07.06.1985
Efri deild: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6039 í B-deild Alþingistíðinda. (5478)

281. mál, hagnýting Seðlabankahúss

Frsm. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Hv. fjh.- og viðskn. hefur haft þáltill. þessa til athugunar og leggur nefndin öll til að hún verði samþykkt með einni smávægilegri breytingu sem sérstök till. er flutt um á þskj. 1156. Hún er sú að 2. mgr. till. orðist svo sem þar segir, með leyfi forseta:

„Framkvæmdir við bygginguna, sem ekki eru þegar samningsbundnar, verði stöðvaðar meðan athugun þessi fer fram og hefjist ekki að nýju fyrr en Alþingi hefur ákveðið hvernig hagnýta beri húsið.“

Eins og menn vita hafa allmiklar umræður orðið um þessa veglegu byggingu og hafa menn bent á það, bæði þeir sem forráð hafa yfir henni og aðrir, að þar sé laust húsnæði. Það er talað um að 500–600 fermetrar muni vera lausir miðað við þá starfrækslu sem er í bankanum og hann væntir að verði þar í náinni framtíð. Að vísu hefur verið um það rætt að Þjóðhagsstofnun yrði þarna til húsa, en mér er ókunnugt um að ákvörðun hafi verið um það tekin. Kannske upplýsist það. A. m. k. hef ég ekki vitað til þess að neinn hafi við það kannast að samkomulag hafi orðið um að flytja þá stofnun. Það rýmkast um í framkvæmdastofnunarhúsinu þegar samdráttur verður í störfum annarra stofnana sem til húsa eru þar og þess vegna get ég ekki ímyndað mér að menn muni mæla með því að fara að flytja Þjóðhagsstofnun í stærra og dýrara húsnæði og á eftir að sjá að svo verði, a. m. k. trúi ég því ekki fyrr en ég tek á, því að sú stofnun er áreiðanlega alveg nógu stór.

Þá er hins að gæta líka að Seðlabankinn hefur fyrir eigið frumkvæði unnið að því að færa afurðalán út úr sinni starfsemi og til viðskiptabankanna. Auðvitað hafa mikil störf verið unnin við afurðalánin í Seðlabankanum þannig að það hljóta allmargir menn, ég veit ekki hversu margir tugir það eru, að hætta þeim störfum. Með minnkandi umsvifum þessarar annars ágætu stofnunar hlýtur húsnæðið því að verða allt of rúmt miðað við þá starfsemi sem var þegar þetta hús var skipulagt. En það kemur allt saman á daginn. Forráðamenn Seðlabankans hafa einmitt boðið okkur fulltrúum í fjh.og viðskn. að koma og skoða húsið og við munum væntanlega fá tækifæri til þess fljótlega.

En þessi till. er ekki um neitt annað en að þetta mál verði allt saman skoðað og þá væntanlega öfgalaust og án þess að menn séu að tala um að á einn eða annan sé verið að ráðast af því tilefni. Það er einvörðungu um að ræða breytingar á starfsemi þessarar stofnunar og það er laust húsnæði þarna skv. upplýsingum stofnunarinnar sjálfrar og það allmikið húsnæði. Einnig hafa komið fram um það hugmyndir frá hæstv. utanrrh. að nauðsynlegt sé að flytja utanrrn. í rúmbetra húsnæði og sameina störf þess og hefur þá verið talað um nýbyggingu einhvers staðar í nálægð Arnarhvols. Mér sýnist liggja nokkuð beint við að athuga hvort ekki mundi einmitt henta að utanrrn. yrði í þessari byggingu ásamt seðlabankanum. Það færi mjög vel á því fyrir margra hluta sakir. Það þarf t. d. lögregluvörð bæði í seðlabankabyggingu og eins í utanrrn. Hann gæti verið einn og hinn sami. Ýmiss konar sali og aðstöðu mætti auðvitað samnýta. Það væri mjög við hæfi. Þetta er virðuleg stofnun eins og seðlabankar eru hvarvetna og eiga að vera. Það eru ekki stórar stofnanir, en þær eru veigamiklar og þegar þær fá svigrúm til að gegna sínu eiginlega starfi, sem er auðvitað seðlaútgáfa, gengisskráning o. s. frv., eru þetta hinar sjálfsögðustu stofnanir, en þær eiga ekkert að vera neitt stórar. Og það færi mjög vel á því að utanrrn. flytti þarna inn. Það yrði þá líka í næsta nágrenni við önnur ráðuneyti og sérstaklega forsrn. sem ég vona að verði ætíð til húsa þar sem það nú er, í því gamla virðulega húsi, þó að starfsemi þess áður fyrr væri e. t. v. ekki jafnánægjuleg og hún er nú á tímum.

En í öllu falli vænti ég þess að hv. þdm. geti sameinast um samþykkt þessarar till. Það er eins og ég sagði áðan, eingöngu skoðun á því hvernig best sé að hagnýta þetta hús. Og það var ánægjulegt að allir fulltrúar í fjh.- og viðskn. töldu sjálfsagt að till. þessi yrði samþykkt.