07.06.1985
Efri deild: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6031 í B-deild Alþingistíðinda. (5469)

502. mál, dýralæknar

Frsm. (Egill Jónsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. landbn. Ed. Alþingis um frv. til l. um breyt. á lögum um dýralækna og hefur nefndin lagt fram álit sem hún er sammála um.

Málið var sent til umsagnar til yfirdýralæknis, til forstjóra tilraunastöðvarinnar að Keldum, til dýralæknafélagsins og til Sambands fiskeldis- og hafbeitarstöðva. Allir þessir aðilar mæltu eindregið með samþykkt frv. Þess var hins vegar getið í umsögnum að það ákvæði í frv. að dýralæknir í fisksjúkdómum skyldi hafa starfsaðstöðu að Keldum væri óeðlilegt þar sem Tilraunastöð Háskólans í meinafræði að Keldum tilheyrir menntmrn. en ekki landbrn. þótt hins vegar hafi farið þar fram og fari fram mikil verkefni sem snerta landbúnaðinn og reyndar æðimiklar tekjur sem sú starfsemi gefur tilraunastöðinni að Keldum. Það kom m. a. fram í samtali sem ég átti við framkvæmdastjórann á Keldum, Guðmund Pétursson, að þessi starfsemi væri orðin svo umfangsmikil að eðlilegt væri að fá henni reglugerð í framtíðinni svo að skýrara væri hvað hverjum tilheyrði í þessum efnum þótt hann tæki skýrt fram að sú starfsemi sem þarna væri unnin, m. a. með tilliti til landbúnaðar, væri mjög kærkomin. Þessi ábending var tekin til meðferðar í nefndinni og eins og nál. gefur til kynna er 1. gr. breytt með tilliti til þess þar sem sagt er að þessum umrædda dýralækni skuli sköpuð aðstaða í tengslum við tilraunastöðina á Keldum.

Við fyrri umr. benti ég á meginröksemdir fyrir því að þetta frv. er fram komið og það hefur reyndar sýnt sig í meðförum nefndarinnar og í umr. síðan og raunar komið fram nýjar vísbendingar um nauðsyn þess og væntanlega gagnsemi svo að málið er bæði brýnt og tímabært. M. a. af þeirri ástæðu hefur landbn. lagt til að það fengi hér greiða afgreiðslu.

Mér þykir vert að taka það fram, um leið og ég þakka stuðning við þetta mál í hv. landbn. Ed. Alþingis, að allir nm. hafa ritað nöfn sín undir nál. og er það að sjálfsögðu mikilvægur stuðningur við gott málefni.