06.11.1984
Sameinað þing: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 801 í B-deild Alþingistíðinda. (553)

89. mál, skattar af Mjólkursamsölunni

Fyrirspyrjandi (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Þetta er aðeins til að leiðrétta eða fyrirbyggja misskilning.

Hæstv. ráðh. komst svo að orði að hér væri alls ekki um neitt samkomulag að ræða, heldur væri beðið túlkunar á réttum lögum. Við erum að tala um tvennt. Annars vegar eru til umræðu hin gagnmerku lög Kristjáns konungs, hans hátignar, sem eru um að þessi fyrirtæki skuli undanþegin útsvari og tekju- og eignarskatti. Ef beðið er einhverrar túlkunar á þessum lögum spyr ég hæstv. fjmrh.: Er þetta mál fyrir dómstólum eða hverjir eru það sem ætla að túlka þessi lög? Þurfa þessi lög einhverrar túlkunar við?

Um hitt atriðið þarf ekki að deila. Hæstv. ráðh. sagði: Það hefur verið gert samkomulag í ríkisstj. og milli hæstv. ráðh. landbúnaðar- og fjármála. Um hvað? Um að fresta gjaldtöku af lögboðnum sköttum þ.e. söluskatti og vörugjaldi, meðan rannsókn fer fram á verðmyndun í þessum bransa. Það er auðvitað ekkert annað en pólitískt samkomulag.

Það er því tvennt til: Annars vegar er pólitískt samkomulag gert milli ráðh. og innbyrðis innan ríkisstj., hins vegar eru auðvitað lög sem gilda í landinu. Þar er mjög forvitnilegt að vita: Fyrir hvaða dómstólum er það mál?