07.06.1985
Efri deild: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6040 í B-deild Alþingistíðinda. (5479)

281. mál, hagnýting Seðlabankahúss

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Eins og menn rekur minni til og þegar hefur verið getið um urðu allmiklar umræður um þessa till. fyrr í vetur. Í þeim umræðum leitaðist ég við að gera gein fyrir því hvaða not af svokölluðu Seðlabankahúsi væru fyrirhuguð auk þeirrar starfsemi sem yrði á vegum Seðlabankans í sama húsi.

Það má vel vera að þessi bygging sé nokkuð við vöxt. Í því efni vil ég ítreka það, sem fram hefur komið, að fyrirhugað er að taka húsið til fleiri nota en fyrir seðlabankann. Vegna hugleiðinga hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar um að Þjóðhagsstofnun flytti þar inn get ég þó ekkert fullyrt.

En varðandi húsrýmið er rétt að minna á að núverandi húsrými sem Seðlabankinn hefur til afnota til samanburðar við skrifstofur og fyrirhugaða fundarsali í nýju húsi er um 70% af fyrirhuguðu húsnæði í seðlabankabyggingunni sem er 3605 fermetrar. Nú er satt og rétt að ekki er talin þörf á að nýta allt það skrifstofuhúsnæði fyrir seðlabankann, enda þótt mér vitanlega sé ekki fastákveðið enn þá til hvers aukahúsrýmið verður notað.

Hér er flutt till. um að framkvæmdir verði stöðvaðar. Að vísu er átt við þær sem ekki eru samningsbundnar. Skal viðurkennt að það er töluverð bót á till. þó hún sé hér um bil jafnandstæð mínum huga og hún var í vetur. En vegna hugleiðinga um hvað hefur verið samið um og hvað ekki vegna byggingarinnar þykir mér rétt að skýra frá því að samið hefur verið um múrverk, pípulagnir, raflagnir og loftræstikerfi sem verður mjög mikið að vöxtum, enda ekki vanþörf á. Það er verið að setja upp lyftur, mér vitanlega, og samið hefur verið um málningarvinnu. Þetta eru allt saman mjög mikilvægir verkþættir í byggingu Seðlabankahússins og verða alls ekki stöðvaðir. Það er útilokað.

Ég segi fyrir mig að mér finnst þessi till. óþörf einfaldlega vegna þess að það er til athugunar nú þegar með hvaða hætti verður mögulegt að nýta húsið að auki við starfsemi Seðlabankans. Ég geri ekki ráð fyrir öðru en það sé í himnalagi að halda áfram að byggja þetta hús og jafnvel að fara í innréttingar hið bráðasta því að ég geri fastlega ráð fyrir því og veit raunar að þau not sem verða af húsinu auk þarfa Seðlabankans verða fyrir einhvers konar skrifstofuhald. Það liggur í augum uppi.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að tala langt mál um þessa till. En vegna orða hv. 4. þm. Norðurl. v. um afurðalánin og þann vinnukraft sem hefur verið vegna þeirra, þá hef ég þær upplýsingar að vegna afurðalánanna séu afar fáir starfskraftar og hafi verið, örfáir menn. Eins og kunnugt er voru um síðustu áramót 128 stöðugildi, ef ég man rétt, í Seðlabankanum. Þeim hefur, eins og fram hefur komið, fjölgað mjög lítið á undanförnum árum. (EKJ: Fjölgað aðeins, að sjálfsögðu.) Um 9.4% meðan fjölgun starfsfólks í hinu almenna bankakerfi hefur orðið líklega milli 60 og 70%. Auðvitað er rétt að viðskiptabankarnir hafa tekið að sér margvísleg verkefni sem ekki voru innt af hendi af þeirra hálfu fyrr á tíð.

Ég tel, herra forseti, að þessi till. sé óþörf. Það eigi að halda áfram af fullum krafti að byggja þetta hús og taka það til notkunar hið allra fyrsta.