07.06.1985
Efri deild: 92. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6047 í B-deild Alþingistíðinda. (5488)

525. mál, fjáröflun vegna húnsæðismála á árunum 1985 og 1986

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég fylgi hér úr hlaði frv. til l. um sérstaka fjáröflun vegna húsnæðismála á árunum 1985 og 1986 sem flutt er af meiri hl. fjh.- og viðskn. Nd. og hefur verið afgreitt frá Nd. og sent þm. í hv. Ed. til meðferðar.

Frv. þetta byggist á samkomulagi þingflokka stjórnarflokkanna um sérstaka fjáröflun til húsnæðismála vegna þeirra erfiðleika sem húsbyggjendur hafa átt í og þarf ekki að hafa mörg orð um vegna þess að um þau mál hafa verið miklar umræður í vetur, bæði hér í hv. Alþingi og eins úti í þjóðfélaginu. Eigi að síður finnst mér rétt að drepa á þau atriði sem koma fram í frv., en það er tiltölulega einfalt í sniðum.

Það kveður á um fjáröflun til húsnæðismála, og skal í fyrsta lagi leggja 1% húsnæðisgjald á söluskattsstofn allra þeirra aðila sem lög nr. 10/1960, um söluskatt, með síðari breytingu, taka til.

Í 2. gr. er kveðið á um að eignarskattsauki skuli lagður á. Sá eignarskattsauki skal vera 0.25% á eignarskattsstofn manna, sbr. 80.–82. gr. laga nr. 75/1981, umfram 1600 þús. kr. gjaldárið 1985. Eignarskattsaukinn skal vera 0.25% af eignarskattsstofni lögaðila, sbr. 2. gr. laga nr. 75/1981, og þeirra aðila sem takmarkaða skattskyldu bera, sbr. 3. gr. sömu laga.

Í 3. gr. er kveðið á um að af tekjuafgangi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins skulu 30 millj. kr. renna til húsnæðismála árið 1985 og 60 millj. 1986.

Í grg. frv. er skýrt hvernig afla skuli þessara tekna og hvernig ráðstafa skuli þessum tekjum.

Í fyrsta lagi skal ráðstafa þeim til ráðgjafarþjónustunnar hjá Húsnæðisstofnun ríkisins sem hefur það hlutverk að leiðbeina, aðstoða og lána þeim sem komnir eru í greiðsluerfiðleika. Útlán í tengslum við ráðgjafarþjónustuna eru áætluð um 200 millj. kr.

Í öðru lagi er tekjuöflun þessi vegna greiðslujöfnunar vegna fasteignalána einstaklinga og er ætlunin að verja í þennan málaflokk um 100 millj. kr.

Í þriðja lagi verður nú lögð aukin áhersla á lán til þeirra sem eru að byggja eða kaupa í fyrsta sinn. Tekin hefur verið ákvörðun um að hækka hámark svonefndra G-lána þannig að það verði komið í 50% af nýbyggingarláni (F-láni) á 1. ársfjórðungi 1986. Í þessu skyni er gert ráð fyrir að ráðstafa 70 millj. kr. Þessi tekjuöflun felur því í sér 370 millj. kr.

Ástæður fyrir því að farið er í þessa fjáröflun til húsnæðismála eru þær að það var ógerningur að auka fjárframlag hins opinbera til þessa málaflokks nema sérstök fjáröflun kæmi til, bæði vegna halla á ríkissjóði og eins vegna þess að aukinni erlendri lántöku til þessara mála hefur verið hafnað vegna þeirrar þröngu stöðu sem við erum í í þeim efnum.

Það kom fram í framsöguræðu formanns fjh.- og viðskn. Nd. þegar hann mælti fyrir þessu frv. að hann lagði áherslu á að með þessari áætlun verði í ár fyrst og fremst sinnt fjárþörf þeirra sem byggja sína fyrstu íbúð eða gera fokhelt fyrir 1. okt. n. k. og jafnframt verði flýtt greiðslu lána til þeirra sem keyptu sína fyrstu íbúð á fyrstu fjórum mánuðum ársins. Ég vil ekki láta hjá líða að undirstrika þetta um leið og frv. er fylgt úr hlaði.

Ég ætla ekki að orðlengja um þetta frv. frekar á þessu stigi og vísa til framsöguræðu formanns fjh.- og viðskn. Nd. sem hann flutti við 1. umr. málsins í Nd. Ég legg til að frv. verði vísað til fjh.- og viðskn. Ed. til skoðunar að lokinni þessari umr.