07.06.1985
Neðri deild: 89. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6069 í B-deild Alþingistíðinda. (5529)

Umræður utan dagskrár

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Mér barst í morgun bréf frá hv. þm. Kristínu Kvaran þar sem lagðar eru fyrir þessar spurningar sem hún óskar að svarað verði nú á fundi eða í upphafi fundar, eins og sagði í bréfinu, í dag. Fyrri spurningin hljóðar svo: „Hyggst ráðh. beita sér fyrir skjótri úrlausn þess neyðarástands sem skapast hefur á dagvistarheimilum og fer vaxandi?“ Síðari spurningin hljóðar svo: „Hverjar eru till. ráðh. um lausn á þessu mikla vandamáli?“

Ég vil, herra forseti, flytja nokkrar skýringar á máli mínu. Ég vil byrja á því að vitna til tveggja fyrstu greinanna í lögum um byggingu og rekstur dagvistarheimila fyrir börn, nr. 112/1976. Þær hljóða svo, með leyfi hæstv. forseta:

„1. gr. Markmið með starfsemi dagvistarheimila er að gefa börnum kost á að njóta handleiðslu sérmenntaðs fólks í uppeldismálum og búa þeim þau uppeldisskilyrði er efli persónulegan og félagslegan þroska þeirra. Gerð verði starfsáætlun á vegum menntmrn. er kveði nánar á um markmið og leiðir í uppeldisstarfi á dagvistarheimilum í samráði við þá aðila er að uppeldisog skólamálum vinna.“ Þetta var 1. gr. og ég vil taka fram um síðari málsgr. hennar að þetta hefur verið gert, sú áætlun liggur fyrir.

2. gr. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Menntmrn. fer með yfirstjórn mála er varða dagvistarheimili.“ Síðan er það útlistað í hverju þetta er fólgið og þá segir í fyrri málsgrein: „Aðili, sem hyggst setja á stofn dagvistarheimili, skal hljóta samþykki rn. til þess.“ Og síðari mgr.: „Ríkið skal leggja fram fé til byggingar dagvistarheimila fyrir börn en sveitarfélög til rekstrar þeirra svo sem fyrir er mælt í lögum þessum.“

Síðan er í lögunum rætt um það hverjir það geti verið sem njóti ríkisframlags til byggingar, en hins vegar er svo gert ráð fyrir því að þeir aðilar, sem fá þann ríkisstyrk til byggingar, annist reksturinn. Rekstur dagvistarstofnana á vegum sveitarfélaga fer ekki fram á vegum ríkisins. Þess vegna er það að ég verð að ítreka það um þetta mál, sem er fyrst og fremst kjaramál, að kjör þeirra, sem við dagvistarstofnanir starfa, fara eftir kjarasamningum Fóstrufélagsins og viðsemjenda þess. Núna standa yfir samningaviðræður um heildarkjarasamning BSRB milli þess og ríkisins, en röðun í launaflokka innbyrðis hefur ekki farið fram. Það er auðvitað hagsmunamál fyrir fóstrur hvernig þeim málum verður skipað, en félag þeirra starfar innan BSRB.

Ég veit að það þarf ekki að úflista það fyrir hv. þm. hvernig að þeim samningamálum er staðið. Þegar um er að ræða að starfsmenn sveitarfélaga semja innan vébanda BSRB þá getur menntmrn. ekki gripið inn í það mál. Það hlýtur mönnum að vera ljóst.

Hv. þm. vék að þeirri staðhæfingu minni í gær að fóstrur væru að langmestu leyti starfsmenn sveitarfélaga. Ég mun gera frekari grein fyrir því. Núna eru á launaskrá 46 fóstrur hjá ríkinu en hjá Reykjavíkurborg voru á dagvistarstofnunum á árinu 1984 samtals 3419 börn og á launaskrá 960 starfsmenn. Þá var talið að vantaði 50 fóstrur til starfa þar. Það liggja ekki fyrir núna nákvæmar upplýsingar um heildarþörf fósturmenntaðs fólks í landinu. En rn. mun eftirleiðis sem hingað til reyna að stuðla að því að nægilega margt menntað fólk sé til þeirra starfa í landinu og efla fósturmenntunina eftir föngum.

Það er mikið hagsmunamál að unnt sé að standa svo að kjaramálum þessara opinberu starfsmanna sem og fjölmargra annarra opinberra starfsmanna að mönnum og stofnunum haldist á hæfu fólki. Sem betur fer er mikill fjöldi mjög hæfra starfsmanna sem sinnir starfi sínu ár eftir ár þótt það gangi á ýmsu um það hvernig kjörin eru. Auðvitað vona menn það, þegar ljóst er að kjör opinberra starfsmanna hafa dregist aftur úr, að það lagist, jafnvel þótt í áföngum sé. En þessar samningaviðræður standa sem sé yfir, milli fjmrn. og BSRB.

