07.06.1985
Neðri deild: 89. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6076 í B-deild Alþingistíðinda. (5532)

Umræður utan dagskrár

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég fagna því að hér hefur gefist tækifæri til að taka til umræðu það alvarlega ástand sem nú ríkir í dagvistarmálum. Hæstv. menntmrh. hefur hér talað og svarað þeim fsp. sem hv. þm. Kristín Kvaran beindi til hennar. Ég verð að segja að mér fannst harla lítið að græða á svörum hæstv. ráðh. Hún notar mest af sínum tíma í að reyna að ýta því frá sér að hún færi með yfirstjórn mála varðandi dagvistarmálefnin, hlutur menntmrh. í yfirstjórn takmarkaðist bara við byggingu dagvistarheimila, mátti helst skilja af máli hæstv. ráðh.

En ef maður les lögin þá eru þau skýr. Þar segir í 2. gr. laga um byggingu og rekstur dagvistarheimila fyrir börn: „Menntmrn. fer með yfirstjórn mála er varða dagvistarheimili.“ Það segir ekkert um það í lögunum að yfirstjórn þessara mála skiptist milli menntmrn. og sveitarfélaganna, eins og mér fannst að lægi í orðum hæstv. menntmrh.

Komu fram hjá hæstv. ráðh. einhverjar tillögur eða lausnir á þessu vandamáli? Harla var það nú lítið. En hæstv. ráðh. virtist þó hafa eina lausn á þessum vanda. Nefndi hún það að hún væri tilbúin til þess að beita sér fyrir því — t. d. í samráði við sveitarfélögin — að bæta kjör og aðbúnað fóstra? Nefndi hún það hvernig haga mætti dagsvistarmálum og uppbyggingu þeirra með þeim hætti að það mundi fullnægja þörf fyrir dagvistarrými? Nei. Hæstv. ráðh. fannst samt að hún hefði dottið ofan á mjög snjalla lausn á þessu máli. Lausnin var sú að skipta vikunni milli tveggja barna. Börnin væru tvö sem skiptu vikunni á milli sín, annað yrði tvo daga í viku á dagvistarheimilunum og hitt þrjá daga í viku.

Þetta er alveg furðulegt sem fram kemur hjá hæstv. ráðh., að takmarka dagvistun barna um helming. Það er lausnin. Þekkir hæstv. ráðh. ekki stöðu, aðbúnað og kjör kvenna á vinnumarkaðnum? Hvað eiga mæður að gera sem verða að vera á vinnumarkaðnum hvort sem þeim líkar betur eða verr vegna framfærslu heimilanna? Eiga þær líka að skipta á milli sín einu starfi, vera tvo daga á vinnumarkaðnum í viku og heima þrjá daga? Og hvað eiga þær að gera — skipta á milli sín þessum 14 000 kr. launum sem þær hafa og hafa upp úr því 7000 kr. hver sem ekki einu sinni nægir ef konur þurfa að leita með börn sín í einkagæslu sem er yfir 7000 kr.?

Þetta er lausn hæstv. ráðh. En samt liggur fyrir að við óbreyttar aðstæður sé ekki hægt að halda opnum dagvistarheimilunum sem fyrir eru. Það liggur einnig fyrir að á biðlista dagheimila séu milli 1600–1700 börn, en um 3000 börn eru nú á dagvistarheimilum og um 1100 í einkagæslu. Fyrir liggur einnig að hvorki fóstrur né foreldrar barna vilja að öllu óbreyttu að fleiri dagvistarheimilum verði komið á fót. Til þess sé engin aðstaða að óbreyttu og því sé meginkrafan að hægt verði að halda viðunandi ástandi á þeim dagheimilum sem fyrir eru. Svona er nú komið.

Það liggur einnig fyrir að á þriðja þúsund starfsfólks og foreldra barna hafa með undirskriftum krafist úrbóta á þessu ófremdarástandi. Ástæðurnar, sem gefnar eru fyrir þessu ástandi sem skapast hefur á dagvistarheimilum, er mikill flótti fóstra frá dagvistarheimilum vegna lágra launa og gífurlegs vinnuálags. Ástæðurnar eru ekki eingöngu flótti fóstra heldur og Sóknarkvenna sem ekki síður en fóstrurnar hafa haldið dagvistarheimilunum gangandi.

