15.10.1984
Efri deild: 3. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í B-deild Alþingistíðinda. (55)

10. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Egill Jónsson:

Virðulegi forseti. Það eru einkum þrjú atriði sem ég vildi gera að umtalsefni og fyrst og fremst varðandi form frekar en efni.

Það er þá í fyrsta lagi það sem hér hefur komið fram um að mál hv. þm. Stefáns Benediktssonar, sem hann leggur nú fram öðru sinni, hafi týnst í deildinni í fyrra og þá væntanlega í meðförum landbn. Ed. Alþingis. (StB: Það voru ekki mín orð.) Nei, ég bar þau ekki heldur upp á þig. Það voru aðrir menn sem mæltu þau. — Þá er kannske eðlilegt að rifja upp enn einu sinni hvernig þetta sérstaka mál gekk til.

Fljótlega eftir að ég kom úr páskafríi tilkynnti ég flm. að ég væri tilbúinn að afgreiða þetta mál og sagði honum frá tillögum mínum þar um. Þannig stóð þá á að hann var að fara á fund hjá BJ. Að þeim fundi loknum sagðist hann skyldu gefa mér svar.

Það svar barst mér á síðustu þingdögum þegar hv. þm. var hér í forsetastól. Hann hafði þá orð um það að hann vildi fá málið atgreitt. Þannig var vinnurásin í kringum þetta mál í landbn. Ed. Alþingis.

Þá þykir mér líka rétt að fara örfáum orðum um það sem hv. þm. Helgi Seljan var að segja um skipan endurskoðunarnefndarinnar sem fjallar um framleiðsluráðslögin. Þar talar hann enn einu sinni um það að ekki sé öðrum hleypt að en þeim sem styðja núv. ríkisstj. og þykir honum það mjög miður. Það er vert að benda á það í því sambandi, eins og raunar hefur komið hér fram, að í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstj. er tekið fram að þessi endurskoðun skuli eiga sér stað. Það hlýtur því að vera eðlilegt að stuðningsflokkar ríkisstj. gangi frá tillögum í málinu. Það er svo allt annað mál að auðvitað verður fjallað um málið bæði hér á Alþingi og raunar miklu víðar þótt settar verði fram tillögur í frv.formi.

Ég er svolítið hissa á því að hv. þm. Helga Seljan skuli þykja þetta undarleg vinnubrögð því að á s.l. kjörtímabili sat hann í nefnd þeirrar ríkisstj. sem þá starfaði við að semja þáltill. um stefnu í landbúnaðarmálum. (Gripið fram í: Góður sjálfstæðismaður þar.) Ég var ekki að segja að ekki hafi verið sjálfstæðismaður í nefndinni, en hins vegar lá alveg ljóst fyrir að það voru stuðningsmenn þeirrar ríkisstj. sem mynduðu þá nefnd og engir aðrir. Sú þáltill. var ekki sýnd af ríkisstj. fyrr en hún birtist á síðustu dögum þings. Ég er ekki að segja að þetta hafi verið óeðlileg vinnubrögð. Þau eru nákvæmlega þau sömu og viðgangast núna í sambandi við endurskoðun á framleiðsluráðslögunum.

Kannske má minna á það til áréttingar að á framboðsfundi austur á landi fyrir síðustu kosningar þá sagði einmitt hv. þm. Helgi Seljan að þetta hefði verið eitt það allra ánægjulegasta starf sem hann hefði unnið um ævina.

Þá kem ég að því sem var vikið að mér í sambandi við endurskoðun á framleiðsluráðslögunum, en spurt var hvernig það starf gengi. Ég get að sjálfsögðu vísað til ummæla hæstv. landbrh. þar um. Eins og kom fram í máli hans starfaði að þessu verkefni nefnd sem hann skipaði og var skipuð fulltrúum landbúnaðarins, einum manni úr hverju kjördæmi, og þeirri nefnd var sérstaklega falið að fjalla um framleiðslumarkmiðin sem eru að sjálfsögðu mjög stór þáttur af þessari umræðu. Ég held að það hafi verið góð vinnutilhögun að leitast við að kalla eftir tillögum bændanna þar um. Eins og kom fram í máli ráðh. áðan voru drög að þessu nál. komin fram fyrir aðalfund Stéttarsambandsins sem var haldinn síðustu daga ágústmánaðar ef ég man rétt, en nál. í heild ekki fyrr en nokkru síðar. Þar hefur því fengist ákveðin afstaða frá bændasamtökunum til þessa mikilvæga þáttar þessarar stóru spurningar.

Hitt get ég upplýst að endurskoðunarnefndin hefur verið að störfum frá því fyrir rúmu ári, m.a. voru haldnir fundir mánaðarlega í sumar í þessari nefnd. Þær tillögur, sem fram koma í nýjum verkefnasamningi ríkisstj., taka mjög mið af hugmyndum þessarar nefndar.

Það var haldinn fundur í þessari nefnd, að því er mig minnir, síðast um miðjan september. Þá var ákveðið að ekki yrði fundað aftur fyrr en eftir að þing kæmi saman, en aftur á móti voru gerðar ráðstafanir til þess að bæta enn við heimildum svo að hægt yrði að fara að ganga í að setja saman tillögur í þessu máli eftir að þing hæfist. Það er að sjálfsögðu ekki í mínu valdi að segja hvað það muni taka langan tíma, fjarri því.

Ég tek undir það, sem hæstv. landbrh. sagði áðan, að hér er um gífurlega flókið mál að ræða. Framleiðsluráðslögunum hefur í rauninni ekki verið breytt síðan árið 1947 að stofni til og það er margt orðið úrelt í þeim lagatexta, hversu mikið sem því verður nú breytt. Líka má minna á að auðvitað þurfa margir aðilar að fjalla um framleiðsluráðslögin. Þetta er vinnulöggjöf landbúnaðarins og að sjálfsögðu verður að nást sátt við þann atvinnuveg um þessar breytingar. Allt tekur þetta mjög mikinn tíma.

Hins vegar legg ég áherslu á það og get tekið undir það, að að sjálfsögðu er nauðsynlegt að hraða þessari umfjöllun svo að mönnum geti gefist færi á að fjalla um málið eftir að því hefur verið skilað frá þeirri nefnd sem hefur það til meðferðar.