál í samhengi.

Það er bent á það hér þessu frv. til framdráttar og það er eitt af því sem notað er til að þrýsta á þetta mál að féð sem losni við það að bindiskyldan sé lækkuð úr 18% , sem hún er nú í raun, niður í 15% verði notað til að létta greiðslubyrði húsbyggjenda. Ég ætla ekki að gera lítið úr vandamálum þeirra og ég ætla ekki að fara að ræða þau undir þessum lið, en ég vil benda á að það er til umræðu og verður væntanlega til umræðu í hv. Ed. síðar á þessum fundi frv. um tekjuöflun til húsnæðismála sem byggir á samkomulagi stjórnarflokkanna þar um.

Eins og ég sagði áður geri ég alls ekki lítið úr vanda húsbyggjenda og hann þarf að leysa, en ég tel að lausn á þeim vanda eigi ekki að hnýta við frv. um lögfestingu á bindiskyldu Seðlabankans og það verði að horfa á þessi mál í heild sinni.

Ég ætla ekki að lengja þessa umr. Minni hl. n. leggur til, eins og ég sagði áður, að málinu verði vísað til ríkisstj. í ljósi þess að þessi mál eru þar í athugun og undirbúningi, löggjöf um bankastofnanir, þ. á m. Seðlabanka Íslands.