07.06.1985
Efri deild: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6038 í B-deild Alþingistíðinda. (5475)

247. mál, flutningsjöfnunarsjóður olíu og bensíns

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vildi ekki láta þessari umr. ljúka án þess að leggja nokkur orð í belg í sambandi við það frv. sem hér um ræðir, um flutningsjöfnunarsjóð olíu og bensíns. Það urðu í þessari deild allmiklar umræður um frv. og þjónustu olíufélaganna almennt og menn tóku nokkuð upp í sig og kannske hefur það m. a. orðið til þess að þetta frv. hefur verið skoðað mjög vandlega í nefndinni. Það var lögð í það mikil vinna og ég vil taka undir þau orð sem hafa fallið í þessari umr. um það. Ég held að nm. hafi lagt sig í líma við að ná samkomulagi í þessum málum og ná fram breytingum á frv. sem þeir telja að séu til bóta. Ég vil einnig taka undir þau orð, sem hér hafa fallið áður um innkaupajöfnun og innkaupajöfnunarreikning, að rétt sé að skipta honum í þrennt og hvert olíufélag haldi innkaupajöfnunarreikning. Ég tel að það sé til bóta. Ég tel að það auki möguleika olíufélaganna til verðsamkeppni án þess að verðjöfnuninni sé kastað fyrir róða. En það kom skýrt fram í umræðum í nefndinni að ekki er pólitískur vilji fyrir því að fella niður verðjöfnunina og ég er eindregið þeirrar skoðunar að það eigi ekki að gera, olíu og bensín eigi að selja á sama verði um land allt. Það var reyndar eitt aðalerindi mitt upp í þennan ræðustól nú að undirstrika það. En ég tel að það eigi að auka möguleika olíufélaganna til að heyja verðsamkeppni því að það er rétt að fram kom í umsögnum m. a. forstjóra olíufélaganna, sem allir komu fyrir nefndina, að möguleikarnir eru ekki miklir eins og frv. var úr garði gert.

Ég vildi aðeins taka undir þau orð sem hafa komið hér fram áður og undirstrika þá samstöðu sem var í nefndinni um afgreiðslu þessa máls.