Skv. þeim upplýsingum sem fyrir liggja vantar 50 fóstrur hjá borginni og er þá aðeins miðað við að hafa eina fóstru á deild. Ef framfylgja á lagaákvæðum um að allir starfsmenn sem sinna fóstrustörfum séu fóstrumenntaðir vantar nú 250 fóstrur til starfa. Til marks um hvað hér er alvarlegt vandamál á ferðinni og hve starfsfólk, bæði fóstrur og Sóknarkonur, gefst hreinlega upp og hættir störfum á dagvistarheimilum þá hættu samtals 226 fóstrur og Sóknarkonur á árinu 1984 á dagheimilunum og 136 á leikskólum. Á dagheimilum 1984 voru það 42 fóstrur og hvorki meira né minna en 184 Sóknarkonur og á leikskólum hættu árið 1984 8 forstöðumenn, 42 fóstrur og 86 Sóknarkonur. Samtals hafa því hreinlega gefist upp vegna mikils vinnuálags og lágra launa á dagheimilum og leikskólum á árinu 1984 358 fóstrur og Sóknarkonur, en sumar þeirra eru í hlutastörfum.

Þegar litið er til þess að um 480 stöðugildi eru á dagvistarheimilum sést vel hvað hér er mikið vandamál á ferðinni. Hér er á ferðinni einmitt lýsandi dæmi um hefðbundna kvennastarfsgrein þar sem saman fer mikið vinnuálag og sultarlaun. Við skulum reyna að draga lærdóm af þessu því að ég tel að það, sem er að ganga yfir núna í ýmsum kvennastarfsgreinum, er að konurnar eru búnar að fá nóg, eru að gefast upp á þeim kjörum, aðbúnaði og vinnuþrældómi sem þeim er búinn. Við höfum fyrir okkur að það er flótti úr kennarastéttinni sem ekki er síst skipuð konum. Erfiðlega gengur að fá fólk til starfa í fiskvinnslunni þar sem konurnar eru einnig að gefast upp vegna vinnuþrældóms og lágra launa. Og nú bætast við dagvistarheimilin.

Ég hef oft talað fyrir því hér á hv. Alþingi hve brýnt sé orðið að endurmeta hefðbundin kvennastörf og hef flutt um það till. og frv. ár eftir ár en lítill hljómgrunnur virðist hafa verið fyrir því máli hér á hv. Alþingi. Við sjáum hverjar afleiðingarnar eru. Konurnar eru teknar að flýja hinar hefðbundnu kvennastarfsgreinar og neyðarástand er að skapast í sumum þeirra. Við skulum líka átta okkur á því að það er algjör forsenda fyrir því að konur geti verið á vinnumarkaðnum að dagvistarmálin séu í viðunandi lagi. Það er langt í frá að svo sé, jafnvel áður en til kom sú aðstaða sem nú er uppi á dagvistarheimilum þegar stefnir í að loka þurfi þeim sem fyrir eru. Hér er um að ræða jafnréttismál, eitt af lykilatriðum til að jafnrétti verði náð milli kynja og að konum verði sköpuð skilyrði á við karla til að hasla sér völl í atvinnulífinu eða á stjórnmálavettvangi, svo dæmi sé tekið, og oft og iðulega einnig forsenda fyrir því að konur geti lagt út á menntabrautina og stundað það nám sem hugur þeirra stendur til.