Það er ljóst að bæði þær umr. sem hér fara fram og þær aðgerðir sem fram fóru í gær og fundir um þessi mál eru í kjarna sínum þáttur í kjarabaráttu. Við hljótum að horfast í augu við það, eins og raunar er hreinskilnislega sagt af þeim sem að þessum málum standa, að hér er um að ræða mótmæli vegna óánægju með kjör, vegna bágra kjara og aðstöðu. Hjá dagvistarstofnunum er ekki sama aðstaða til þess að drýgja tekjur sínar með yfirvinnu t. d. eins og er hjá ýmsum öðrum stofnunum, þannig háttar ekki til í rekstri þeirra stofnana.

Ég heyri á öllu að börnin hafa fengið göngutúr ofan í Alþingi og ég hef af því nokkrar áhyggjur að loftræsting í þessu húsi er kannske ekki svo góð sem skyldi. Það verður oft mjög þungt loft uppi á pöllum í Alþingishúsinu, sérstaklega þegar þar er mjög margt fólk. En það verða auðvitað þeir að meta sem börnunum sinna, hve lengi þau þola við þarna uppi. Ég geri ráð fyrir að það séu e. t. v. foreldrar barnanna sem eru í fylgd með þeim en að þetta sé ekki liður í starfsemi dagvistarstofnana. Vissulega er það litríkt og skemmtilegt að fá svona mannskap hér í húsið í heimsókn öðru hvoru. Mætti það nú vera oftar og kannske á öðrum stöðum í húsinu en uppi á þessum þröngu pöllum þar sem svo lágt er til lofts. (Gripið fram í: Taka við þarna niðri?) Já, það væri kannske ljúfara samkomulag hér oft ef þessi mannskapur tæki við hérna svona dag og dag a. m. k.

Herra forseti. Ég vil taka það fram, þó að hér sé vissulega um áhyggjuefni að ræða, þegar mikil hreyfing er á starfsmönnum dagvistarstofnana, þá er að mati rn. fullfast að orði kveðið þegar sagt er að það sé neyðarástand. Það hefur skapast vandi við að fá fósturmenntað fólk í allar þær stöður dagvistarheimilanna sem æskilegt er að fósturmenntað fólk sinni. En ein ástæðan fyrir þessu er örari uppbygging dagvistarheimila í landinu síðustu árin en sem fjölguninni í fósturmenntuðu stéttinni nemur.

Ríkið tók við rekstri Fósturskólans 1973 og hófst þá handa um að stækka hann. Árin 1975–1985 hefur fjöldi útskrifaðra fóstra árlega verið frá 54–66, oftast um 60. Alls hafa útskrifast 985 fóstrur frá því að skólinn tók til starfa. Umsóknafjöldi hefur undanfarin ár verið á bilinu 90–100 og inn hafa verið teknar um 70 nú síðustu árin. Núna er umsóknarfresturinn ekki liðinn, hann var framlengdur í vor, en komnar eru á milli 40 og 50 umsóknir um skólavist.

Rn. styður viðleitni Fósturskólans til að efla og bæta starfsemi sína og koma á framhaldsnámi. En eins og hv. fyrirspyrjandi sagði mun þurfa tiltekinn fjölda nemenda til þess að hægt sé að halda þeirri fræðslu uppi í framhaldsnáminu.

Þetta er mjög mikilvægur þáttur í því að stuðla að lausn þess vanda sem skapast af fóstruskorti, sem sé að sjá til þess að nægilega margt fólk, sem er menntað á þessu sviði, sé til taks á vinnumarkaðinum. Það er mjög líklegt að launakjörin hafi afgerandi áhrif á aðsókn fóstra í störf á dagvistarheimilum eins og segja má um allar starfsstéttir. En eins og ég hef gert grein fyrir ræður menntmrn. litlu um þau mál, því miður. Langflestar fóstrurnar starfa hjá sveitarfélögum sem reka dagvistarheimili en aðeins mjög lítill hluti hjá ríki og einkaaðilum.

