07.06.1985
Neðri deild: 88. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6062 í B-deild Alþingistíðinda. (5517)

475. mál, ríkislögmaður

Frsm. 1. minni hl. (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Ég ætla að lesa hérna bréf frá stjórn Lögmannafélags Íslands sem barst fjh.- og viðskn. vegna þessa máls. Það er samþykki á fundi þar 15. maí. Það hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Stjórn Lögmannafélags Íslands hefur tekið til athugunar frv. það til laga um ríkislögmann sem nú liggur fyrir Alþingi. Af því tilefni ályktar stjórnin:

1. Stjórnin telur ekki vera þörf á að komið sé á fót sérstakri stofnun til að annast málflutning fyrir ríkið svo sem frv. ráðgerir. Geta sjálfstætt starfandi lögmenn hæglega annast þennan málflutning. Má jafnvel ætla að það sé heppilegt fyrir ríkið að nota málflutningsmenn sem einnig hafa reynslu af málflutningi fyrir aðra. Og víst er það hollt fyrir sjálfstæða málflytjendur að eiga þess kost að flytja öðru hverju mál fyrir opinbera aðila og kynnast þeirri hlið mála í starfi. Er ekki ólíklegt að slíkt geti, þegar til lengri tíma er litið, aukið líkur fyrir sáttalausnum í málum einstaklinga gegn ríkinu. Hvað sem þessu líður hljóta menn jafnan að þurfa að huga vel að því hvort þeir vilji fremur setja á stofn sérstakar ríkisstofnanir til að sinna sérfræðistörfum heldur en að nota þá starfskrafta sérfræðinga sem eru til reiðu á almennum markaði.

2. Sé vilji til þess þrátt fyrir framangreind sjónarmið að setja á stofn sérstakt embætti ríkislögmanns, bendir stjórn Lögmannafélags Íslands á þann möguleika að þessi embættismaður hafi fyrst og fremst það verkefni að samræma málflutning af hálfu ríkisins og ráða fyrir þess hönd sjálfstætt starfandi málflutningsmenn til starfa að málflutningi. Að auki flytti hann mál sjálfur eftir því sem tími leyfði. Ef þessari skipan yrði komið á þyrfti að breyta 3. gr. frv. og fella niður heimildina til að ráða lögfræðinga að embættinu. Jafnframt væri þá rétt að segja í texta 3. gr. að ríkislögmaður skuli fela hæstaréttar- eða héraðsdómslögmönnum o. s. frv.

3. Verði komið á fót embætti ríkislögmanns telur stjórn Lögmannafélags Íslands nauðsynlegt að lögð sé sérstök áhersla á sjálfstæði embættisins gagnvart einstökum ráðherrum. Á undanförnum árum hefur vald í íslenskri stjórnsýslu dregist til fjmrn., a. m. k. í þeim málum þar sem reynir á útgjöld ríkissjóðs. Þetta er ekki í samræmi við þá meginreglu í íslenskri stjórnskipan að hver og einn ráðh. fari með æðsta vald og ábyrgð á sínu málasviði og það eins þó að um fjárhagsmuni sé að tefla. Við málflutning eru oft teknar afdrifaríkar ákvarðanir um afstöðu ríkisins í viðkomandi málaflokki. Þessi sjónarmið valda því að mati stjórnar Lögmannafélags Íslands að ríkislögmannsembættið, ef stofnað yrði, ætti ekki að heyra undir fjmrh. eins og ráðgert er í frv., heldur annaðhvort forsrh. eða dómsmrh.

4. Athugasemdir þarf að gera við einstök ákvæði frv.: 1. athugasemd. Í 1. málsgr. 2. gr. er fortakslaust ákveðið að ríkislögmaður fari með uppgjör bótakrafna sem beint sé að ríkissjóði. Til athugunar er hvort slík uppgjör yrðu talin óskuldbindandi ef fram færu án aðildar ríkislögmanns. Í athugasemdum við 2. gr. er svo hugleiðing (að því er virðist) um að atbeini ríkislögmanns að uppgjöri bótakrafna komi ekki til „fyrr en mál eru komin á innheimtustig og dómstólameðferð framundan.“ Þessi takmörkun er reyndar óljós en þyrfti allt að einu að koma með einhverjum hætti fram í lagatextanum sjálfum.