Það er langur vegur frá að dagvistarþörfinni sé fullnægt og það sem bjargað hefur þeim málum eru hinar svokölluðu „dagmömmur“ sem nú hafa í gæslu eða á s. l. ári tæp 1100 börn og voru það 300–400 konur sem tóku að sér gæslu barna á sínum heimilum. Þessar konur eiga ekki síst þátt í því að ekki hefur ríkt hreint öngþveiti og neyðarástand í þessum málum. En þó að þessar konur hafi ekki mikið upp úr því að taka börn inn á heimilin til sín í gæslu þá er gífurlegur munur á því gjaldi sem greiða þarf vegna gæslu barna í heimahúsum og á dagvistarheimilum. Nú kostar fyrir heilsdagsgæslu á dagvistarheimilum 2400 kr. en á áttunda þúsund þarf að greiða fyrir börn í einkagæslu, eða um 7300 kr. Þetta er helmingurinn af þeim launum sem Sóknarkonur og aðrar konur í láglaunastéttum í hinum hefðbundnu kvennastarfsgreinum hafa í laun skv. kauptöxtum þeim sem þær þurfa að búa við, enda er ljóst að ástandið í dagvistarmálum, sem nú stefnir í að fari versnandi, kemur hreinlega í veg fyrir að margar konur geti verið á vinnumarkaðnum þegar þær þurfa að greiða helminginn af þeim sultarlaunum, sem þær fá, í gæslu fyrir barn sitt. Þær hafa í raun ekkert upp úr því að vera á vinnumarkaðnum þegar launin ganga að verulegu leyti til þess að hreinlega gera þeim kleift að komast á vinnumarkaðinn. Sé um fleiri en eitt barn að ræða verða þær hreinlega að borga með sér á vinnumarkaðnum ef gæsla fyrir tvö börn í einkagæslu er orðin 14–15 000, eða sama upphæð og algeng er í hinum hefðbundnu kvennastarfsgreinum. Slíkt er ástandið.

Það er engin furða þótt lögð hafi verið hér mikil áhersla á það að fá fram þessa utandagskrárumræðu hér á hv. Alþingi og leita svara við því hjá hæstv. menntmrh., sem fer með yfirstjórn dagvistarmála, hvaða hugmyndir og tillögur eru uppi til að koma þessum málum í viðunandi horf. Í raun og sannleika er það lykilatriði til að leysa þetta vandamál að af alvöru verði tekist á við það, bæði af stjórnvöldum og verkalýðshreyfingunni, að fá fram nýtt verðmætamat á störfum í hefðbundnum kvennastarfsgreinum. Það er ekki bara brýnt að endurmeta störf kennarastéttarinnar, eins og hæstv. menntmrh. hefur talað fyrir að gera þurfi, heldur og í öllum kvennastarfsgreinum.

Ég spyr t. d. hæstv. menntmrh.: Er hæstv. menntmrh. tilbúinn til þess sem lið í lausn á þeim vanda sem við ræðum hér að beita sér fyrir því að endurmat fari fram á fóstrustörfum? Ég spyr hæstv. ráðh. og vænti svara við því hér við þessa umr. Því fyrr sem menn átta sig á þeirri staðreynd, því fyrr sem tekist verður á við það mál að endurmeta störf í hefðbundnum kvennastarfsgreinum, að vinnuframlag kvenna verði eðlilega metið í þjóðfélaginu og að augu manna opnist fyrir því að það er ekki endalaust hægt að kaupa vinnuframlag kvenna ódýru verði, því fyrr finnum við lausn á þessu máli.

Það er löngu orðið tímabært að aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld átti sig á því að vinnuframlag kvenna er forsenda fyrir því að hjól atvinnulífsins snúist eðlilega, að framleiðslugreinarnar gangi og að hægt sé að vænta aukinnar framleiðni og hagvaxtar í þessu þjóðfélagi. Þegar fyrir liggur að atvinnulífið, ekki síst undirstöðuframleiðslugreinarnar, geta ekki gengið nema til komi vinnuframlag kvenna þá er orðið tímabært að menn átti sig á því að til að svo megi verða er það meginforsenda að vel sé búið að dagvistun barna.

Það skulu verða mín lokaorð að ég vænti þess að við þessa umr. komi fram skýrari svör frá hæstv. ráðh. um hennar till. til lausnar á þessum vanda. Það er löngu orðið tímabært að konur sýni það með eftirminnilegum hætti hvers virði vinnuframlag þeirra er þjóðarbúinu og setji í sameiningu fram þá ófrávíkjanlegu kröfu að endurmat fari fram á hefðbundnum kvennastörfum í þjóðfélaginu.