07.06.1985
Neðri deild: 89. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6081 í B-deild Alþingistíðinda. (5535)

Umræður utan dagskrár

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég skal hafa þetta aðeins stutta athugasemd. En mér finnst erfitt að skilja við þessa umr. svo ekki komi fram frekari hugmyndir eða tillögur frá hæstv. menntmrh. á lausn þessa vandamáls sem við hér ræðum. Ég beindi til hæstv. menntmrh. ákveðinni spurningu og ég kann illa við það að fá ekki svör við þeirri spurningu, sem ég beindi til hennar, áður en þessari umr. lýkur. Ég taldi það vera eitt mikilvægt atriði til lausnar þessum vanda að endurmat færi fram á láglaunastörfunum og þá á störfum fóstra. Ég spurði hæstv. ráðh. að því hvort hún væri tilbúin — eins og hún lýsti yfir að endurmat færi fram á störfum kennaranna — að beita sér fyrir því að endurmat færi fram á fóstrustörfunum. Ég vænti svara við því frá hæstv. ráðh. áður en þessari umr. lýkur. Hæstv. ráðh. þarf aðeins að taka hér eina eða tvær mínútur til þess að svara því og ég vænti að ráðh. svari því nú við þessa umr.