07.06.1985
Neðri deild: 89. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6082 í B-deild Alþingistíðinda. (5537)

479. mál, ferðamál

Frsm. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Samgn. hefur fjallað um frv. til l. um skipulag ferðamála. Nefndin hefur rætt frv. á mörgum fundum og kallað marga til viðræðna, alla helstu forvígismenn í ferðamálum og fulltrúa frá höfuðgreinum ferðamála. Nefndinni hafa borist ýmsar athugasemdir, tillögur og umsagnir sem fjallað hefur verið um eftir föngum. Nm. eru einhuga um að mæla með samþykkt frv. með brtt. sem fluttar eru á sérstökum þskj. Undir þetta hafa allir hv. fulltrúar í samgn. ritað nöfn sín, en einn með fyrirvara, hv. 3. þm. Vestf. Og hefur hann fylgt þeim fyrirvara eftir með því að flytja brtt. á þskj. 1162.

Það er ekki ástæða til þess að fara mörgum orðum um aðdraganda þessa frv. eða sögu ferðamála. Þeir sem vilja fræðast nánar um það geta lesið grg. frv. En það er rétt að tæpa aðeins á helstu brtt. sem nefndin gerir við frv. á þskj. 1138. Það eru ekki stórvægilegar breytingar. Uppbygging þessa lagabálks — þessara laga — verður hin sama og verið hefur, en þó eru gerðar nokkrar breytingar sem máli skipta.

Ég ætla aðeins að víkja að því skv. 1. gr. er lögð áhersla á það að ferðamálin eru atvinnugrein sem menn binda vonir við, sem tilheyrir nútíð og framtíð. Og þetta er atvinnugrein sem er í örri þróun. Þess vegna er það að 4. gr. laganna breytist nokkuð. Það er fjölgað fulltrúum í ferðamálaráði. Það sem er þar mest áberandi er það að ferðamálasamtök utan Reykjavíkur,sem stofnuð hafa verið á síðustu árum, eru tekin með.

Þá er brtt. við 8. gr. þar sem kemur fram að fríhöfninni í Keflavík er gert að greiða til ferðamálaráðs gjald er nemur 10% af árlegri vörusölu eins og verið hefur. En það er tekið fram í brtt. að fríhöfnin skuli greiða gjaldið beint til ferðamálaráðs af sölu hvers mánaðar og fellur það í gjalddaga eigi síðar en 15 dögum eftir lok mánaðarins. Og síðan er tekið fram hvernig þessu fjármagni skuli ráðstafað. Það er skoðun nm. að ef góð skipan kæmist á þessi mál sem fjallað er um í 8. gr., þá væri mikið unnið.

Það verður svo breyting á III. kafla laganna, um Ferðaskrifstofu ríkisins, en um það ætlum við nm. að sé allvíðtækt samkomulag m. a. að starfsfólki Ferðaskrifstofu ríkisins verði gefinn kostur á að gerast hluthafar í nýju hlutafélagi sem ráðgert er að stofna um ferðaskrifstofuna. Nú, síðan eru nokkuð breytt V. kafla laganna, um Ferðamálasjóð. Og ýmislegt fleira bar á góma í nefndinni, svo sem t. d. ákvæði í 35. gr. Ýmsir vildu að hæstv. ráðh. legði ríka áherslu á að ákveða íslenska leiðsögumenn í ferðalögum erlendra ferðamanna um landið o. s. frv., o. s. frv.

Loks er það 38. gr. sem breytist á þann veg að frv. þetta, ef að lögum verður, öðlast gildi 1. okt. 1985. Að síðustu skal tekið fram að í samgn. ríkti að sjálfsögðu hinn ljúfasti samstarfsvilji og einhugur allra nm. sem ber að þakka og virða.