07.06.1985
Neðri deild: 89. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6084 í B-deild Alþingistíðinda. (5539)

479. mál, ferðamál

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þó að mikið handapat sé nú hér í þingstörfum og mikill hraði á málum og á það ýtt að mál gangi hratt fyrir sig, þá ætla ég ekki að neita mér um að segja örfá orð um þetta að mörgu leyti merka frv. sem hér er til umfjöllunar. Það hefði auðvitað verið æskilegt að við hefðum haft hér í hv. Nd. og á Alþingi ærinn tíma fyrir okkur til að ræða þennan mikla málaflokk. Ég vil þó sérstaklega taka fram að ég held að samgn. hafi hvergi kastað til höndum og unnið þarft verk og lofsamlegt í því að ná samkomulagi og laga til þetta frv. Og ég segi það hnarreistur héðan úr þessum virðulega ræðustól, herra forseti, þó að ég sé aðili að þeirri nefnd.

Ég vil sérstaklega fagna því samkomulagi sem þarna náðist og þeim brtt. sem samgn. varð sammála um að gera á frv. Ég vil aðeins segja það út af brtt. hv. 3. þm. Vestf. að ég tel ekki rétt eða sanngjarnt að flokka atvinnugreinar niður með þeim hætti sem leiða mundi af samþykkt slíkrar till. sem hann flytur. Við skulum hafa það í huga að hér er einmitt gjaldeyrisaflandi atvinnugrein á ferðinni að verulegu leyti og það hlýtur að þurfa að koma til álita jafnt um ferðaþjónustu og uppbyggingu á því sviði eins og um aðrar atvinnugreinar hvort réttlætanlegt er að taka á því sviði erlent lán fremur en einhvers staðar annars staðar. Þess vegna treysti ég mér ekki til að styðja þá brtt. þó að ég styðji þá hugsun sem ég skil að að baki henni liggi, að draga úr óhóflegum erlendum lántökum og reyna að spyrna þar við fæti.

Ég tel að vel hafi tekist til með breytingar á III. kafla þar sem er eignaraðild starfsfólks Ferðaskrifstofu ríkisins að þeim rekstri. Þar er gott starfsfólk sem hefur unnið merkilegt og mjög þarft starf. Um það er ekki deilt. Það er því ánægjulegt ef orðið getur samstaða um að það eigi aðild að rekstrinum með þessum hætti og ég styð þá tilhögun sem þar er lögð til að verði.

Að síðustu, herra forseti, um VI. kafla og ýmis ákvæði sem þar eru. Ég er í hópi þeirra nefndarmanna sem hefðu kannske kosið að fá þar aðeins ákveðnara orðalag, eins og hv. frsm. rakti í ágætri framsögu sinni að uppi hefðu verið skoðanir um, en ég sætti mig þó fyllilega við það að þetta standi svona og treysti þá á að í framkvæmd takist að hafa þessi mál í öllu fastari skorðum en verið hefur. Hóf er jafnan best í öllu og í ferðamálum erum við Íslendingar ekki hvað síst að selja aðgang að þeirri merkilegu og fágætu auðlind sem er landslag og náttúra Íslands. Þar þarf því að hafa aðgát við og æskilegt væri að yfirvöld ferðamála mörkuðu sér framtíðarstefnu um það hvert er hið heppilega meðalhóf sem við Íslendingar eigum að stefna á hvað varðar aðgang og sölu að þeirri auðlind.