2. athugasemd. Í athugasemdum við 2. gr. er sagt að rétt þyki að undanskilja „hinar sjálfstæðustu ríkisstofnanir“ því málflutningsumboði ríkislögmanns sem felist í lögunum sjálfum, þannig að sérstakt umboð þurfi til að koma hverju sinni. Ekki verður séð að þessi takmörkun málflutningsumboðs ríkislögmanns komi fram í texta 2. mgr. 2. gr. Þar er þvert á móti sagt að umboðið taki til mála sem höfðuð séu „á hendur ríkinu“ og sem „ríkið“ höfði á hendur öðrum.

3. athugasemd. Í athugasemdum við 4. gr. virðist vera ráðagerð um að ríkislögmaður megi taka að sér einhver málflutningsstörf fyrir aðra en ríkið þótt talið sé rétt að setja slíkum störfum mörk í reglugerð. Nauðsynlegt er fyrir alþm. að átta sig vel á því, fyrir utan annað, hvort þeir telji að ríkið eigi að hefja rekstur málflutningsstofu fyrir almenning að einhverju marki. Stjórn Lögmannafélags Ístands telur slíka starfsemi betur komna hjá sjálfstæðum málflytjendum.“

Þetta var álit frá Lögmannafélagi Íslands þar sem bæði eru gerðar ýmsar almennar athugasemdir við þetta frv. svo og efnislegar athugasemdir við einstakar greinar.

Í framhaldi af því sem komið hefur fram hér í umr. vildi ég lýsa þeirri skoðun minni að úr því að mönnum þykir ástæða til að stofna embætti ríkislögmanns, sem mér finnst algjörlega ástæðulaust, fyndist mér eðlilegra að það heyrði undir forsrh. Ég tel að það eigi hvorki að heyra undir fjmrh. né dómsmrh. Fjmrh. á það ekki að tilheyra vegna þess að hann hefur augljóslega ákveðinna peningalegra hagsmuna að gæta við rekstur allra mála, en það geta verið fagleg sjónarmið sem varða fagráðuneytin sjálf sem gætu þá setið á hakanum.

Að mínu mati á þetta ekki að heyra undir dómsmrh. vegna þess að dómsmrh. á að hafa með framkvæmd og umsjón dómsstarfs og löggæslustarfs í landinu að gera en ekki innan stjórnarráðsins. Ég sé því engin rök fyrir því að þetta heyri frekar undir dómsmrh. en aðra. Mér finnst eðlilegt að ef á að setja upp einhvers konar sjálfstæðan ríkislögmannskontór þá heyri hann undir forsrh. til þess að leggja áherslu á sjálfstæði kontórsins í þessu kerfi.

Í framhaldi af því sem hv. þm. Halldór Blöndal taldi þegar hann lofaði hina nýju braut sem lagasetningin væri farin að færast inn á með því að í 3. gr. er sett þak á fjölda starfsmanna þá vildi ég spyrja þm. hvort hann telji að yfirleitt ætti að fara inn á þessa braut fyrir hinar ýmsu stofnanir ríkisins, þ. e. hvort það ætti þá að gera breytingar og hvort ríkisstj. hyggist þá flytja breytingar á lögum um þær stofnanir sem þegar eru til og tiltaka bæði heildarfjölda starfsmanna og starfsmanna í hinum ýmsu greinum, hinum ýmsu tegundum starfa sem unnin eru innan viðkomandi stofnunar. Þetta er á vissan hátt athyglisverður punktur sem ég held að menn ættu að velta fyrir sér.

Mér finnst þetta algjört rugl. Mér finnst algjört rugl að vera að setja inn í frv. til laga, þar sem menn þykjast vera að smíða almennan ramma utan um ákveðna faglega stöðu embættis, grein sem segir hversu margir eigi að vinna þar. Þeir ætla kannske að segja frá hvaða kontór eða frá hvaða húsgagnasmiðju á að kaupa innréttingarnar eða hvernig útidyraskrá á að vera á hurðinni. Mér finnst þetta vitleysa. Ég tel að löggjafarstarfið sé að fara inn á algjörlega rangar brautir með þessu, í fyrsta lagi að flytja yfir höfuð svona heimskulegt frv. og í öðru lagi að fara að setja svona þök á starfsmannafjölda. Það á að ákveða á allt öðrum grundvelli og allt öðrum vettvangi.