Eins og kunnugt er þá er rekstrarkostnaður dagvistarheimila uppi borinn að nokkru leyti af daggjöldum foreldra, það eru foreldrar og sveitarfélögin sem skipta rekstrarkostnaðinum á milli sín. Það hafa stundum verið uppi umr. um það í sveitarstjórnum sérstaklega að skynsamlegt gæti verið að skoða þessa skiptingu betur með það fyrir augum að þeir sem gætu og hefðu efni til greiddu meira af hinum raunverulega kostnaði þannig að sveitarfélögin þyrftu ekki að greiða rekstrarkostnaðinn niður í eins ríkum mæli. Það er staðreynd að þeir sem gæta sjálfir barna sinna á heimilum sínum fá ekki niðurgreidda barnagæslu eins og þeir sem hafa börn á dagvistarheimilum sveitarfélaga. Ég held að það séu mörg rök sem mæla með því að hafa þarna nokkurn sveigjanleika. Ég geri mér hins vegar grein fyrir þeirri hættu sem er á því að þetta verði örðugt í framkvæmd hreinlega vegna þess að uppgjörið hefur farið fram á dagvistarstofnununum sjálfum og það er ekkert skemmtilegt fyrir þá sem þar starfa að standa frammi fyrir tekjuflokkun foreldra. Ég tel að það hljóti að þurfa að koma þessu við með öðrum hætti. Hins vegar er niðurgreiðsla sveitarfélaganna á rekstrarkostnaðinum þáttur af hinni félagslegu þjónustu sem látin er í té af sveitarfélögum. Það er ævinlega matsatriði hvernig á að halda á þeim málum, en vel má vera að í aðferðinni sjálfri kunni að liggja einhver lausn á kjaramálum fóstranna. Þetta er atriði sem ég tel vert að taka fram. Svo er á hitt að líta að mjög eru mismunandi þarfir heimila fyrir dagumönnun barna og mismunandi þarfir þeirra heimila sem hafa börn á dagvistarstofnunum. Það gegnir oft á tíðum allt öðru máli þegar barn er vistað í leikskóla jafnvel fyrst og fremst af félagslegum ástæðum barnsins sjálfs til þess að gefa því tækifæri til samneytis við önnur börn og leikja í öruggu umhverfi. Það gegnir e. t. v. nokkuð öðru máli í þeim tilfellum en þegar einnig er til að dreifa þeirri ástæðu að börnin hafa ekki umönnun á þeim tíma á heimilum sínum vegna útivinnu foreldra.

Ég tel að það mætti vel hugsa sér að eitthvað létti það meðferð þessara mála að hafa meiri sveigjanleika í starfsemi leikskóla. Ég hygg að varðandi þau börn sem sækja leikskóla fyrst og fremst af þessum félagslegu ástæðum en ekki vegna þess að einhver sé ekki heima á heimili þeirra til að annast þau gæti verið mjög mikið gagn í leikskólavist jafnvel aðeins tvisvar eða þrisvar í viku og önnur börn gætu fengið vist hina dagana. Ég veit að þetta getur verið nokkuð vandasamt í framkvæmd en þarf ekki að vera það. Ég hef rætt þetta við fóstrur og ég hygg að menn séu sammála um það að þessi hugmynd geti haft ýmsa kosti. Það er á vissan hátt léttara fyrir lítið barn að vera þannig skemmri tíma að heiman eða skipta honum, en þetta er atriði sem m. a. gæti leyst úr þörf fyrir fleiri börn.

Þetta er eitt af þeim atriðum sem sveitarfélögin munu vafalaust athuga í sambandi við lausn þessara mála. Þessa vildi ég geta einungis vegna þess að það sem hér er verið að ræða er hluti af því stóra dæmi sem er inntakið og tilgangurinn í starfsemi dagvistarheimila. Tilgangurinn með starfsemi dagvistarheimila er fyrst og fremst að tryggja öryggi og velferð barnanna undir handleiðslu þeirra sem hafa menntað sig sérstaklega til þess. Það er von mín að það takist að koma kjörum fóstra og menntunarmálum fyrir á þann veg að nægilegur fjöldi fólks sæki í fóstrunámið, þaðan útskrifist nægilegur fjöldi hæfs og dugandi fólks sem lætur sér annt um börnin og að það takist að koma kjaramálum þeirra fyrir á þann veg að störfin reynist líka af þeim ástæðum viðunandi fyrir þá sem við slíkt vilja starfa.

Ég hygg, herra forseti, að ég hafi gert grein fyrir viðhorfum mínum til þessara mála. Ég hygg líka að ég hafi gert fyrir því grein á þann veg að það ætti að mega skiljast að menntmrn. hefur alls ekki launamálin með höndum með neinum hætti, það hefur ekki frekari tök á því að grípa inn í þau en hver annar. Það eru hins vegar aðrir þættir þessara mála sem undir menntmrn. heyra og fyrir þeim hef ég gert grein.